Gautlandsbræður (1942-55)

Gautlandsbræður

Bræðurnir Guðmundur Óli (1928-77) og Þórhallur (1929-82) Þorlákssynir voru þekktir um norðanvert landið um miðja síðustu öld undir nafninu Gautlandsbræður en þeir léku þá á dansleikjum á harmonikkur sínar. Guðmundur Óli og Þórhallur voru kenndir við Gautland í Vestur-Fljótum þar sem þeir ólust upp en þeir höfðu reyndar fæðst á bænum Gautastöðum í Austur-Fljótum.

Það mun hafa verið 1942 fremur en 41 sem þeir bræður hófu að leika á böllum en þeir voru þá einungis þrettán og fjórtán ára gamlir, reyndar munu systkinin hafa verið tíu talsins og einhverjir bræður þeirra kunna að hafa skemmt með þeim einnig.

Lengi vel störfuðu þeir tveir saman en smám saman bættist í hópinn, fyrst Þórður Kristinsson trommuleikari og söngvari og léku þeir sem tríó undir Gautlandsbræðra-nafninu um nokkurra ára skeið. Með tímanum fór Guðmundur Óli að leika á saxófón og Þórhallur á píanó og þar með fór harmonikkubragurinn af sveitinni og þegar Ragnar Páll Einarsson gítarleikari bættist í hópinn 1954 fannst þeim vart við hæfi lengur að nota Gautlandsbræðra-nafnið og breyttu því formlega 1955 í Gauta, þá voru bræðurnir líka löngu fluttir frá Gautlandi inn á Siglufjörð. Fleiri hafa sjálfsagt komið við sögu sveitarinnar.

Nafnið Gautlandsbræður var mönnum þó síður en svo gleymt því að í fjölda ára á eftir, allt til ársins 1965 voru Gautar stöku sinnum auglýstir undir nafninu Gautlandsbræður