Ungir piltar [1] (1944-45)

engin mynd tiltækHljómsveitin Ungir piltar var starfandi í Hafnarfirði á fimmta áratug síðustu aldar, líklegast á árunum 1944-45. Þeir Eyþór Þorláksson gítar- og harmonikkuleikari og Guðmundur Steingrímsson trommuleikari stofnuðu sveitina en þeir voru þá bara um fimmtán ára gamlir, einnig var Matthías Á. Mathiesen með í byrjun. Fljótlega bættist Vilberg Jónsson harmonikkuleikari við og síðar Bragi Björnsson harmonikku- og píanóleikari en Vilberg hætti síðar.

Ungir piltar, sem var eins konar djassband, spiluðu víða sunnan- og suðvestanlands næstu tvö árin, yfirleitt sem tríó en stundum léku Helgi Gunnarsson trompetleikari og Eyjólfur Einarsson saxófón- og harmonikkuleikari með sveitinni. Gunnar Ormslev saxófónleikari lék með þeim síðasta árið sem þeir störfuðu en þeir voru allir, eins og nafn sveitarinnar gefur til kynna, mjög ungir. Ungir piltar var í raun fyrsta hljómsveit þeirra pilta en þeir áttu flestir eftir að skapa sér nafn sem tónlistarmenn síðar en GO kvintettinn var stofnaður upp úr þessari sveit.