Guðlaugur A. Magnússon (1902-52)

Guðlaugur A. Magnússon

Guðlaugur A. Magnússon gullsmiður og tónlistarmaður var í framlínunni í íslensku tónlistarlífi á fyrri hluta síðustu aldar en hann lék þá með ýmsum hljómsveitum og var jafnframt öflugur í félagsstarfi tónlistarmanna sem þá var á upphafsárum sínum. Guðlaugur var föðurafi Guðlaugs Kristins Óttarssonar tónlistarmanns.

Guðlaugur Asberg Magnússon fæddist á Fellsströnd haustið 1902 en fór á unglingsárum sínum til Ísafjarðar til gullsmíðanáms, þar lærði hann einnig á trompet og lék með Lúðrasveit Ísafjarðar um tíma sem var þá hans fyrsta hljómsveit. Hann flutti suður til Hafnarfjarðar árið 1924, opnaði þar gullsmíðaverkstæði og starfaði þá með Lúðrasveit Hafnarfjarðar en fór síðan til náms í Danmörku þar sem hann nam frekari tónlistarfræði. Hann kom aftur til Íslands 1927 og bjó frá og með þeim tíma í Reykjavík og rak gullsmíðaverkstæði og -verslun í miðborginni ásamt fjölskyldu sinni eftir það. Verslun er enn rekin í nafni hans í miðbænum.

Guðlaugur hóf að leika með ýmsum sveitum á höfuðborgarsvæðinu eftir að hann fluttist þangað, hann lék á trompet og önnur skyld blásturshljóðfæri s.s. kornett og flugelhorn m.a. með Hljómsveit Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), Lúðrasveit Reykjavíkur, Hljómsveit Reykjavíkur og Symfóníuhljómsveit Reykjavíkur sem var undanfari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem hann var einnig í þegar hún var stofnuð um 1950. Þá lék hann stundum einleik með sveitum sínum en hann starfaði einnig með vinsælum dans- og djasshljómsveitum s.s. Blue boys og Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar.

Guðlaugur A. Magnússon var öflugur í félagsstarfi hljómlistarmanna en mörg félög innan tónlistargeirans voru sett á stofn á þessum árum enda var þetta á upphafsárum léttrar tónlistar. Hann var t.a.m. einn af stofnfélögum Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) og var í stjórn félagsins um árabil sem gjaldkeri og varaformaður, hann var einnig um tíma í stjórn Lúðrasveitar Reykjavíkur og þá var hann ennfremur í stjórn Félags hljóðfærainnflytjenda og einn af stofnendum þess félags.

Guðlaugur lést haustið 1952 en hann var þá rétt tæplega fimmtugur að aldri.