Guðmundur Valur Stefánsson (1955-)

Guðmundur Valur Stefánsson

Guðmundur Valur Stefánsson er einn af einyrkjum íslenskrar tónlistarsögu, hann á að baki eina sólóplötu og kom stundum fram sem trúbador á sínum yngri árum.

Guðmundur Valur er fæddur í Keflavík 1955, hann ólst þó upp fyrir norðan og var sem unglingur í hljómsveitinni Svörtu túlípönunum á Húsavík, og hugsanlega fleiri hljómsveitum.

Hann er menntaður fiskeldis- og fiskifræðingur og bjó og starfaði um nokkurra ára skeið í Noregi þar sem hann var virkur í félagslífi Íslendinga í Bergen og  nágrenni, þar kom hann oft fram einn með gítarinn og söng, og það gerði hann líka hér heima á Íslandi á árunum í kringum 1990.

Árið 1999 sendi Guðmundur Valur frá sér tólf laga plötuna Valur en þar naut hann aðstoðar Vilhjálms Guðjónssonar við upptökur og útsetningar, sjálfur samdi hann öll lög og megnið af textunum en einn textinn er eftir föður hans, Stefán Valgeirsson fyrrverandi alþingismann, platan var gefin út í minningu hans. Guðmundur Valur söng lögin mestmegnis sjálfur en Ari Jónsson söng þó eitt þeirra, platan fékk fremur slaka dóma í Morgunblaðinu og DV.

Guðmundur Valur fylgdi útgáfu plötunnar eitthvað eftir með spilamennsku, var t.d. með útgáfutónleika á Norðfirði, en lítið hefur farið fyrir honum í tónlistinni síðan þá.

Efni á plötum