Fjörefni (1977-78)

Fjörefni2

Fjörefni

Hljómsveitin Fjörefni naut nokkurra vinsælda síðari hluta áttunda áratugarins en var svolítið sér á báti, mest fyrir að vera aðallega hljóðverssveit.
Sveitin varð til eiginlega óvart þegar þeir félagar úr hljómsveitinni Dögg (sem var nokkuð áberandi um tíma), Jón Þór Gíslason og Páll Pálsson voru að huga að sólóplötum, hvor í sínu lagi árið 1977.

Þegar þeir ákváðu að vinna saman stóð til að hljómsveitin Eik spilaði undir á plötu þeirra en þegar til kom urðu mannabreytingar í þeirri sveit þess valdandi að ekkert varð úr samstarfi. Það var því úr að þeir fengu fyrrum félaga sína úr Dögg, Nikulás Róbertsson hljómborðsleikara og Jóhann Þórisson bassaleikara til liðs við sig en Jón Þór var gítarleikari og Páll söngvari Daggar, sem nú lagði upp laupana.

Að auki komu þeir Örn Hjálmarsson gítarleikari og Ólafur Kolbeins trommuleikari til greina í þær stöður sem eftir voru en það varð þó úr að tveir Eikar-liðar, Tryggvi Hübner og Ásgeir Óskarsson gítar- og trommuleikarar komu inn sem fimmti og sjötti maður.

Þannig skipuð fékk þessi sex manna fullskipaða sveit nafnið Fjörefni og fór í kjölfarið um haustið 1977 í Hljóðrita í Hafnarfirði undir stjórn Tony Cook og tók upp plötuna A+ (sem vísaði að sjálfsögðu til vítamíns). Þar voru tekin upp tíu lög eftir þá Jón Þór og Pál, og var að nokkru leyti um að ræða þemaplötu sem vísaði til Hallærisplansins (Ingólfstorgs) og tengsl unglinga og annarra við það.

Þegar platan kom út í byrjun desember hafði Fjörefni aldrei leikið opinberlega og var það ekkert frekar á dagskránni, þetta voru fyrst og fremst hljóðversmenn en létu þó til leiðast og komu fram í stuttum sjónvarpsþætti þar sem lög af plötunni voru spiluð, til kynningar.

A+ fékk ágætar viðtökur gagnrýnenda, hún fékk þokkalega dóma í tímaritinu Halló og Dagblaðinu, ágæta í Þjóðviljanum og mjög góða í Poppbókinni eftir Jens Kr. Guðmundsson sem kom út nokkrum árum síðar. Platan seldist hins vegar fremur illa, aðeins í um þúsund eintökum og vildu menn því kenna um hversu seint platan kom út og einnig að sveitin hafði lítt eða ekki kynnt hana með spilamennsku á opinberum vettvangi. Útgefandinn, Steinar Berg, var þó tilbúinn að gefa sveitinni annað tækifæri enda hafði hann fulla trú á sveitinni, og platan hafði svosem fengið ágæta dóma.

Lagið Þú fékk þann heiður að vera eitt þriggja laga sem tímaritið Samúel þrykkti á þunna smáskífu sem fylgdi jólatölublaði þess fyrir jólin. Það var í fyrsta skipti sem slík tilraun var gerð hér á landi.

Vorið eftir (1978) hófu Fjörefnis-liðar að vinna að nýrri plötu en þá höfðu þær breytingar orðið á mannaskipan sveitarinnar að þeir voru í rauninni aðeins eftir tveir sem dúett, Jón Þór og Páll. Þeir fengu þó til liðs við sig hóp af meðleikurum og vildu gárungarnir reyndar kalla sveitina stúdíósveit Steinars Berg, þessir menn voru þeir Þórður Árnason gítarleikari sem jafnframt stjórnaði upptökum á nýju plötunni, Kristján Guðmundsson hljómborðsleikari og Magnús Kjartansson sem spilaði á eitt og annað, en þeir Ásgeir Óskarsson trommuleikari og Jóhann Þórisson bassaleikari fyrrverandi meðlimir sveitarinnar voru einnig innan handar við upptökurnar.

Leiðin sem nú var farin var allt önnur en á fyrri plötunni þar sem allt var frumsamið, megin uppistaðan í tónlistinni voru nú erlendir vinsældarslagarar sem fengu íslenska texta en einnig fengu að fljóta með þrjú lög eftir þá félaga. Upptökur fóru fram í Hljóðrita og var James Kay upptökumaður en þetta var fyrsta platan sem hann tók upp hérlendis.

Platan kom út og nú var ákveðið að fylgja henni eftir með spilamennsku og því var herjað á ballmarkaðinn um nokkurra vikna skeið um sumarið ásamt annarri sveit, Tívolí.

Þessi stutti sumarhringur var í raun einu skiptin sem sveitin kom fram opinberlega og var að öllum líkindum skipuð þeim sömu og léku á plötunni.
Dansað á dekki var titill plötunnar og fékk hún þokkalega dóma í Tímanum og Morgunblaðinu en síðri í áðurnefndri bók Jens, Poppbókinni. Litlar sögur fara af því hversu vel platan seldist en titillagið naut nokkurra vinsælda, sem og Og sólin skein… og Í örmum þínum.

Þær vinsældir dugðu Fjörefni ekki til að halda áfram starfi sínu því hún virðist hafa hætt störfum fljótlega um haustið 1978, enda ekki til sem eiginleg hljómsveit eins og áður er getið.

Þeir félagar Jón Þór og Páll gerðu fremur stuttan stans í tónlistarbransanum þótt eitthvað væru þeir viðloðandi hann áfram. Páll gaf síðar út skáldsögunna Hallærisplanið (1982), en sá staður var honum greinilega nokkuð hugleikinn.

Lög með Fjörefni hafa komið út á nokkrum safnplötum á síðari árum (Óskalögin 6 (2002), Stjörnuplata 1 og Stjörnuplata 2 (1980), Villtar heimildir (1979)) og lagið Dansað á dekki gekk í endurnýjun lífdaga með hljómsveitinni Dans á rósum og kom út á safnplötunni Svona er sumarið 2004.

Efni á plötum