Laglausir (1984-89)

Laglausir1

Laglausir

Hafnfirska hljómsveitin Laglausir varð sú sigursveit Músíktilrauna sem tengdi gleðipoppið við dauðarokkið en sigurvegarar áranna á undan höfðu verið gleðipoppsveitir sem síðan herjuðu á sveitaböllin. Laglausir léku þétt rokk en í kjölfarið fylgdu mun harðari sveitir árin á eftir.

Sveitin hafði verið lengi starfandi áður en hún sigraði Músiktilraunirnar, hún var stofnuð í Lækjaskóla í Hafnarfirði 1984 og spilaði nokkuð opinberlega áður en frægðin barði að dyrum vorið 1989. Þá voru meðlimir hennar Guðmundur Óli Hilmisson trommuleikari, Ásmundur H. Olsen söngvari og gítarleikari, Ellert Magnússon bassaleikari, Hilmar Gunnarsson gítarleikari og Sigurður Gissurarson hljómborðsleikari en einnig höfðu þeir bætt við sig söngvara, Birni Óskarssyni rétt fyrir keppnina.

Sagan segir reyndar að sigurinn í Músíktilraununum hafi reynst Laglausum dýrkeyptur þar sem meðlimir sveitarinnar hafi rifist heiftarlega um hvernig nýta ætti hljóðverstímana sem hún vann sér inn, það hafi gert útaf við samstarfið að lokum þrátt fyrir að sveitin hafi spilað nokkuð um sumarið 1989, meðal annars á Rykkrokk hátíðinni en þá munu þeir hafa verið orðnir fimm aftur. Hvað sem til er í því, er það staðreynd að sveitin náði að senda frá sér snældu með efni þetta sama ár en engar frekari upplýsingar er að finna um þá útgáfu.

Laglausir birtust aftur á sjónarsviðinu 1991 og 92, og eitthvað hafa þeir komið saman í seinni tíð en er líklega flestum gleymdir nema hörðustu aðdáendum í Hafnarfirði.

Efni á plötum