Afmælisbörn 1. apríl 2020

Sigurður Dagbjartsson

Þrjú tónlistartengd afmælisbörn eru skráð á þessum degi gabbanna.

Andri Hrannar Einarsson trommuleikari er fimmtíu og eins árs gamall í dag. Þekktasta hljómsveit Andra var klárlega Áttavillt (8 villt) en hann var einnig í sveitum eins og KFUM & the andskotans, Langbrók, Saga Class, Silfur og Noname. Andri er frá Siglufirði og þar hefur hann alið manninn síðustu árin, hefur annast dagskrárgerð í útvarpi og starfað í hljómsveitum þar í bæ.

Sigurður Dagbjartsson söngvari og gítarleikari er sextíu og eins árs gamall í dag. Sigurður hefur leikið með fjölmörgum hljómsveitum og er Upplyfting sjálfsagt þeirra þekktust en einnig má nefna sveitir eins og Babadú, KÓS, Ljósbrá, Maraþon, Pondus, Tónika, Kusk, Danssveitin, Karnival, Fiction og X-ist. Sigurður söng hið margfræga lag um Rabbarbara-Rúnu sem allir þekkja.

Að síðustu er hér nefnd Hera Hjartardóttir tónlistarkona sem er þrjátíu og sjö ára gömul. Hera vakti fyrst athygli árið 1999 í Nýja Sjálandi þar sem hún hefur mest alla tíð búið, þegar hún sendi frá sér tólf laga plötuna Homemade aðeins tæplega sextán ára gömul en þá hafði hún komið fram í fjölmörg skipti þar í landi sem trúbador. Hún varð þó ekki þekkt hér á landi fyrr en árið 2001 þegar platan Not so sweet kom út en síðan þá hefur hún sent frá sér nokkrar plötur og kemur heim til Íslands reglulega til tónleikahalds.