Gullý Hanna Ragnarsdóttir (1949-)

Gullý Hanna á níunda áratug síðustu aldar

Tónlistarkonan Gunnlaug Hanna Ragnarsdóttir (Gullý Hanna) frá Akureyri hefur í fjölda áratuga starfað í Danmörku með vísnatónlist sem aukabúgrein en hún hefur sent frá sér fjöldann allan af plötum í gegnum tíðina þar sem hún syngur á íslensku og dönsku.

Gullý Hanna (stundum einnig ritað Gully Hanna) fæddist á Akureyri 1949 og sleit barnsskónum þar í bæ. Hún nam píanóleik að einhverju leyti og naut tilsagnar í gítarleik auk þess að syngja eitthvað með kórum á unglingsárum sínum og síðan einnig um tíma með Söngsveit Fílharmóníunnar þegar hún bjó um skamman tíma í Reykjavík.

Gullý Hanna fluttist til Danmerkur um miðjan áttunda áratuginn og þar má segja að eiginlegur tónlistarferill hennar hafi hafist. Hún gekk til liðs við vísnafélagið Visens venner sem var starfandi í Svendborg, heimabæ hennar og þar hóf hún að koma ein fram en einnig ásamt Rögnu Kristínu yngri systur sinni sem einnig var búsett þar, um svipað leyti hóf hún að syngja með kór í bænum. Í Svendborg byrjaði hún einnig að starfa með hljómsveitinni Halricks & Gully Hanna en sú sveit starfaði í nokkur ár og sendi frá sér að minnsta kosti eina sjö tommu plötu, sveitin kom aukinheldur til Íslands og lék hér á nokkrum tónleikum árið 1986, m.a. á Hótel Borg. Halricks & Gully Hanna höfðu á prógrammi sínu eitthvað af lögum eftir Gullýju Hönnu, m.a. við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi og þegar hún hóf að senda frá sér sólóplötur voru ljóð hans á nokkrum þeirra, sem og Jónasar Hallgrímssonar og fleira íslenskra skálda. Hún hefur jafnframt þessu komið reglulega fram ein síns liðs á tónleikum en hún hefur sungið víða um Danmörku og reyndar á Norðurlöndunum öllum.

Fyrsta sólóplata Gullýjar kom út árið 1989 og bar titilinn Drømmen / Draumurinn, hún gaf plötuna út sjálf og það átti eftir að eiga við um flestallar hennar plötur. Á plötum hennar voru lögin yfirleitt úr ýmsum áttum, lög hennar í bland við annarra, bæði dönsk og íslensk og á þessari fyrstu plötu hennar var m.a. að finna danskar útgáfur af lögunum Kona (Til dig min ven) eftir Gunnar Þórðarson og Hægt og hljótt (Vinteraften på kroen) eftir Valgeir Guðjónsson, sem hafði einmitt verið framlag Íslands í Eurovision-keppninni tveimur árum fyrr. Tónlist hennar má skilgreina sem poppaða vísnatónlist, jafnvel með kántríívafi á stundum. Tveimur árum síðar (1991) kom næsta plata út undir titlinum En hilsen til min hjemstavn, á þeirri plötu vakti nokkra athygli lagið Kærlighed ved første blik og naut það vinsælda í Danmörku. Á þeirri plötu er einnig að finna lagið Söknuður eftir Jóhann Helgason með dönskum texta undir titlinum Jeg savner dig.

Gullý Hanna

Á næstu árum komu út plötur með reglulegu millibili, árið 1995 kom út platan Jeg l‘ar døren stå på klem þar sem meirihluta laga var eftir hana sjálfa og sama ár var hún meðal flytjenda á safnplötunni Aldarminning: Davíð Stefánsson frá Fagraskógi en hún hafði þá samið nokkur lög við ljóð hans sem fyrr segir. 1997 kom svo næsta plata út, Sangen til dig: Nordiske viser, þar sem uppleggið var svipað en það er eina plata hennar sem fengið hefur gagnrýni í dagblaði hér á landi, fékk þokkalega dóma í DV. Þá um sumarið kom Gullý Hanna til Íslands (sem hún gerir reyndar reglulega) en var með tríó með sér sem hún kallaði einfaldlega Tríó Gullýjar Hönnu, árið áður hafði hún troðið upp í heimabæ sínum, Akureyri með nokkrum tónlistarmönnum þar í bæ.

Fjögur ár liðu uns Gullý Hanna kom með nýja plötu, það var platan Endnu engang… með þrettán lögum og tveim árum síðar kom hin fjórtán laga Lyse dage og nætter út, síðarnefnda platan var ennfremur gefin út í Noregi. Nokkuð langur tími leið þar til næsta plata kom út en það var árið 2014 og var það  hin átján laga plata Vi ses igen. Það voru síðustu plötur hennar sem komu út á efnislegu formi, þ.e. geislaplötum.

Það var svo árið 2020 sem heilmikið gerðist í útgáfumálum Gullýjar Hönnu en um var að ræða útgáfu á Internetinu. Tvær plötur sem höfðu að mestu leyti að geyma nýtt efni litu dagsins ljós, annars vegar sjö laga platan En søndag i april: 2019 og hins vegar Kveðja til Íslands, níu laga plata með íslenskum lögum sem flest höfðu ekki komið út áður. Við sama tækifæri komu út fimm aðrar plötur í stafrænni útgáfu á netinu, eins konar safnplötur sem höfðu að geyma áður útgefin lög frá afmörkuðum tímabilum. Plöturnar fimm báru eftirfarandi titla: Kveðja til æskustöðvanna: 1989-94 (með íslenskum lögum einvörðungu), Farvel og på gensyn: 1992 (tíu laga plata með þremur áður óútgefnum lögum), Jeg la‘r døren stå på klem: 1995, Sangen til dig: Nordiske viser: 1997 og Lyse deg og nætter: 2003.

Þar með hafa komið út fjórtán plötur með lögum Gullýjar Hönnur Ragnarsdóttur sé allt meðtalið. Hún hefur einnig í gegnum tíðina verið aufúsugestur á dönskum safnplötum með viðlíka efni og hér eru aðeins nokkrar nefndar: Det bedste fra dansktoppen (1991), Danske topfavoritter 3 (1996), Dansk her & nu (1998), Danske perler-serían, Ønskebrønnen (2001), Hilsen fra Svendborg (1997), Melodi Grand Prix: Langeland (1997) og Jul „unplugged“, megnið af því efni er einnig að finna á sólóplötum Gullýjar Hönnu, þá hefur hún einnig samið lög sem hafa komið út á plötum annarra.

Efni á plötum