Dögg (1973-76)

Dögg

Dögg

Margir sem stunduðu tónleika um miðjan áttunda áratug liðinnar aldar muna eftir hljómsveitinni Dögg sem starfaði um ríflega tveggja og hálfs árs skeið.

Dögg var stofnuð haustið 1973 en uppistaðan í sveitinni kom úr Tilfinningu, sem hafði þá nýlega klofnað. Sú sveit hélt þó áfram og starfaði áfram undir því nafni.

Þremenningarnir Ólafur Helgi Helgason trommuleikari, Páll Pálsson söngvari og Kjartan Eggertsson gítarleikari komu úr Tilfinningu en aðrir stofnmeðlimir voru Nikulás Róbertsson píanó- og saxófónleikari og bræðurnir Jóhann og Rúnar Þórissynir, sem léku á bassa og gítar. Dögg var því skipuð sex manns sem var óvenjulegt og ekki var auðvelt að fá „gigg“ þegar um var að ræða svo stóra sveit.

Sveitin spilaði fyrst í stað eins konar amerískt kántrý ekki ósvipað því sem Brimkló gerði og varð fljótlega nokkuð þekkt og vinsæl, nafn sveitarinnar mun hafa komið frá ungri frænku eins meðlima sveitarinnar, sem hét Dögg.

Á þeim tíma er sveitin starfaði þróaðist tónlistin smám saman yfir í fönk og voru nokkrar væntingar gerðar til hennar, reyndar svo að hún tók upp tvö lög í hljóðveri (Keep on og Rockin‘ soul) sem til stóð að gefa út á lítilli plötu á vegum nýstofnaðrar plötuútgáfu Jóns Ólafssonar, Demant. Af því varð þó aldrei.
Vorið 1975 hætti Kjartan gítarleikari í sveitinni eftir ágreining og var hún kvintett um tíma. Um haustið dró enn til tíðinda þegar þreyta var komin í mannskapinn og fleiri hættu og þá voru þeir í raun bara tveir eftir, Páll söngvari og Ólafur trommuleikari.

Dögg 1974

Dögg 1974

Óhjákvæmilega hætti Dögg störfum um stund á meðan sveitin var mönnuð á nýjan leik en þá höfðu bæst í hópinn þeir Sverrir Konráðsson gítarleikari, Guðjón Þ. Guðjónsson bassaleikari, Jón Þór Gíslason gítarleikari og Ólafur Helgason gítarleikari. Þessi útgáfa Daggar gekk iðulega undir nafninu Dögg 2 eða Dögg hin nýja.

Þegar hér var komið sögu hafði sveitin lagt áherslu á eigið efni sem þeir félagar voru duglegir að flytja en ekki lifði hún þó lengi eftir þessar breytingar því hún lognaðist smám saman útaf vorið 1976, þá höfðu nokkrir bassaleikarar komið við sögu sveitarinnar síðustu mánuðina, Magnús Einarsson þó hvað lengst.

Sumarið 1976 komu þó lögin tvö út sem tekin höfðu verið upp tveimur árum fyrr, á safnplötunni Í kreppu en þá höfðu þau fengið íslenska texta og hétu Ég fell og Finndu ró, fyrrnefnda lagið kom síðar út á safnplötunni Stjörnuplata 1 (1980).

Þeir félagar, Jón Þór og Páll áttu eftir að láta að sér kveða í annarri hljómsveit ári síðar þegar þeir stofnuðu Fjörefni, en saga Daggar varð ekki lengri.