Sanasol (1995-)

Sanasol

Raftónlistarmennirnir Aðalsteinn Guðmundsson og Þórhallur Skúlason hafa komið víða við í tónlistarsköpun sinni og voru reyndar framarlega í þeirri bylgju raf- og danstónlistar sem reis hér hæst á tíunda áratugnum í kjölfar svipaðrar bylgju á Bretlandseyjum, Aðalsteinn sem Yagya, Plastik o.fl. og Þórhallur sem Thor o.fl. en sá síðarnefndi hefur jafnframt rekið Thule records um árabil.

Þeir félagar hafa (líklega) frá árinu 1995 starfrækt dúettinn Sanasol sem leikur tónlist sem skilgreind hefur verið sem deep house, það var þó ekki fyrr en 1997 þegar Thule records var komin á fullt skrið, að Sanasol fór að láta að sér kveða á útgáfusviðinu og þá svo um munaði. Síðan þá hefur komið út fjölda smáskífa með dúettnum á vegum útgáfunnar sem mestmegnis hefur herjað á þýskan markað með tónlist sína, Sanasol fór því oft á síðustu árunum fyrir aldamót og lék í Þýskalandi og jafnvel Frakklandi, hugsanlega einnig miklu víðar. Sveitin hefur jafnframt gefið út eina breiðskífu, Deep thoughts (1997) en hún kom út bæði á geisladisk og á tvöföldum vínyl.

Tónlist Sanasol er ekki beinlínis mainstream tónlist en hefur notið vinsælda og virðingar innan ákveðins markaðs í Evrópu og hefur hún jafnframt komið út á fjölda íslenskra og erlendra safnútgáfa víðs vegar um álfuna, þar má nefna safnplötur eins og Kompakt Köln präsentiert Michael Mayer: Neuhouse (1998), Essential Mix Radio One 23.12.01 (2001), Jazzpresso Vol.2 (2001), Æ recording 3 (2001), Consequences (2015), XLR8R 381 (2015), Essential Mix (2018), 66 Degrees 09 (2002), Chill house (1999), Новости Подводного Ижевска III (2003), Yoshitoshi, The Classics: Vault I-III (2009), Fishcake: The sound of Thule (1998) og Voltt (2010),

Sanasol dúettinn var hvað virkastur á árunum í kringum aldamótin, lék t.a.m. hér heima á tónlistarhátíðinni Reykjavik music festival sumarið 2000 en minna hefur farið fyrir þeim félögum á síðustu árum á tónlistarsviðinu, sveitin hefur þó reglulega minnt á sig með smáskífuútgáfu þar sem vínyllinn hefur að sjálfsögðu verið fyrirferðamestur eins og iðulega í raf- og danstónlistargeiranum.

Efni á plötum