GO kvintett (1946-48)

GO kvintettinn

GO kvintett vakti mikla athygli á sínum tíma en hún var meðal fyrstu djasssveita hér á landi og jafnframt sú fyrsta sem kennd var við sveiflutónlist.

Sveitin var stofnuð í Hafnarfirði upp úr hljómsveitinni Ungum piltum árið 1946, í nafni Gunnars Ormslev en hann var þá á unglingsaldri, nýfluttur heim til Íslands frá Danmörku þar sem hann kynntist djasstónlistinni á stríðsárunum. Í byrjun var sveitin kvartett (GO kvartettinn) en auk Gunnars sem lék á altsaxófón voru í sveitinni Guðmundur Steingrímsson trommuleikari, Eyþór Þorláksson bassaleikari og Vilbergur Jónsson píanóleikari. Fljótlega leysti Bragi Björnsson Vilberg af hólmi og lék sveitin í Góðtemplarahúsinu í Hafnarfirði þar sem hún vakti mikla athygli, svo mikla að sagan segir að menn hafi gert út rútur úr Reykjavík fullar af fólki til að líta bandið augum.

Um haustið 1946 var sveitin ráðin til að leika í Mjólkurstöðinni við Laugaveg sem þá var tiltölulega nýopnuð en þá var hún orðin að kvintett, meðlimir voru þá Gunnar, Guðmundur, Eyþór, Ólafur Gaukur Þórhallsson gítarleikari og Steinþór Steingrímsson píanóleikari. Þannig skipuð lék sveitin í Mjólkurstöðinni um veturinn við miklar vinsældir og söng Sigrún Jónsdóttir m.a. með sveitinni en hún var þá að stíga sín fyrstu skref á söngferlinum.

Haustið 1947 réðist Gunnar til hljómsveitar Björns R. Einarssonar en GO kvintettinn virðist samt sem áður hafa starfað eitthvað áfram, hún var að minnsta kosti enn starfandi í ágúst 1948.