Fjórir jafnfljótir (1957-60)

Fjórir jafnfljótir

Forsaga hljómsveitarinnar Fjögurra jafnfljótra er sú að Skapti Ólafsson trommuleikari hafði stofnað hljómsveit sem lengi gekk ekki undir neinu nafni og þegar Freymóður Jóhannesson réði hana til að leika á böllum í Gúttó (1957), skírði hann sveitina og kallaði hana Fjóra jafnfljóta. Sagan segir reyndar að gárungarnir hafi kallað sveitina Fjóra jafnljóta.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um alla meðlimi sveitarinnar en meðal þeirra var áðurnefndur Skapti sem er reyndar þekktastur fyrir söng. Siggeir Sverrisson bassaleikari gekk til liðs við sveitina um haustið 1957 en þá voru í henni auk Skapta, Sigurgeir Björgvinsson píanóleikari og Magnús Randrup saxófón- og harmonikkuleikari.

Ýmsir söngvarar sungu með sveitinni og má nefna Sigga Johnnie, Garðar Guðmundsson og Harald G. Haralds, ekki er víst að þeir hafi allir verið fastráðnir við sveitina.

Þó svo að sveitin hafi upphaflega verið stofnuð til að spila í Gúttó spilaði hún miklu víðar og til ársins 1960. Um tíma gekk þessi sveit undir nafninu Hljómsveit Skapta Ólafssonar og jafnvel Kvartett Skapta Ólafssonar.

Fjórir jafnfljótir héldu hópinn að nokkru leyti eftir að hún hætti störfum en önnur sveit, Hljómsveit Magnúsar Randrup var stofnuð upp úr henni.