Afmælisbörn 19. nóvember 2019

Elsa Sigfúss

Fjögur tónlistartengd afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi:

Elst afmælisbarna dagsins er Trausti Thorberg Óskarsson gítarleikari en hann er níutíu og tveggja ára gamall. Trausti lék með ýmsum danshljómsveitum á árum áður, s.s. Krummakvartettnum, Neistum og hljómsveitum Eyþórs Þorlákssonar, Carls Billich og Þóris Jónssonar, auk KK-sextetts en hann var einn af stofnmeðlimum þeirrar sveitar. Trausti starfrækti ennfremur eigin sveit um tíma.

Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari er fimmtíu og fimm ára gömul í dag, hún er með fremstu sellóleikurum landsins og hefur þrátt fyrir klassískan bakgrunn starfað jafnt með klassíska geira tónlistarinnar á Íslandi og þeim poppaðri. Hún hefur leikið inn á fjölmargar plötur í gegnum tíðina, beggja megin línunnar milli klassíkur og léttari tónlistar. Hún hefur einnig gefið út sínar eigin.

Þá er Þorbjörg Daphne Hall sellóleikari og doktor í tónlistarfræðum þrjátíu og fimm ára gömul á þessum degi, hún hefur gert garðinn frægan með Hjaltalín en hefur einnig leikið með Drýas. Sellóleik hennar má einnig heyra á plötum annarra flytjenda s.s. Fræ og Bubba Morthens svo dæmi séu nefnd.

Elsa Sigfúss söngkona (f. 1908) átti einnig afmæli þennan dag. Elsa var altsöngkona en hafði einnig lært á selló og píanó, hún starfaði allan sinn feril í Danmörku og er sá Íslendingar sem hefur sungið inn á flestar plötur, á annað hundrað talsins. Elsa lést 1979.