Grænir vinir (1991-2015)

Grænir vinir

Hljómsveitin Grænir vinir starfaði í Garðinum og var vinsæl ballsveit á Suðurnesjunum um nokkurt skeið en sveitin lék nokkuð á árshátíðum og þess háttar skemmtunum.

Sveitin mun hafa verið stofnuð 1991 en ekki liggur alveg fyrir hverjir skipuðu hana þá utan þess að Birta Rós Arnórsdóttir var söngkona sveitarinnar líklega til ársins 2001 og einnig síðar en hún hafði þá búið erlendis um tíma. Árið 2003 voru meðlimir sveitarinnar Friðrik Örn Ívarsson bassaleikari [?], Sigurjón Georg Ingibjörnsson gítarleikari [?] og Jón Rósmann Ólafsson trommuleikari [?], Ólafur Sigurðsson gæti jafnframt hafa verið einn meðlima Grænna vina á einhverjum tímapunkti en ekki liggur fyrir hvort fleiri komu við sögu sveitarinnar.

Árið 2003 frumfluttu Grænir vinir lag í tilefni af 95 ára afmæli Gerðahrepps en það hafði Jóhanna Fjóla Ólafsdóttir samið við texta Þorsteins Eggertssonar. Það lag kom út á tveggja laga plötu sem bar heiti lagsins, Lífsins ljóð en hitt lagið heitir Garðurinn er bestur og hafði verið unnið árið 1988 fyrir hreppinn í tilefni af 80 ára afmælinu, erlent lag við texta Sigrúnar Oddsdóttur.

Grænir vinir störfuðu ekki samfleytt og árið 2000 virðist sem sveitin hafi að mestu verið í fríi, þá heyrðist ennfremur lítið til hennar á árunum 2006 til 08 og 2012 og 14 en það þýðir ekki endilega að hún hafi ekki verið starfandi á þeim tíma. Eftir 2015 hefur hins vegar ekkert frést af Grænum vinum og er því gert ráð fyrir að sveitin sé hætt störfum.

Efni á plötum