Orion [1] (1956-58)

Orion og Elly Vilhjálms

Nokkrar hljómsveitir hafa gengið undir nafninu Orion, sú fyrsta á sjötta áratugnum en hún bar ýmist nafnið Orion kvintett eða Orion kvartett, fyrrnefnda nafnið þó mun lengur. Sveitin varð að öllum líkindum fyrsta íslenska hljómsveitin til að fara í útrás.

Það var gítarleikarinn Eyþór Þorláksson sem stofnaði Orion kvintett á fyrri hluta árs 1956 en hann var þá nýhættur í KK-sextettnum. Aðrir meðlimir sveitarinnar voru þeir Andrés Ingólfsson saxófónleikari, Sigurður Guðmundsson píanóleikari, Sigurbjörn Ingþórsson bassaleikari og Guðjón Ingi Sigurðsson trommuleikari, þáverandi eiginkona Eyþórs, Elly Vilhjálms var söngkona sveitarinnar.

Orion kvintett lék lítið á almennum dansleikjum til að byrja með en spilaði töluvert á Keflavíkurflugvelli fyrir bandaríska hermenn þar, það varð til þess að sveitinni var boðið að spila á herstöðvum í Þýskalandi þangað sem hópurinn hélt sumarið 1956 og starfaði þar í um tveggja mánaða skeið, fyrst í nágrenni við Frankfurt en síðan í Karlsruhe. Orion lék nokkur lög inn á segulband í Þýskalandi en þær upptökur voru aldrei gefnar út þótt þær yrðu leiknar í Ríkisútvarpinu hér heima nokkru síðar.

Gerður var góður rómur að leik sveitarinnar í Þýskalandi og þegar þeim félögum var boðið að spila um tveggja mánaða skeið fyrir hermenn í Norður-Afríku, einkum Marokkó slógu þau til og héldu suður eftir. Þar áttu þau eftir að vera við spilamennsku fram yfir áramótin 1956-57 utan Sigurbjörn en hann þoldi illa loftslagið og var kominn heim til Íslands nokkru fyrr.

Orion á forsíðu Vikunnar

Hingað komin hélt Orion nokkra tónleika hér heima við miklar vinsældir enda hafði hún lítt leikið fyrir almenning hér áður en hún fór og gerði garðinn frægan í útlöndum, segja má að söngkonan Elly hafi vakið einna mestu eftirtektina en hún hafði nokkuð mótast sem söngkona og ekki síst í framkomu á þeim mánuðum sem sveitin hafði starfað erlendis. Haukur Morthens söng einnig nokkuð með sveitinni um þetta leyti en þegar Orion bauðst að gerast húshljómsveit á Hótel KEA á Akureyri um sumarið varð nokkur breyting á skipan hennar og var hún þá skipuð þeim Eyþóri og Andrési sem áður en í stað hinna voru nú komnir Gunnar Reynir Sveinsson víbrafónleikari og Hjörleifur Björnsson bassaleikari, og gekk sveitin því eðlilega undir nafninu Orion kvartett um sumarið. Elly var ekki með í för þar sem þau Eyþór áttu barn í Reykjavík (sem reyndar hafði verið skilið eftir á Íslandi meðan þau voru erlendis) en hún kom norður í fáein skipti og söng með sveitinni á dansleikjum utan hótelsins.

Þegar Orion kom aftur suður til Reykjavíkur um haustið 1957 varð hún aftur að kvintett en ekki finnast þó upplýsingar um hverjir skipuðu hana þá, Elly hóf þá aftur að syngja með sveitinni og um svipað leyti komu út tvær tveggja laga plötur með Hauki Morthens þar sem kvintettinn lék undir.

Sveitin var ráðin í Breiðfirðingabúð um haustið og starfaði þar fram yfir áramótin 1957-58, hún lék í fáein skipti m.a. á skemmtun í Iðnó og þar söng Þórir Roff með henni ásamt Elly en litlu síðar hætti hún störfum og Andrés saxófónleikari stofnaði nýja sveit upp úr henni í sínu nafni með Þóri sem söngvara. Eyþór hélt þá til Spánar til gítarnáms og fljótlega skildu þau Elly að skiptum en Elly átti þá eftir að slá rækilega í gegn með KK-sextettnum litlu síðar.

Efni á plötum