Gunk (1969-72)

Gunk

Ekki finnast margar heimildir um hljómsveitina Gunk en hún starfaði á árunum 1969 til 72 og kom síðan aftur fram á sjónarsviðið mörgum áratugum síðar.

Gunk var stofnuð haustið 1969 en kom ekki fram opinberlega fyrr en sumarið 1971, þá voru meðlimir sveitarinnar Ómar Óskarsson söngvari, Sverrir Konráðsson gítarleikari, Grímur Bjarnason trommuleikari og Ingólfur Margeirsson bassaleikari. Einhverjar mannabreytingar urðu innan sveitarinnar og hafa Ólafur Helgason trommuleikari og Páll Pálsson söngvar verið nefndir í því samhengi sem meðlimir hennar. Sveitin spilaði nær einvörðungu frumsamda tónlist og vakti athygli fyrir það.

Gunk hætti störfum líklega árið 1972 fremur en 73 en hún birtist aftur árið 2016 og svo aftur 2019, þá var Árni Sigurðsson söngvari sveitarinnar en ekki liggur fyrir hvort hann hafi verið í henni á fyrra tímabilinu. Þá liggur ekki heldur fyrir hverjir aðrir skipuðu Gunk.