Guðmundur Benediktsson (1951-)

Guðmundur Benediktsson

Tónlistarmaðurinn Guðmundur Benediktsson hefur poppað upp í gegnum tíðina í margs konar mismunandi hlutverkum í íslensku tónlistarlífi, fyrst og fremst sem meðlimur fjölmargra þekktra hljómsveita en einnig sem fjölmiðlamaður.

Guðmundur Franklín Benediktsson (f. 1951) kemur upphaflega frá Selfossi og þar í bæ steig hann sín fyrstu spor kornungur í tónlistarbransanum, fyrst sem gítarleikari Bimbó-tríósins sem starfaði um nokkurra ára skeið og síðan í Mánum frá stofnun 1965. Fyrst í stað var hann gítarleikari einvörðungu en síðan tóku hljómborðin við, orgel og píanó. Guðmundur starfaði með Mánum til ársins 1968, hætti þá og var þá m.a. í tónlistarnámi en hann er tónmenntakennari að mennt, og kom aftur inn í sveitina árið 1971 sem söngvari og píanó- og gítarleikari. Mánar nutu alltaf töluverðra vinsælda og gáfu út nokkrar plötur en frægðarsól Guðmundar reis líklega hvað hæst þegar hann tók að sér hlutverk Jesú Krists í söngleiknum Súperstar: Jesús guð dýrlingur, sem settur var á svið í Iðnó árið 1973.

Guðmundur starfaði áfram með Mánum (sem gekk reyndar undir nafninu Blóðberg um skamma hríð) en um miðjan áttunda áratuginn söðlaði hann um og gekk til liðs við hljómsveitina Mexíkó sem hljómborðsleikari og söngvari. Þar var hann í um ár, starfaði með Haukum um tíma og síðan hljómsveitinni Brimkló á árunum 1978 og 79. Næst var það hljómsveitin Kaktus, þá Mannakorn, Action, X-port, Hálft í hvoru, Karma og Burgeisarnir áður en hann gekk til liðs við Islandicu sem hann starfaði lengi með. Eftir það starfaði hann með sveitum sem voru fremur óþekktar, s.s. Þel og Nátthrafnar. Guðmundur hefur á síðari árum tekið þátt í upprisu og endurkomu gamalla sveita eins og Brimkló og Mána.

Guðmundur hefur að sjálfsögðu sungið á fjölda platna, plötur Mána rísa auðvitað hæst sem og plötur Islandicu, Mannakorna, Brimklós og Hálfs í hvoru en hann hefur einnig sungið nokkur vinsæl lög eins og Það vex eitt blóm fyrir vestan (á lítilli plötu Guðmundar Árnasonar frá 1980) og lagið Fréttaauki á plötu bræðranna Gísla og Arnþórs Helgasona, Í bróðerni (1981). Þá hefur hann sungið og leikið á fjölda platna annarra tónlistarmanna s.s. Herdísar Hallvarðsdóttur, Halldór Skarphéðinssonar, Herberts Guðmundssonar, HLH-flokksins, Inga Gunnars Jóhannssonar, Ólafs Þórðarsonar, Steins Kárasonar svo einungis nokkur dæmi séu nefnd.

Leið Guðmundar átti eftir að liggja aftur í leikhúsið tveimur áratugum eftir að hann lék hlutverk Jesú í Iðnó en þá var hann í hljómsveit sem annaðist undirleik í söngleiknum Blóðbræður (1993), við það tækifæri var hlutverk hans í Súperstar rifjað upp í fjölmiðlum og svo aftur 1995 þegar sonur hans, söngvarinn Pétur Örn Guðmundsson söng sama hlutverk í Súperstar sem að þessu sinni var sýnt í Borgarleikhúsinu. Hann er einnig þekktur fyrir störf sín í útvarpi en fljótlega eftir að Rás 2 tók til starfa hóf hann að vinna þar að dagskrárgerð og síðan einnig sem þulur, og muna margir eftir rödd hans í útvarpi allra landsmanna þar sem hann starfaði um árabil.

Guðmundur er búsettur í Hveragerði í dag.