Elsa Sigfúss (1908-79)

Elsa Sigfúss (2)

Elsa Sigfúss

Elsa Sigfúss er að öllum líkindum sá íslenski tónlistarmaður sem sungið hefur inn á flestar plötur en staðfest er að um hundrað og tuttugu plötur séu til útgefnar með söng hennar. Allt eins er líklegt að þær séu fleiri enda starfaði Elsa allan sinn söngferil í Danmörku, plötur hennar voru flestar gefnar út fyrir danskan markað og því erfiðara en ella að skrásetja alla hennar útgáfusögu.

Elsa Sigfúss (Elsa Sigfúsdóttir) f. 1908 var dóttir Sigfúss Einarssonar tónskáld og Valborgar Einarsson en móðir hennar var dönsk (fædd Hellemann). Elsa fæddist í Reykjavík en flutti ung til Danmerkur ásamt fjölskyldu sinni og hlaut tónlistarlegt uppeldi enda lifðu foreldrar hennar og hrærðust í tónlist alla tíð. Elsa lærði á píanó og selló og lék m.a. á selló með Hljómsveit Reykjavíkur í upptökum gerðum í tilefni af Alþingishátíðinni 1930. Þær upptökur voru gefnar út og eru frumraun hennar á plötu.

Upphaflega ætlaði Elsa sér aldrei að gerast söngkona, til þess hafði hún of djúpa rödd (kontraalt) en eftir áeggjan Dóru Sigurðsson söngkonu og -kennara hóf hún söngnám. Fljótlega eftir að hún hóf að syngja opinberlega í Kaupmannahöfn vakti hún athygli, hún söng víðs vegar á tónleikum og í danska útvarpið en einnig kom hún heim til Íslands og söng á tónleikum, það átti hún eftir að gera reglulega allan sinn söngferil.

Menn hrifust af söng Elsu og var hún kölluð stúlkan með flauelsröddina, svo fór að hún fékk styrk til framhaldsnám í Þýskalandi en þá hafði hróður hennar borist víða, t.a.m. hafði hún sungið í útvarpi í Danmörku og var þeim tónleikum útvarpað víðsa vegar um Evrópu.

Fyrsta plata Elsu kom út 1937 og var um að ræða 78 snúninga plötu rétt eins og langflestar þær plötur sem út komu með söng hennar en þær urðu á annað hundrað eins og segir hér að framan, upptekin lög með henni eru þó líklega eitthvað á fjórða hundrað. Elsa söng iðulega á dönsku á þeim plötum, þó með nokkrum undantekningum.

Fyrri hluti söngferils Elsu var einkum undirlagður klassískri trúartónlist en síðar lagði hún einnig áherslu á dægurlög og mun hún hafa verið með vinsælli dægurlagasöngvurum Danmerkur í kringum og fram yfir 1950. Í einni tónleikaferð sinni til Íslands lagði hún t.d. nokkra áherslu á léttari tónlist, þá við undirleik Carls Billich, hljómsveitar Aage Lorange og fleiri. Algengast var þó að móðir hennar (nefnd Valborg Einarsson) léki undir með henni, einnig má nefna Jóhann Þorsteinsson. Þess má geta að Elsa varð fyrst íslenskra kvenna til að syngja jólalag á plötu en það var lagið Heims um ból (1945), reyndar hafði hún einnig sungið jólalög á dönsku fjórum árum fyrr.

Söngferill Elsu Sigfúss spannaði áratugi en hún hætti að syngja opinberlega síðla árs 1964, þá hafði hún verið sjúklingur um árabil eftir að hafa dottið og skaddað hrygginn árið 1947.

Þótt Elsa hafi fyrst og fremst verið söngkona fékkst hún einnig við að semja tónlist enda af miklum tónlistarættum, hún hlaut fálkaorðuna 1961 fyrir framlag sitt til sönglistarinnar en féll nokkuð í skuggann í kjölfarið enda annars konar tónlist sem hóf innreið sína og varð vinsælust á sjöunda áratugnum. Elsa lést 1979.

Tvöföld safnplata með söng Elsu Sigfúss kom út á vegum útgáfufyrirtækisins Smekkleysu 1999 og 2000, sá pakki bar heitin Elsa Sigfúss: Vals moderato og Elsa Sigfúss: Ykkar einlæg og hefur að geyma úrval af lögum Elsu. Vala Kristjánsdóttir og Trausti Jónsson höfðu yfirumsjón með þeirri útgáfu en Pétur Pétursson og Bjarki Sveinbjörnsson rituðu um feril hennar í bæklingi sem fylgdi útgáfunni. Á þeirri plötu má heyra efni sem ekki hafði áður komið út á plötum, þ.á.m. lög eftir Sigfús Einarsson föður Elsu.

Lög Elsu hafa ennfremur komið út á nokkrum safnplötum í seinni tíð, má þar nefna Íslenskar söngperlur (1991), Óskastundin (2002), Óskastundin 4 (2005), Síðasta lag fyrir fréttir (1993) og Svona var 1952 (2005).

Efni á plötum