Gautar (1955-97)

Gautar árið 1960

Hljómsveitina Gauta frá Siglufirði má með réttu telja með langlífustu hljómsveitum Íslandssögunnar en sveitin starfaði á sínum tíma í rúmlega fjóra áratugi og enn lengur ef talinn er með sá tími sem forsprakkar sveitarinnar, bræðurnir Guðmundur Óli og Þórhallur Þorlákssynir störfuðu sem Gautlandsbræður en nafni sveitar þeirra var breytt í Gauta árið 1955 og er því hér miðað við það ártal. Gautar náðu aldrei neinni landshylli, þeir sendu frá sér smáskífu á sjöunda áratugnum og breiðskífu á þeim tíunda en þekktasta afurð þeirra er líklega smellurinn Sem lindin tær, sem Guðmundur Óli Þorláksson söngvari söng ásamt Karlakórnum Vísi á Siglufirði við undirleik sveitarinnar en sveitin og kórinn áttu í góðu og miklu samstarfi um tíma.

Áðurnefndir Gautlandsbræður höfðu starfrækt samnefndan dúett frá árinu 1942 og hafði smám saman fjölgað í þeirri sveit með tímanum, þeim þótti þá ekki lengur við hæfi að starfa lengur undir Gautlands-nafninu en Gautland í Vestur-Fljótum var bærinn sem bræðurnir voru kenndir við áður og þeir voru báðir löngu fluttir inn á Siglufjörð. Sveitin var þó stöku sinnum auglýst áfram undir gamla nafninu, og reyndar allt til ársins 1965.

Þegar sveitin tók upp Gauta-nafnið 1955 voru meðlimir hennar sem fyrr segir bræðurnir Guðmundur Óli og Þórhallur Þorlákssynir sem lengi höfðu leikið á harmonikkur en um þetta leyti var Guðmundur Óli farinn að leika einnig á saxófón og Þórhallur á píanó, Þórður Kristinsson var trommuleikari og söngvari og Ragnar Páll Einarsson gítarleikari. Þannig skipuð starfaði sveitin til ársins 1963 en þá bættist henni söngvarinn Baldvin Júlíusson (bróðir Theódórs Júlíussonar leikara) en hann var aðeins fimmtán ára. Ári fyrr hafði sveitin komið fram í útvarpsþætti og söng Viðar Magnússon með henni þá en ekkert bendir til að hann hafi verið meðlimur Gauta.

Gautar

Gautar voru um tíma húshljómsveit á Hótel Höfn á Siglufirði, og sveitin hafði á síldarárunum margsinnis leikið á fjörugum dansleikjum á Siglufirði og m.a. á balli þar sem beita þurfti táragasi. Þeir félagar léku reyndar mjög víða um norðanvert landið á sjöunda og fram á áttunda áratuginn og lentu þá oft í því yfir vetrartímann að verða veðurtepptir þannig að dansleikjaferðir þeirra tóku mun lengri tíma en ætlað var, síðar reyndu þeir að halda sig mest á heimaslóðum og næsta nágrenni meðan hörðustu vetrarveðrin gengu yfir.

Árið 1965 urðu þau þáttaskil í sögu Gauta að Ragnar gítarleikari fluttist suður til Reykjavíkur og hóf þar að leika með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar á Hótel Sögu, sæti Ragnars tók Elías Þorvaldsson (sautján ára gamall) og lék á gítar en síðar einnig á hljómborð. Ári síðar gekk til liðs við sveitina skólastjóri tónlistarskólans á Siglufirði, Þjóðverjinn Gerhard Schmidt (sem síðan tók upp nafnið Geirharður Valtýsson) en hann lék á bassa í sveitinni (og reyndar einnig trompet), þar með var sveitin orðin sextett. Og mannabreytingum var ekki lokið því Jónmundur Hilmarsson trommuleikari kom inn í stað Þórðar um þetta leyti.

Þess má geta að Gautar fluttu árið 1966 í útvarpsþætti lagið Walk tall (sem Val Doonican hafði gert vinsælt) með íslenskum texta Ólafs Ragnarssonar (síðar fjölmiðlamanns og bókaútgefanda) undir titlinum Á sjó. Svavari Gests hjá SG-hljómplötum leist það vel á lagið og textann að hann fékk Ingimar Eydal og hljómsveit hans til að leika það inn á plötu með söng Þorvaldar Halldórssonar en það er löngu orðið sígilt í þeirra flutningi. Það má því segja að Gautar beri nokkra ábyrgð á vinsældum lagsins Á sjó.

Karlakórinn Vísir og Gautar

Geirharður bassaleikari var ekki bara skólastjóri tónlistarskólans á Siglufirði og meðlimur Gauta, hann var einnig stjórnandi Karlakórsins Vísis á Siglufirði og reif þar upp kórastarfið með eftirminnilegum hætti svo eftir var tekið, einhverjir meðlimir Gauta voru meðlimir kórsins og m.a. sungu Guðmundur Óli og Þórður oft einsöng með kórnum. Vísir og Gautar hófu samstarf sem varði um nokkurra ára skeið og skilaði sér m.a. í útgáfu tveggja breiðskífna, Þótt þú langförull legðir (1966) og Okkar glaða söngvamál (1969) þar sem sveitin lék undir söng kórsins. Á plötuumslagi fyrrnefndu plötunnar er Tómas Sveinbjörnsson [gítarleikari?] sagður vera einn meðlimur sveitarinnar en hann virðist ekki hafa staldrað lengi við í henni. Tvö lög nutu töluverðra vinsælda á þessum tveimur plötum og hafa ratað á fjölmargar safnplötur í seinni tíð, annars vegar er það lagið Kveiktu ljós sem blandaður kvartett söng og gaf sá kvartett út fjögurra laga plötu árið 1968 í kjölfar vinsælda lagsins undir nafninu Blandaður kvartett frá Siglufirði, Guðmundur Óli var einn fjórmenninganna í þeim kvartett og léku Gautar undir á þeirri smáskífu. Hins vegar er hér nefnt lagið Sem lindin tær af síðarnefndu plötunni (1969) en í því lagi syngur Guðmundur Óli einsöng, það lag hefur margoft verið endurútgefið með ýmsum öðrum flytjendum s.s. Helga Björnssyni.

Í árslok 1967 sendu Gautar sjálfir frá sér fjögurra laga smáskífu undir merkjum Fálkans en Fálkinn hafði einmitt gefið út plötur karlakórsins Vísis. Þrjú laganna voru erlend en eitt eftir Geirharð en hann útsetti einnig tónlistina, platan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu. Þess má geta að sveitin hafði á því ári komið fram í sjónvarpsþætti en sjónvarpið var þá á sínu fyrsta starfsári, annar þáttur með sveitina innanborðs var sýndur ári síðar.

Gautar störfuðu ekki alveg samfleytt og þrátt fyrir nokkrar vinsældir (einkum norðan heiða) tók sveitin pásur af einhverjum ástæðum, oft yfir vetrartímann. Skipan hennar var af því er virðist óbreytt með þá Jónmund á trommur, Baldvin söngvara, Elías á gítar, Geirharð á bassa og trompet og bræðurna Guðmund Óla á saxófón og harmonikku og Þórhall á orgel og sembalett, fram á árið 1970 en þá hætti Baldvin og tók Rafn Erlendsson við söngnum af honum. Samstarfið við karlakórinn Vísi hélt eitthvað fram á áttunda áratuginn en Geirharður kórstjórnandi mun hafa flutt frá Siglufirði 1974 og þ.a.l. hætt með kórinn og hljómsveitinni. Sveitin starfaði nokkuð stopult um miðjan áratuginn, Guðmundur Óli (sem sendi frá sér sólóplötu 1975) veiktist um það leyti og lést árið 1977 en ekki liggur alveg fyrir hver skipan sveitarinnar var um það leyti, fimm árum síðar lést Þórhallur bróðir hans og náði hvorugur þeirra því háum aldri. Þar með var enginn eftir af upprunalegu útgáfu Gauta.

Gautar 1976

Gautar hættu þó ekki störfum við þessi áföll og var sveitin gjarnan auglýst sem elsta hljómsveit landsins, árið 1982 voru meðlimir sveitarinnar þau Rafn sem þá hafði fært sig yfir á trommur, Elías hljómborðsleikari, Sverrir Elefsen bassaleikari, Stefán Friðriksson gítarleikari og Selma Hauksdóttir söngkona.  Um það leyti hugði sveitin á plötuútgáfu en af því varð ekki – í bili.

Á áttunda og níunda áratugnum fóru Gautar mun víðar yfir einkum yfir sumartímann m.a. á héraðsmótum, léku þá einnig á dansleikjum sunnan heiða og stundum á höfuðborgarsvæðinu en voru sem fyrr segir á heimaslóðum yfir vetrartímann. Sveitin kom m.a. fram á frægri kántrýhátíð á Skagaströnd sumarið 1984 og kom þ.a.l. fyrir í kvikmyndinni Kúrekar norðursins. Um það leyti sem myndin var sýnd (1985) virðist sveitin hafa verið lögst í dvala en hún var síðan endurvakin í lok ársins 1987, þá skipuð þeim Elíasi, Sverri og Stefáni en höfðu þá fengið sér til fulltingis Þórhall Benediktsson sem væntanlega hefur þá leikið á gítar, ekki liggur fyrir hver var trommuleikari sveitarinnar þá en það gæti hafa verið Magnús Guðbrandsson.

Gautar 1982

Sveitin starfaði nokkuð samfleytt næstu þrjú árin en virðist hafa farið aftur í pásu 1990, hún birtist þó aftur sumarið 1992 þegar hún kom saman fyrir Síldarævintýrið á Siglufirði um verslunarmannahelgina, á þeirri hátíð átti sveitin eftir að spila næstu árin en engar upplýsingar er að finna um hvort hún starfaði þess á milli.

Árið 1995 sendu Gautar frá sér plötuna Í vetrarbrautinni, fimmtán laga plötu sem þeir gáfu út sjálfir. Meðlimir sveitarinnar voru þá Elías, Stefán (sem spilaði nú á trommusettið) og Sverrir en þá höfðu gengið til liðs við hana Guðbrandur Gústafsson söngvari og saxófónleikari og Sigurður Jóhannsson gítarleikari. Fjölmargir söngvarar komu við sögu á plötunni. Flest laganna voru frumsamin og fékk platan þokkalega dóma í Morgunblaðinu en að öðru leyti vakti hún ekki mikla athygli.

Gautar störfuðu eitthvað áfram eftir útgáfu plötunnar, sveitin fór m.a. til Bandaríkjanna og lék á þorrablóti Íslendinga í New York, og eitthvað kom hún fram áfram á Síldarævintýrinu um verslunarmannahelgarnar en árið 1997 virðist sem sveitin hafi hætt endanlega og hefur að líkindum ekki verið endurvakin eftir það.

Efni á plötum