Guðlaugur Kristinn Óttarsson (1954-)

Guðlaugur Kristinn Óttarsson

Tónlistar- og vísindamaðurinn Guðlaugur Kristinn Óttarsson er líkast til þekktastur fyrir framlag sitt með hljómsveitunum Þey og Kukli en hann hefur jafnframt sent frá sér sólóefni og starfað með fjölda annarra tónlistarmanna.

Guðlaugur er fæddur í Reykjavík 1954 og er af gullsmiðaættum, í gullsmiðju afa síns komst hann í raun í fyrsta sinn í kynni við efnafræði en á yngri árum sínum fékkst hann við alls konar efnafræði- og rafmagnsfræðitilraunir, hvað tónlistaruppeldi hans varðar þá lærði hann á flautu og munnhörpu en meðal ættmenna hans og skyldmenna má finna tónlistarfólk, tónlistarkennara og orgnista, gullsmiðurinn afi hans (Guðlaugur A. Magnússon) hafði t.a.m. verið í lúðrasveitum og aðdraganda Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem trompetleikari o.fl.

Fyrsta opinbera uppákoma Guðlaugs var í Ríkisútvarpinu þegar hann var sex ára en þar söng hann einsöng, hann var orðinn vel læs á nótur um tíu ára aldur og fljótlega upp frá því var hann farinn að smíða sér strengjahljóðfæri. Þá var hann einnig í sveit á sumrin og hafði þar tök á að gera tilraunir með gítara og sánd enda var mikið um útvörp og rafeindadót á staðnum sem hann gat unnið með, á þeim tíma var hann kominn með áhuga á hvers kyns elektrónískri og tengdri tónlist og var jafnvel farinn að smíða sér sín eigin rafmagnshljóðfæri.

Guðlaugur fór í sína fyrstu hljómsveit í Hagaskóla en hún bar heitið Steinblóm og var tríó, þegar hann fór í framhaldsnám í Menntaskólann að Laugarvatni gekk hann í skólahljómsveitina þar sem gekk undir nafninu Lótus, og var hann í þeirri sveit á meðan námi hans stóð á Laugarvatni, Lótus starfaði ekki aðeins yfir vetrartímann heldur einnig tvö sumur og lék þá víða um austanvert landið. Að menntaskólanámi loknu fór Guðlaugur í háskólanám, nam fjöltækniverkfræði og starfaði samhliða því með hljómsveitinni Sextett, hún varð síðar meir að Ljósunum í bænum, þá var hann um tíma einnig í hljómsveitinni Galdrakörlum.

Það var svo árið 1981 sem Guðlaugur gekk í hljómsveitina Þey en hún hafði þá verið starfandi í nokkur ár og gefið út plötu, sveitin hafði þróast úr því að vera eins konar dansiballasveit yfir í drungalegt nýbylgjurokk og á síðarnefndu nótunum var sveitin þegar Guðlaugur gekk til liðs við hana. Þeyr var ekki allra en tónlist sveitarinnar hefur lifað hvað lengst þeirra sem tókust á við pönk- og nýbylgjuvakningu sem hófst um 1980 og dó drottni sínu um tveimur og hálfu ári síðar, nokkru eftir sýningar á kvikmyndinni Rokk í Reykjavík þar sem sveitin vakti mikla og umdeilda athygli. Þeyr starfaði fram yfir mitt ár 1983 og sendi frá sér fjölda platna meðan hún starfaði en sveitin lék einnig nokkuð erlendis á starfstíma sínum.

Þeyr

Um svipað leyti og Þeyr var að syngja sitt síðasta varð önnur sveit til, Kukl. Sú merka sveit var í raun sett saman af dagskrárgerðarmönnunum Ásmundi Jónssyni og Guðna Rúnari Agnarssyni sem höfðu stýrt útvarpsþætti sínum, Áföngum um nokkurt skeið en hafði verið gert að hætta með þáttinn. Kuklið varð afrakstur samtínings þeirra félaga úr nýbylgju- og pönkgeiranum og spilaði í lokaþættinum. Tónlist sveitarinnar má segja að hafi verið þunglama- og drungalegt nýbylgjurokk, pínulítið í anda Þeys en Kuklið starfaði í um þrjú ár og sendi frá sér nokkrar plötur, Sykurmolarnir urðu síðan til upp úr sveitinni.

Eftir Þey og Kukl var hljómsveitaferli Guðlaugs að mestu lokið en við tóku annars konar verkefni, hann hóf að starfa með ýmsum tónlistarmönnum í sveitum eins og Psychic TV, Current 93, GVDL, MÖK og Elgar sisters (ásamt Björk Guðmundsdóttur) en var einnig í samstarfi við Bubba Morthens og einkum Megas en hann átti eftir að starfa með þeim síðarnefnda í áratugi, fyrst árið 1985, og átti eftir að leika á fjölmörgum plötum hans – þeirri fyrstu Loftmynd (1986). Um miðjan tíunda áratuginn starfaði hann með sveitum eins og INRI, Exem, Súkkat og Megasukk, og kom við sögu á plötum þeirra sveita, og hefur reyndar komið við sögu á fjölda annarra platna. Þegar nær leið aldalokum og áfram á nýrri öld kom hann ennfremur fram einn undir ýmsum nöfnum s.s. GKO, GodBles og Godkrist/Godchrist, oft hafði hann einnig aðstoðarmenn með sér á sviði og lék verk eftir ýmsa meistara í bland við eigin tónlist. Sú tónlist var raftónlistartengd og hefði einnig getað verið skilgreind sem eins konar hávaðatónlist, stundum jafnvel á mörkum tónlistar og annarra listgreina. Tónlistarmenn eins og Hilmar Örn Hilmarsson, Einar Melax og fleiri komu þar einnig við sögu en jafnframt hefur hann spilað á tónleikum ásamt bandarísku sveitinni Fuck, Will Oldham o.fl.

Svo virðist sem Guðlaugur hafi sent frá sér efni í formi tveggja geislaplatna í takmörkuðu upplagi árið 2002, upplýsingar um þær útgáfur eru vægast sagt af skornum skammti en þær virðast vera undir titlaheitunum Alone with guitar og Misc. Music, óskað er eftir frekari upplýsingum um þetta efni.

Árið 2005 sendi Guðlaugur hins vegar loks frá sér sína fyrstu opinberlega útgefnu sólóplötu, Dense time en hún hafði verið allmörg ár í vinnslu, ástæða þess að útgáfu plötunnar seinkaði var að hluti upptakanna hafði týnst en um var að ræða efni sem hann hafði unnið ásamt Björk Guðmundsdóttur undir nafninu Elgar sisters. Efni plötunnar myndaði því nokkuð heildræna mynd af þeirri tónlist sem Guðlaugur hafði verið að semja og vinna á árunum 1986 til 2005, ellefu verk sem mynduðu og endurspegluðu „rannsóknir Guðlaugs í vísindum, tónlist og annarri listsköpun síðastliðin 20 ár“ eins og það var orðað í Morgunblaðinu. Boðað var að aukin og veglegri útgáfa plötunnar kæmi út með lögunum instrumental en af því varð ekki af einhverjum ástæðum. Dense time fékk ágæta dóma í Grapevine, aðrir dómar virðast ekki hafa birst hér heima en platan ku hafa fengið mjög góða dóma í Japan. Þess má geta að fósturfaðir Guðlaugs, Guðmundur Jónsson óperusöngvari söng á plötunni og var það í síðasta sinn sem söngur hans var hljóðritaður á plötu.

Guðlaugur Kristinn Óttarsson

Önnur plata með Guðlaugi hefur komið út síðan, hún ber hinn merkilega titil ½ · г2 (0) = ∞ en upplýsingar um þá plötu eru af mjög skornum skammti, bæði hvað varðar útgáfuna sjálfa s.s. útgefanda, útgáfunúmer og -ár sem og efni hennar og flytjendur.

Guðlaugur hefur í raun starfað sem vísindamaður frá 1980, hann hefur stúderað og rannsakað stærðfræðilega eðlisfræði og tengt efni, haldið fyrirlestra um efnið auk þess að birta greinar og rita bækur um það. Hann hefur ennfremur fengist við kennslu á stærð- og eðlisfræði á öllum skólastigum og hefur einnig starfrækt fyrirtæki sem hefur með nýtingu jarðvarma að gera, auk annarra verkefna.

Guðlaugur hefur stundum verið kallaður gítarvísindamaður og frægt er að Megas hefur kallað hann „Þriðja eyrað“, hann hefur sérgáfur í tónlistinni þegar kemur að notkun rafhljóða og mögnun en hann er jafnframt tónskáld eins og fram hefur komið hér að framan en hann hefur tengt tónlistina vísindum sínum og fræðum, t.d. má hér nefna að hann bjó til tónkerfi sem byggði á sextíu og fjórum reitum taflborðs sem útfærðar voru sem nótur og samdi hann tónverk (40 ára einvígislok) í tilefni af að fjörutíu ár voru þá liðin (2012) frá „einvígi aldarinnar“ milli Bobby Fischers og Boris Spasskys en verkið var flutt í Laugardælakirkju þar sem Fischer var jarðsettur. Þá gerði hann tónlist ásamt Einari Melax við heimildarmynd um Fischer og kom út plata árið 2009 með þeirri tónlist í áttatíu eintökum, Post humous art value formula. Tónverkið Midi after midnight er dæmi um annað verk sem Guðlaugur hefur samið og flutt en það hefur þó líkast til ekki verið hljóðritað á plötu.

Guðlaugur hefur búið og starfað austur á fjörðum síðastliðin ár.

Efni á plötum