Ormarslónsbræður (um 1930-50)

Ormarslónsbræður – Jóhann og Þorsteinn Jósefssynir

Bræðurnir Jóhann Óskar og Þorsteinn Pétur Jósefssynir frá Ormarslóni í Þistilfirði voru landsþekktir harmonikkuleikarar á fyrri hluta síðustu aldar en þeir bræður léku á dansleikjum og héldu tónleika víða um land.

Jóhann (f. 1911) var öllu þekktari en hann varð fyrstur til að gefa út harmonikkuplötu hér á landi (1933), sú plata var einnig tímamótaverk að því leyti að hún varð fyrsta danslagaplatan hérlendis og jafnframt sú fyrsta sem hafði að geyma frumsamið efni flytjanda. Þorsteinn (f. 1914) sem var þremur árum yngri lék lengi á harmonikkuna eftir eyranu en nam síðan af bróður sínum, og saman hófu þeir um 1930 að leika saman á nikkur sínar á dansleikjum í heimabyggð og síðar víðar um norðan- og austanvert landið undir nafninu Ormarslónsbræður en þeir þóttu sérlega lunknir.

Þá fóru þeir einnig í tónleikaferðir og léku á tónleikum víða um landsbyggðina en þar léku þeir klassísk verk af miklu listfengi. Tvær slíkar ferðir til Reykjavíkur hafa verið mönnum minnisstæðar, sú fyrri var farin 1938 og var getið í fjölmiðlum þess tíma sem og þeirrar síðari sem var farin í lok stríðs 1945 en þá héldu þeir einnig tónleika á Akureyri og Siglufirði á leið sinni suður yfir heiðar. Slíkir tónleikar voru auglýstir í blöðunum og getið eftir á í fréttum af menningarlífinu enda fengu þeir frábærar móttökur og dóma fyrir leik sinn og oftar en ekki var húsfyllir á tónleikum þeirra, þeir bræður munu a.m.k. einu sinni hafa verið fengnir til að leika saman í útvarpinu en Jóhann gerði það reyndar oftar. Þeir Ormarslónsbræður lögðu mikla vinnu í leik sinn og fóru margar stundir í æfingar fyrir slíka tónleika en þeir bræður voru einnig framsýnir og pöntuðu t.d. allar útsetningar á klassískum verkum sem þeir fluttu, erlendis frá – líklega mest frá Noregi.

Þorsteinn dó af slysförum á Raufarhöfn vorið 1970 en Jóhann í hárri elli árið 2004.