Oz artists (1997-98)

Tónlistarmennirnir Þórhallur Skúlason og Aðalsteinn Guðmundsson skipuðu dúettinn Oz artists en þeir hófu að gera eins konar teknótónlist árið 1997 undir því nafni, báðir hafa verið virkir í raftónlistarsenunni og starfað undir ýmsum nöfnum auk þess að fást við hliðartengd verkefni s.s. útgáfu o.fl.

Oz artists sendu fyrst frá sér fjögurra laga ep-plötuna The Zone árið 1997 en hún kom út í tvenns konar útgáfum, svörtum og bláum vínyl. Önnur smáskífa kom út ári síðar, hún hét K-Kort og um svipað leyti kom út á vegum Æ recordings breiðskífan Ooger sem kom annars vegar út í formi tvöfaldrar vínylplötu sem innihélt níu lög, en hins vegar geisladiskaútgáfu sem hafði tíu lög.

Fleiri plötur komu ekki út með dúettnum en árið 2015 sendu þeir félagar frá sér þrefalda vínylplötu í nafni Thor en sú plata bar titilinn Consequences og innihélt efni frá þeim undir nöfnunum Thor, Sanasol og Oz artists. Sú plata kom út í Þýskalandi og var pressuð í glæran vínyl í takmörkuðu upplagi (hundrað eintökum).

Þar fyrir utan hefur tónlist Oz artists komið út á nokkrum safnplötum og plötum sem hafa að geyma endurhljóðblandanir, bæði hér heima og erlendis.

Efni á plötum