Guðmundur Emilsson (1951-)

Guðmundur Emilsson

Dr. Guðmundur Emilsson hefur komið víða við í íslenskri tónlist, fyrst og fremst í störfum sínum fyrir Ríkisútvarpið en einnig sem hljómsveitarstjóri og margt fleira.

Guðmundur er fæddur 1951 í Reykjavík, sonur sr. Emils Björnssonar sem gegndi lengi störfum hjá Ríkisútvarpinu líkt og Guðmundur síðar. Hann lék með fáeinum hljómsveitum á unglingsárum sínum, var t.d. orgelleikari hljómsveitarinnar Strengja og starfaði svo með Hljómsveit Hauks Morthens á Hótel Sögu samhliða námi sínu í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem hann lagði stund á nám í kórstjórnun, píanóleik og tónsmíðum, og lauk síðan jafnframt söngkennaranámi.

Eftir nám starfaði hann við kennslu og kórstjórnun um tíma, stjórnaði m.a. stúlknakór við Hlíðaskóla og ritaði kennslubók í tónmenntum áður en hann fór til Bandaríkjanna í framhaldsnám. Hann var á þessum tíma farinn að rita greinar um tónlist í Morgunblaðinu og áður en hann fór vestur um haf hófst útvarpsferill hans þegar hann annaðist tónlistartíma barnanna, að mastersnámi í Bandaríkjunum loknu hélt hann áfram með dagskrárgerð sína og var með tónlistarþætti í mörg ár. Síðar lauk hann doktorsritgerð (1992) í kór-, óperu- og hljómsveitastjórnun.

Störf Guðmundar í tónlistinni hafa verið með margvíslegum hætti, hann hefur stofnað og stjórnað kammersveitum og stærri hljómsveitum, t.d. Íslensku hljómsveitinni allan þann tíma sem hún starfaði en einnig stjórnaði hann Söngsveitinni Fílharmóníu um árabil og var um tíma aðalstjórnandi og tónlistarstjóri Fílharmoíuhljómsveitarinnar í Riga í Lettlandi, þá var hann ráðinn til að veita norrænni-baltneskri tónlistarstofnun við Háskólann í Riga forstöðu. Guðmundur hefur jafnframt stundum stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, stjórnað við Íslensku óperuna og verið gestastjórnandi stærri hljómsveita víða um heim.

Guðmundur hefur sinnt ýmsum störfum tengdum tónlistinni, hann var um árabil tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins, formaður stjórnar RÚREK, tónlistarráðunautur RÚV og haldið utan um ýmist verkefni s.s. Tónvakann, tónlistarkeppni RÚV og Námur, menningarsögulegt verkefni tengt listum. Þá hefur hann kennt við tónlistarskóla, kennt tónlistarsögu við HÍ, starfað sem organisti, tónlistarstjóri kirkjunnar og skólastjóri tónlistarskólans í Grindavík, auk margs annars s.s. þýðingar á tónlistartengdri bókaútgáfu.

Guðmundur hlaut árið 1987 Bjartsýnisverðlaun Brösters og hefur jafnframt hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann heldur úti vefsíðunni gudmunduremilsson.is þar sem finna má ógrynni greina um tónlist eftir hann, auk annars efnis.