Fjallið eina

Fjallið eina
(Lag / texti: Sigvaldi Kaldalóns / Grétar Ó. Fells)

Leita ég afdreps um sléttunnar slóð.
Slétturnar engu leyna.
Ég þarf að fela mig fyrir þjóð,
finna mig sjálfan og yrkja ljóð,
minnast við mold og steina.

Þess vegna kýs ég að flýja á þinn fund
Fjallið mitt góða eina,
láta þig geyma mig, stytta mér stund
stirðnuðu vængjunum lyfta’ yfir grund,
gróðurreit mannlegra meina.

Einbúinn þögli, ég elska þinn frið,
óska mér hjá þér að búa.
Þú ert mín kirkja og himins hlið.
Hjartað kannast sín draumalönd við,
og verður fært um að fljúga.

Þegar ég hungraður bið um brauð,
býður mér heimurinn steina.
Hjá þér finn ég minn falda auð,
fegurstu blómin sem hugði ég dauð.
Fjallið mitt – Fjallið eina.

[m.a. á plötunni Einar Sturluson – Þú bláfjallageimur]