Orion [2] (1964-70)

Orion og söngkonan Rósa Ingólfsdóttir

Hljómsveitin Orion var nokkuð sér á báti þann tíma sem hún starfaði síðari hluta sjöunda áratugar síðustu aldar en hún var nokkuð trú sinni Shadows-stefnu meðan aðrar sveitir breyttust í bítla- og síðan hippasveitir. Sveitin hafði líka þá sérstöðu í bransanum að hún var yfirlýst bindindissveit en slíkt var fátítt í þessum heimi.

Sveitin var stofnuð í lok árs 1964 og kom fram fyrst í janúar 1965, það voru fjórir ungir hljóðfæraleikarar úr Lúðrasveit Reykjavíkur sem langaði að stofna gítarsveit í anda The Shadows en þeir voru Eysteinn Jónasson bassaleikari, Björn Björnsson trommuleikari, Snorri Snorrason sólógítarleikari og Sigurður Snorrason ryþmagítarleikari, tveir síðast töldu voru bræður.

Orion spilaði nokkuð í Breiðfirðingabúð til að byrja með og var sveitin mjög virk um vorið og sumarið, einhver þeirra félaga söng í upphafi en ekki liggur fyrir hver það var. Hins vegar eftir að þeim félögum bauðst að spila á Vellinum fyrir bandaríska hermenn um haustið 1965 varð sveitin instrumental um tíma og var þá hreinræktuð Shadows-sveit.

Um vorið 1966 hætti Björn trommuleikari og gekk þá til liðs við Pónik en í hans stað kom Stefán Jökulsson, sveitin fór því í smápásu um sumarið en spilaði heilmikið eftir það og m.a. nokkuð Glaumbæ, á þessum tíma lék Oriona einnig nokkuð á Vellinum.

Orion og Sigrún Harðardóttir

Í ársbyrjun 1967 gekk söngkonan Rósa Ingólfsdóttir til liðs við Orion og söng með sveitinni næsta árið, hún söng t.a.m. með sveitinni í sjónvarpsþætti sem sendur var út í byrjun árs 1968. Um vorið 1968 kom hins vegar önnur söngkona inn í sveitina í stað Rósu, hún hét Sigrún Harðardóttir, var frá Akureyri og kærasta Sigurðar gítarleikara, og hafði þá nýverið vakið nokkra athygli með fjögurra laga plötu en hafði einnig sungið í Blandaða MA kvartettnum sem naut mikilla vinsælda nyrðra.

Sigrún kom suður að loknu skólahaldi í MA og söng með Orion um sumarið en sveitin lék þá mestmegnis í Sigtúni en einnig nokkuð á dansleikjum á landsbyggðinni, m.a. í Húsafellsskógi um verslunarmannahelgin. Um veturinn 1968-69 bar minna á sveitinni, Sigrún fór aftur norður til náms og bræðurnir voru einnig erlendis í námi þannig að sveitin spilaði nokkuð stopulla en birtist þó í öðrum sjónvarpsþætti.

Árið 1969 fór Orion í hljóðver og þar voru tekin upp fimm lög sem gefin voru út undir merkjum Fálkans undir titlinum Orion & Sigrún Harðardóttir, Sigrún söng þrjú laganna en tvö þeirra voru instrumental. Á meðal laganna sem flest voru erlend var að finna bítlalagið I will. Platan fékk þokkalega dóma í Tímanum og Vikunni en vakti ekki mikla athygli að öðru leyti enda var tónlist sveitarinnar kannski ekki alveg í takti þess sem vinsælast var í þann tíma.

Um sumarið 1969 lék sveitin lengstum í Leikhúskjallaranum en um haustið birtist sveitin í þriðja sinni á sjónvarpsskjám landsmanna en þar var hafði Jón Möller leyst Sigurð af hólmi, hluti sveitarinnar birtist reyndar einnig í jólaþætti í Sjónvarpinu þar sem þeir bræður Snorri og Sigurður ásamt Guðmundi Emilssyni fluttu jólalög með Sigrúnu.

Annars hafði söngkonan Linda Walker tekið við af Sigrúnu þarna og þannig skipuð starfaði Orion í Leikhúskjallaranum fram á sumarið 1970 en þá hætti sveitin og hefur ekki komið saman síðan svo staðfest sé.

Efni á plötum