Galdrakarlar (1975-83)

Galdrakarlar

Hljómsveitin Galdrakarlar starfaði um nokkurra ára skeið á áttunda og níunda áratug liðinnar aldar, sveitin var lengi húshljómsveit í Þórscafé og kom hún við sögu á fáeinum plötum.

Galdrakarlar voru stofnaðir haustið 1975 upp úr hljómsveitinni Bláberi en hún kom fyrst fram opinberlega í febrúarmánuði 1976 og vakti þá einkum athygli fyrir skemmtilega spilamennsku, fjölhæfni og ekki síst fyrir fjölmenni en alls voru Galdrakarlarnir sjö talsins. Meðlimir sveitarinnar voru þá Pétur Hjálmarsson bassa- og flautuleikari, Hlöðver Smári Haraldsson hljómborðs- og flautuleikari, Vilhjálmur Guðjónsson saxófón-, harmonikku- og gítarleikari, Sophus Björnsson trommuleikari, Stefán S. Stefánsson þverflautu-, gítar- og saxófónleikari, Birgir Einarsson slagverks- og trompetleikari og Hreiðar H. Sigurjónsson klarinettu- og saxófónleikari.

Galdrakarlar hófu að leika á dansleikjum af fullum krafti við nokkrar vinsældir og reyndar voru nokkrar hliðarsveitir innan sveitarinnar, misstórar, og komu þær fram m.a. þegar hún gat ekki komið fram fullskipuð, þarna má nefna Tríó Vilhjálms Guðjónssonar, Adolf og Blue sky in the morning. Galdrakarlar komu fram í sjónvarpsþætti um vorið 1976 og um sumarið kom ástralska söngkonan Wilma Reading til landsins og söng með sveitinni í nokkur skipti. Í júní hafði sveitinni bæst liðsstyrkur en gítarleikarinn Guðlaugur Óttarsson kom þá inn í hana og lék með um tíma, þar með voru Galdrakarlarnir orðnir átta.

Um verslunarmannahelgina voru Galdrakarlar meðal hljómsveita sem skemmtu á útihátíðinni Rauðhettu ´76 við Úlfljótsvatn, fljótlega eftir það hafði fækkað í sveitinni niður í sex og um það leyti voru þeir félagar ráðnir sem húshljómsveit í Þórscafé og átti eftir að starfa þar mestmegnis um veturinn en einnig kom sveitin fram á samkomum hjá Jazzvakningu enda má segja að hún hafi verið eins konar stórsveit með djassívafi. Ásgeir Steingrímsson trompetleikari hafði þá komið inn í sveitina í stað Birgis Einarssonar. Sveitin var í Þórscafé oft auglýst undir nafninu Þórsmenn og gekk hún í raun undir báðum nöfnunum um tíma.

Sjö manna bandið Galdrakarlar

Sveitin starfaði áfram í Þórscafé en einnig kom hún eitthvað fram í Sigtúni 1977 og 78 en virðist lítið hafa spilað á almennum dansleikjum á landsbyggðinni, hún var þó meðal hljómsveita á bindindismótinu í Galtalæk um verslunarmannahelgina 1978. Það ár höfðu orðið mannabreytingar í sveitinni, Stefán S. Stefánsson var hættur og Már Elíson hafði þá tekið við af Sophusi Björnssyni við trommusettið. Sveitin gæti um þetta leyti hafa verið kvintett en þá lék hún á plötu færeyska tónlistarmannsins Kára Petersen Vælferðarvísur, meðlimir hennar voru þar Hlöðver Smári, Vilhjálmur, Ásgeir, Már og Gunnar Hrafnsson bassaleikari en auk þeirra lék harmonikkuleikarinn Bragi Hlíðberg á plötunni. Svo virðist sem Gunnar hafi einungis verið afleysingamaður og Pétur hafi ekki átt heimangengt í þessum upptökum.

Galdrakarlar léku áfram í Þórscafé og um sumarið 1979 kom bandaríska söngkonan Viola Wills hingað til lands og söng með sveitinni í nokkur skipti við góðar undirtektir og mun sveitin ásamt söngkonunni hafa leikið víða um land af því tilefni, um verslunarmannahelgina lék hún á Laugahátíð og um haustið var hún aftur ráðin til starfa í Þórscafé.

Árið 1980 voru þeir félagar áfram í Þórscafé en nú bættist við spilamennska í svokölluðum Þórskabarett sem settur var á svið þar í húsi sem og næsta vetur á eftir, 1980 til 81, um verslunarmannahelgina 1980 var sveitin hins vegar í Galtalæk. Þess má geta að meðlimir sveitarinnar skiptu með sér söngnum þannig að ekki lék hún eingöngu instrumental tónlist á dansleikjum.

Galdrakörlum auðnaðist sá heiður að leika á svokallaðri Stjörnumessu í upphafi árs 1981 en hún var eins konar uppskeruhátíð tónlistarmanna haldin af Vikunni og Dagblaðinu. Um það leyti skipuðu sveitina Pétur bassaleikari, Vilhjálmur gítar- og saxófónleikari, Hlöðver Smári hljómborðsleikari, Már trymbill og Sveinn Birgisson trompetleikari sem þá hafði komið í stað Ásgeirs Steingrímssonar. Sveitin lék áfram undir Þórskabarett í Þórscafé og um sumarið 1981 fór hópurinn með kabarettinn hringinn í kringum landið til að skemmta landsbyggðarfólkinu

Galdrakarlar í Þórscafé

Um sumarið 1981 kom einnig út þriggja laga plata með Galdrakörlum en hún hafði verið tekin upp í Hljóðrita 1979 með Violu Wills, á plötunni var að finna tvö lög eftir söngkonuna auk Over the rainbow. Ekki er að sjá að gagnrýni hafi birst um þessa plötu. Haustið 1981 mun sveitin hafa verið að leita að nýjum trommuleikara en Már mun þá eitthvað hafa starfað áfram með henni.

Árið 1982 léku Galdrakarlar sem áður í Þórscafé fram eftir ári en færðu sig síðan yfir á Broadway sem þá var nýtekið til starfa, sveitin fór einnig út á land og lék m.a. í Sjallanum á Akureyri. Um haustið kom síðan nýr trymbill í sveitina og var það líklega Árni Áskelsson, einnig mun Magnús Kjartansson hljómborðsleikari hafa komið við sögu hennar en ekki liggur þó fyrir hvenær það var. Þetta sama ár, 1982 léku þeir Galdrakarlar á plötu Örvars Kristjánssonar harmonikkuleikara, Heyr mitt ljúfasta lag sem Fálkinn gaf út, þar lék Ólafur Garðarsson trommuleikari með sveitinni og e.t.v. var hann þá meðlimur sveitarinnar.

Galdrakarlar störfuðu áfram fram yfir mitt ár 1983, um verslunarmannahelgina það sumar léku þeir á þjóðhátíð Vestmannaeyja en hættu fljótlega eftir það og hafa ekki starfað síðan þá. Afurðir sveitarinnar eru sem fyrr segir þriggja laga smáskífa með Violu Wills auk tveggja platna þar sem þeir léku annars vegar með Kára P, hins vegar Örvari Kristjánssyni.

Efni á plötum