Upplyfting (1975-)

Upplyfting frá Hofsósi

Saga hljómsveitarinnar Upplyftingar er nær samfelld frá árinu 1975 og hún telst því vera með eldri sveitum landsins, oft er hún sögð vera frá Samvinnuskólanum á Bifröst – stofnuð þar 1979 eða 80 en hún er nokkrum árum eldri en það og kemur upphaflega frá Hofsósi. Eitt megin einkenni Upplyftingar er, reyndar eins og hjá mörgum sveitum sem ná svo háum starfsaldri, fjöldi meðlima en mikill fjöldi hljóðfæraleikara og söngvara hefur starfað með sveitinni.

Það var Kristján Björn Snorrason sem stofnaði Upplyftingu haustið 1975 á Hofsósi en hann hafði þá um tíma haft umsjón með samkomuhúsinu Höfðaborg þar í bæ og fengið þangað til spilamennsku fjöldann allan af þekktum hljómsveitum. Hann mun hafa séð að oft skipti ekki endilega máli hvort þessar sveitir væru vel spilandi eða góðar heldur að þær héldu uppi stuði. Það varð því úr að hann stofnaði hljómsveitina en aðrir stofnmeðlimir hennar voru Arnbjörg Eiríksdóttir, Anna Jónsdóttir og Gísli Kristjánsson trommuleikari. Sjálfur lék Kristján líklega á harmonikku eða hljómborð en ekki liggur fyrir hvert hlutverk kvennanna var í sveitinni, önnur þeirra að minnsta kosti hefur þó líklega sungið.

Sveitin lék í fyrsta sinn opinberlega á áramótadansleik á Hofsósi undir Upplyftingar-nafninu en Arnbjörg mun hafa komið með nafnið á sveitinni. Upplyfting lék næstu árin víða um norðan- og austanvert landið, mestmegnis á Hofsósi en einnig m.a. á héraðsmótum og þess konar samkomum. Fljótlega tók Björgvin Guðmundsson við trommuleiknum af Gísla og fjölmargar aðrar mannabreytingar urðu næstu árin, Guðný Snorradóttir systir Kristjáns tók við af Arnbjörgu en einnig komu fleiri systur hans við sögu sveitarinnar, Anna Jóna sem reyndar staldraði stutt við og svo Kristín. Og fleiri léku með Upplyftingu þessi fyrstu ár sveitarinnar, Kristinn B. Ásmundsson gítarleikari, Kjartan Erlendsson gítarleikari, Inga Rún Pálmadóttir gítarleikari (sem síðar gerði garðinn frægan með Grýlunum) og Ingimar Jónsson trommuleikari. Enn fleiri munu hafa leikið með sveitinni um lengri eða skemmri tíma en upplýsingar vantar um þá.

Síðasta gigg þeirrar útgáfu sveitarinnar sem kalla mætti Upplyftingu hinnar fyrri var sumarið 1979 á sumarhátíð ÚÍA á Eiðum en þá um haustið fóru þeir Kristján og Ingimar trommari suður í nám við Samvinnuskólann á Bifröst í Borgarfirði. Þar má segja að Upplyfting hin síðari hafi tekið við.

Þeir félagar gengu strax fyrsta veturinn á Bifröst til liðs við skólahljómsveitina sem þennan vetur (1979-80) gekk undir nafninu Capital, aðrir meðlimir þeirrar sveitar voru Sigurður Vilberg Dagbjartsson gítarleikari, Magnús Stefánsson bassaleikari og Birgir Sævar Jóhannsson gítarleikari, einnig höfðu þeir Friðrik Margeir Friðriksson og Haukur Ingibergsson eitthvað leikið með sveitinni um veturinn en sá síðarnefndi var skólastjóri Samvinnuskólans. Hann hafði verið töluvert í bransanum, m.a. leikið með Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar, og kom þeim félögum í skólahljómsveitinni í samband við Svavar Gests sem þá hafði rekið SG-hljómplötuútgáfuna í mörg ár. Það varð úr að sveitin tók upp tólf laga plötu, átta laganna voru eftir þá félaga (og Hauk) og hin fjögur eftir Jóhann G. Jóhannsson sem annaðist upptökustjórn en hann hafði einmitt stigið sín fyrstu skref í hljómsveitabransanum í þessum sama skóla nokkrum árum fyrr. Haukur kom við sögu á plötunni sem og Kristján Óskarsson hljómborðsleikari en þeir urðu síðan meðlimir sveitarinnar, sem þeir höfðu þá ákveðið að tæki upp Upplyftingar-nafnið frá Hofsósi.

Upplyfting 1980

Platan var tekin upp í Tóntækni og kom út um sumarið 1980 á vegum SG-hljómplatna, hún hlaut titilinn Kveðjustund 29-6 1980 (sem vísar til útskriftardagsetningar skólans) og sló óvænt í gegn enda var þessar vikurnar allt annars konar tónlist að taka yfir í íslensku tónlistarlífi – Bubbi Morthens og Utangarðsmenn með sitt gúanórokk. Titillag plötunnar, Kveðjustund varð strax vinsælt um sumarið og annað lag, Traustur vinur náði einnig töluverðum vinsældum en síðarnefnda lagið hefur haldið þeim allt til þessa dags og hefur fyrir löngu síðan orðið einn af hornsteinum íslenskrar dægurlagasögu sem margoft hefur verið endurútgefið á safnplötum en einnig hafa hljómsveitir og tónlistarmenn eins og Á móti sól, Plútó, Sixties, Gis Johannsson (undir titlinum You live on), Joe Gæ band og Blikandi stjörnur gefið það út í sínum útgáfum. Platan hlauta ágæta dóma í Morgunblaðinu, Tímanum og Dagblaðinu

Upplyfting fór á fullt um sumarið til að kynna plötuna og nýta sér vinsældirnar sem Kveðjustund og Traustur vinir höfðu aflað sveitinni, sveitin lék m.a. á Borgarfjarðargleði um verslunarmannahelgina – fyrsta skiptið af mörgum sem sveitin spilaði þar en að þessu sinni munu um tólf hundruð manns hafa sótt dansleik þeirra, sem haldinn var að Logalandi. Haukur skólastjóri slóst í för með sveitinni sem söngvari og gítarleikari um sumarið en einnig kom inn nýr trommuleikari í stað Ingimars, Þorleifur Jóhannsson. Sveitin var því að mestu skipuð nemendum Samvinnuskólans, auk skólastjóra þeirra.

Um haustið hófst skólahald á nýjan leik og stóð ekki til að spila mikið á dansleikjum um veturinn, Upplyfting kom þó fram í Klúbbnum í nokkur skipti en þar hafði sveitin leikið við miklar vinsældir sumarið á undan. Næsta vor (1981) bárust þær fréttir að sveitin færi á fullan skrið aftur um sumarið og að ný plata væri væntanleg, hljóðrituð í Hljóðrita. Hún kom út undir nafninu Endurfundir og þrátt fyrir vinsældir titillagsins sem var mjög í anda Kveðjustundar-ballöðunnar frá því sumarið á undan, hlaut platan ekki eins góðar viðtökur og fyrri platan, hún fékk t.d. slæma dóma í Helgarpóstinum. Jóhann G. Jóhannsson var þeim innan handar sem fyrr og samdi hann tvö laganna en hin voru að mestu eftir meðlimi sveitarinnar. Magnús söng á plötunni en kom að öðru leyti ekki við sögu um sumarið í ballspilamennskunni.

Upplyfting lék nokkuð mikið á dansleikjum þetta sumarið, m.a. á Landsmóti UMFÍ og svo auðvitað Borgarfjarðargleðinni um verslunarmannahelgina en minna fór fyrir þeim félögum um haustið, ekki var það þó vegna skólaanna því þeir voru nú allir útskrifaðir og Haukur hafði jafnframt látið af störfum sem skólastjóri Samvinnuskólans á Bifröst.

Upplyfting

Eftir áramótin 1981-82 fór aðeins að bera aftur á Upplyftingu á dansleikjamarkaðnum og í apríl birtist þriðja plata sveitarinnar á þremur árum og bar titilinn Í sumarskapi. Lagið Sumarfrí heyrðist nokkuð spilað þetta sumar en stóri smellurinn var hins vegar syrpa í anda Stars on 45 sem sveitin hafði sett saman undir nafninu Í sumarskapi og hafði að geyma átján misvinsæl lög úr íslenskri tónlistarsögu. Sum lagann voru vel þekktir sumarslagarar eins og Gvendur á eyrinni, Í sól og sumaryl og Flaskan mín fríð en einnig voru þarna minna þekkt lög sem margir þekkja aðeins úr syrpu þessari – og þá aðeins þann lagabút sem kemur þar fyrir. Platan seldist strax ágætlega og hún fékk þokkalega dóma í DV og ágæta í Morgunblaðinu. Kristján Óskarsson og Magnús Stefánsson komu við sögu plötunnar en munu ekki hafa spilað með sveitinni á dansleikjum sumarsins. Sem fyrr lék sveitin á Borgarfjarðargleði en einnig á samkomum eins og Húnavöku og almennum dansleikjum, þá var sveitin valin til að leika á bikarúrslitaleik karla í knattspyrnu síðsumars. Meðlimir sveitarinnar þetta sumar voru þeir Kristján B. Snorrason, Sigurður V. Dagbjartsson, Þorleifur Jóhannsson og Haukur Ingibergsson. Þess má geta að um haustið kom út lag með Sigurði á safnplötunni Við djúkboxið, það hét Rabbarbara-Rúna og sló í gegn en taldist ekki vera Upplyftingar-lag enda voru aðrir hljóðfæraleikarar með honum í því, Upplyfting tók þó lagið upp á sína arma og hafði það á prógrammi sínu og þegar safnplata með lögum sveitarinnar kom út löngu síðar var lagið þar.

Um veturinn 1982-83 spilaði Upplyfting mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu, þeir félagar spiluðu mikið í Klúbbnum og voru jafnframt húshljómsveit í Súlnasal Hótel Sögu fram að áramótum. Næstu árin fór minna fyrir sveitinni enda varð langt hlé á plötuútgáfu hjá henni og áherslan því ekki lögð á dansleikjahald, sveitin lék þó reglulega á böllum á höfuðborginni s.s. Klúbbnum og Skiphóli í Hafnarfirði (þar sem nektardansmærin Lola hjálpaði til við að auka aðsóknina) en einnig eitthvað á landsbyggðinni eins og hinni árlegu Borgarfjarðargleði um verslunarmannahelgina. Einnig lék sveitin í nokkur skipti erlendis, á þorrablótum Íslendingafélaga víðs vegar um lönd s.s. í Bandaríkjunum, Englandi og Norðurlöndunum.

Upplyfting 1986

Einhverjar mannabreytingar urðu á sveitinni og reyndar ekki alveg ljóst hverjir skipuðu sveitina á næstu árum, Þorsteinn Magnússon gítarleikari lék t.a.m. eitthvað með sveitinni, Ingimar trommuleikari gekk aftur til liðs við hana og Sigurður sagði skilið við sveitina um tíma. Lárentsínus Kristjánsson hljómborðsleikari gekk til liðs við sveitina og sumarið 1986 var Upplyfting skipuð þeim Kristjáni, Sigurði, Ingimari og Lárentsínusi. Þess má geta að Leoncie kom eitthvað fram með sveitinni haustið 1984.

Upplyfting lék ekki alveg samfleytt og líklega var sveitin t.d. alveg í fríi veturinn 1986-87 en árið 1989 var eins og aukinn kraftur kæmi í sveitina eftir nokkur tiltölulega róleg ár, hljómborðsleikarinn Birgir Jóhann Birgisson (sem þá hafði starfað með nýlegri sveit að nafni Sálin hans Jóns míns) gekk í sveitina og einnig var Már Elíson trommuleikari genginn til liðs við hana en aðrir liðsmenn voru þá Sigurður söngvari og Kristján hljómborðsleikari sem var þá eini liðsmaður Upplyftingar sem verið hafði í sveitinni frá upphafi. Sveitin spilaði mikið árið 1989 og einnig 1990 og réðist þá í plötugerð, þeir höfðu þá kynnst ungri og efnilegri söngkonu frá Ólafsfirði sem söng inn á plötuna og hún varð svo einn af meðlimum Upplyftingar, þetta var Sigrún Eva Ármannsdóttir og tilkoma hennar bauð óneitanlega upp á fjölbreyttari möguleika. Platan kom út um haustið 1990 undir nafninu Einmana og gaf Steinar hana út, hún hlaut fremur jákvæðar viðtökur gagnrýnenda dagblaðanna, fékk þokkalega dóma í DV og góða í Morgunblaðinu. Birgir hljómborðleikari samdi tvö laganna, m.a. titillagið Einmana sem Sigrún Eva söng og hlaut það nokkrar vinsældir. Á plötunni var einnig að finna syrpu í anda þeirrar á plötunni frá 1982, hún bar heitið La-la syrpan og hafði að geyma þekkta slagara, og varð að sjálfsögðu nokkuð vinsæl.

Upplyfting fylgdi plötunni nokkuð eftir með spilamennsku fram eftir árinu 1991 og snemma um sumarið kom út nýtt lag (Sumar og sól) á safnplötunni Bandalög 3, síðsumars komu svo tvö lög (Komin í sumarfrí / Allt sem ég þrái) á Bandalögum 4, þau lög vöktu ekki mikla athygli utan Komin í sumarfrí. Sigrún Eva hafði þarna skapað sér nokkurt nafn í tónlistinni, hún hafði vakið athygli í Landslags-keppninni 1990 með lagið Ég féll í stafi og í Landslagskeppninni haustið 1991 söng hún lag Birgis Jóhanns og Friðriks Karlssonar Vængbrotin ást, og átti síðar eftir að fara sem fulltrúi Íslands ásamt Sigríði Beinteinsdóttur (Heart 2 heart) í Eurovision keppnina vorið 1992 með lagið Nei eða já.

Upplyfting í kringum 1990

Upplyfting hafði verið húshljómsveit á Hótel Íslandi veturinn 1991-92 og um tíma sungu tvær söngkonur með sveitinni þar því Berglind Björk Jónasdóttir var liðsmaður hennar þá, reyndar virðist sveitin hafa verið sjö manna þennan vetur en ekki finnast upplýsingar um sjöunda meðliminn. Sumarið 1992 sögðu þau Sigrún Eva og Birgir Jóhann skilið við Upplyftingu til að stofna Þúsund andlit (sem hafði eiginlega orðið til í kringum Landslagið 1991) og eftir það var sveitin mun minna áberandi enda gerði hún þá meira út á árshátíða-, þorrablóta- og pöbbamarkaðinn en stærri dansleiki.

Sveitin minnkaði töluvert við þessi umskipti og næstu árin og reyndar alla tíð síðan hefur Upplyfting verið þriggja til fimm manna sveit með nokkuð breytilega mannaskipan eftir tilefni og aðstæðum hverju sinni, og starfað með nokkuð samfleyttum hætti. Þannig kom Haukur Ingibergsson aftur inn í hana eftir nokkurra ára hlé og varð fastur kjarni sveitarinnar ásamt Kristjáni Birni en aðrir komu og fóru. Magnús Stefánsson var inn og út í Upplyftingu næstu árin, hann varð alþingismaður 1995 og síðar ráðherra svo hann var ekki alltaf tiltækur, hans naut hins vegar á ýmsum hljóðfærum í sveitinni því hann lék stundum sem trommuleikari sveitarinnar. Einnig komu þeir Már Elíson, Sigurður V. Dagbjartsson og Kristján Óskarsson eitthvað við sögu hennar en aðrir meðlimir sem starfað hafa með sveitinni um lengri eða skemmri tíma á þessum tíma eru t.d. Ari Jónsson söngvari og trommuleikari og Gunnar Ringsted gítarleikari.

Upplyfting varð sem fyrr segir meira í árshátíða-, þorrablóta- og pöbbagírnum og var því ekkert að senda frá sér nýtt efni enda undu sveitarmeðlimir sér ágætlega þar, komnir á miðjan aldur og hljómsveitin því meira eins og saumaklúbbur en eiginleg túrahljómsveit. Árið 1994 var sveitin þó á litla sviðinu á Þjóðhátíð í Eyjum en þeir félagar höfðu þá leikið undir söng Ólafs Þórarinssonar (Labba) í þjóðhátíðarlagi þess árs, Út við sund og eyjar eftir Gísla Helgason. Annað árið skemmtu þeir á bindindismóti í Galtalæk um verslunarmannahelgi (1996) en héldu sig að öðru leyti við smærri dansleiki, sveitin hélt í nokkur skipti til útlanda til að leika fyrir Íslendinga erlendis. Reyndar var nokkurt lífsmark með Upplyftingu sumarið 1996 því þá sendi sveitin frá sér safnplötuna 20 vinsæl lög, sem Spor gaf út en á henni var að finna tvö „ný lög“ þ.e.a.s. tvö gömul lög í nýjum búningi, annars vegar lagið Endurfundir sem þarna var sungið af Sigrúnu Evu og hins vegar lagið 17. júní sem Dúmbó og Steini höfðu gert feikivinsælt mörgum árum fyrr en Haukur var höfundur lagsins (Bjartmar Hannesson samdi textann). Lagið var á plötunni í nýrri útgáfu og með nokkuð breyttum texta. Á safnplötunni var Rabbarbara-Rúna í fyrsta sinn skráð undir Upplyftingar-nafninu.

Á dansleik með Upplyftingu

Upplyfting er enn starfandi og hlýjar gömlum aðdáendum um hjartaræturnar með reglulegri spilamennsku hér og þar um landið þótt ekki sé lengur verið að troðfylla Logaland í Borgarfirði, kjarni sveitarinnar hefur verið hinn sami síðustu árin, Kristján og Haukur, og Magnús, Sigurður og Már á kantinum sem og Kristján Óskarsson meðan hans naut við en hann lést 2014, einnig hafa Ari Jónsson og Birgir Jón Birgisson aftur verið að birtast með sveitinni undanfarin ár og Haraldur Þorsteinsson bassaleikari og Hilmar Sverrisson jafnvel líka allra síðustu árin, sá síðarnefndi hefur líklega mest leikið á hljómborð eða gítara í sveitinni. Upptalningin á sveitarmeðlimum í þessari umfjöllun er langt frá því að vera tæmandi, hér að framan hafa hátt í þrjátíu verið nefndir í þessu samhengi en samkvæmt viðtölum við sveitarmeðlimi munu milli fimmtíu og sextíu hafa leikið með Upplyftingu – hér vantar því töluvert upp á.

Upplyfting birtist nokkuð óvænt vorið 2020 með plötu í farteskinu fulla af  nýju frumsömdu efni eftir að hafa þá um tíma verið að kynna til sögunnar ný lög á dansleikjum sínum. Platan sem bar nafnið Heilsa & kveðja sem er augljós skírskotun í fyrri plötutitla sveitarinnar, var tólf laga en hún hafði þá verið í vinnslu í mörg ár á undan og útgáfa hennar tafist töluvert, flest lögin voru runnin undan rifjum Jóhanns G. Jóhanssonar en hann hafði látist árið 2013 en einnig var eitt laganna eftir Kristján Óskarsson sem einnig var látinn eins og fyrr er getið. Það var Penninn Eymundsson sem gaf plötuna út en hana var bæði hægt að fá á geisladiska- og vínylplötuformi, um sama leyti kom nokkuð af eldra efni sveitarinnar út á Spotify og hugsanlega fleiri streymisveitum, þar er þó ekki að finna þrjár fyrstu plöturnar í heild sinni enda höfðu þær aldrei verið yfirfærðar á stafrænt form á sínum tíma og því ekki einu sinni fáanlegar á geisladiskum nema þau lög sem komið höfðu út á safnplötunni 20 vinsæl lög. Tónlist Upplyftingar sem hingað til hafði verið hreint popp var nú orðið töluvert kántrískotin á nýju plötunni en samhliða útgáfu plötunnar var settur bolur á markað með plötucoverinu framan á. Platan fékk ekki mikla athygli og sveitin gat ekkert fylgt útgáfu hennar eftir þar sem Covid-heimsfaraldurinn hafði sitt að segja um tónleikahald og fjöldatakmarkanir fólks á þeim.

Nokkur laga Upplyftingar hafa birst á safnplötum í gegnum tíðina og þar er Traustur vinur öllu mest áberandi, Næst á dagskrá (1982), SG hljómplötur: 75 bráðskemmtileg dægurlög frá 1964 – 1982 (2014), Gullkorn Jóhanns G. Jóhannssonar (2003), Aftur til fortíðar-serían, Í sól og sumaryl (1992), Sumarið er tíminn (2000), Sveitasöngvar: á léttu skeiði (1993), Óskalögin 5 (2001) og Stelpurnar okkar: annar hluti 1970-1994 (1998) eru allt dæmi um slíkar safnplötur en einnig hafa aðrir tónlistarmenn og hljómsveitir gert lögum sveitarinnar skil sem fyrr er getið.

Þess má að lokum geta að hljómsveitin Trabant hafði umslag Upplyftingar-plötunnar Í sumarskapi sem fyrirmynd á umslagi sinnar plötu, Moment of truth sem kom út árið 2001.

Efni á plötum