Upplyfting (1976-)

Upplyfting1

Upplyfting

Hljómsveitin Upplyfting á rætur sínar að rekja til Samvinnuskólans á Bifröst árið 1976 en nemendur við skólann áttu þar hlut að máli.

Stofnmeðlimir sveitarinnar voru þeir Magnús Stefánsson söngvari og bassaleikari (síðar alþingismaður og ráðherra), Sigurður Dagbjartsson söngvari og gítarleikari og Birgir Sævar Jóhannsson gítarleikari en ári síðar bættist Kristján Björn Snorrason hljómborðsleikari í hópinn sem og Ingimar Jónsson trommuleikari.

Sveitin aflaði sér fljótlega nokkurra vinsælda með ballspilamennsku og réðist í gerð plötu um svipað leyti og meðlimir hennar voru að útskrifast frá Bifröst. Platan sem hlaut nafnið Kveðjustund 29-6 1980 vísar þannig til dagsetningar útskriftar þeirra, en hún var tekin upp þá um vorið í Tóntækni af Sigurði Árnasyni.

Á plötunni voru Kristján Óskarsson hljómborðsleikari og Haukur Ingibergsson gítarleikari sveitinni innan handar og svo fór að þeir urðu fullgildir meðlimir sveitarinnar en þeir þóttu einnig liðtækir söngvarar og sungu ennfremur á henni.

Platan hlaut góðar viðtökur og fékk t.a.m. ágæta dóma í Morgunblaðinu. Lögin Kveðjustund og þó sérstaklega Traustur vinur nutu mikilla vinsælda, einkum síðarnefnda lagið sem er löngu orðið sígilt í íslenskri tónlistarsögu.

Sveitin hamraði járnið á meðan það var heitt og gaf út aðra plötu sumarið eftir (1981) en hún var unnin í samvinnu við Jóhann G. Jóhannsson, sem reyndar hafði einnig komið við sögu fyrstu plötunnar. Eðvarð Marx tók plötuna upp í Hljóðrita í Hafnarfirði en hún hlaut titilinn Endurfundir. Samnefnt lag varð það vinsælasta af þessari plötu. Þegar hér var komið sögu hafði Þorleifur Jóhannsson gengið í sveitina í stað Ingimars trymbils.

Ekki lét sveitin svo við sitja heldur réðist í gerð þriðju plötunnar vorið 1982 en hún hlaut nafnið Í sumarskapi og naut Upplyfting aðstoðar ekki ómerkari manna en Gunnars Þórðarsonar, Sigurðar Bjólu og Tony Cook við gerð hennar enda var sveitin orðin ein alvinsælasta ballsveit landsins þegar hér var komið við sögu. Magnús var þarna hættur í Upplyftingu en söng þó á plötunni.

Platan var tekin upp í Hljóðrita og komu lögin úr ýmsum áttum en mestra hylli naut syrpan Í sumarskapi, sem hafði að geyma íslensk lög frá ýmsum tímum en þess konar syrpur í anda Stars on 45 nutu einmitt mikilla vinsælda um heim allan um þetta leyti.

Upp úr þessu fór þó að bera minna á sveitinni, hún spilaði eitthvað áfram, allavega fram á árið 1984 en þá var Þorsteinn Magnússon gítarleikari (Þeyr o.fl.) meðal meðlima en einnig mun Inga Rún Pálmadóttir söngkona (Grýlurnar) einhvern tímann hafa verið í sveitinni, sem og Lárentsínus Kristjánsson.

Sveitin hætti síðan störfum en gekk í endurnýjun lífdaga 1990 með nýrri plötu sem bar heitið Einmana en þá hafði Upplyfting fengið til liðs við sig söngkonuna Sigrúnu Evu Ármannsdóttur, sem þá var orðin nokkuð kunn fyrir söng sinn í undankeppnum Eurovision hér heima. Birgir Jóhann Birgisson stjórnaði upptökum á plötunni sem tekin var upp víða um bæ en sveitin notaði sömu aðferð og hafði gefist svo vel átta árum áður, að setja nokkur vinsæl lög saman í syrpu. Syrpan sem bar heitið Lala-syrpan hélt fólkinu á dansgólfinu á böllunum sem og ballaðan Einmana, og í kjölfarið rann upp síðara vinsældaskeið Upplyftingar.

Árið eftir (1991) kom út lag með sveitinni (Sumar og sól) á safnplötunni Bandalögum 3 og síðar sama ár lögin Komin í sumarfrí og Allt sem ég þrái á Bandalögum 4.

Sveitin starfaði þó ekki lengi samfleytt en hefur komið saman öðru hverju við hin ýmsu tækifæri og hefur því í raun aldrei hætt.

Safnplata með vinsælustu lögum Upplyftingar var gefin út 1996 en einnig má finna lög hennar á hinum ýmsu safnplötum í gegnum tíðina. Þar má nefna Aftur til fortíðar 70-80 III, Aldrei ég gleymi (1992), Gullkorn Jóhanns G. Jóhannssonar, 100 bestu lög lýðveldisins, Í sól og sumaryl, Í sumarsveiflu, Næst á dagskrá, Óskalögin 5, Sumarið er tíminn, Sveitasöngvar og Verslunarmannahelgin.

Þess má að lokum geta að ýmsir hafa spreytt sig á lögum Upplyftingar og er lagið Traustur vinur þar fremst í flokki, bæði Á móti sól og Gis Johannsson hafa t.d. gefið það út, auk þess sem lagið Endurfundir var gefið út af hljómsveitinni Í svörtum fötum.

Efni á plötum