Tilfinning (1971-72 / 1973-74)

Tilfinning

Saga hljómsveitarinnar Tilfinningar er eilítið flókin en hún skiptist í þrjú tímaskeið.

Fyrsta skeið sveitarinnar spannaði um eitt ár en Tilfinning var stofnuð sumarið 1971 í aðdraganda hljómsveitakeppni sem haldin var í Húsafelli þá um verslunarmannahelgina en þar tók sveitin þátt. Engar sögur fara af árangri sveitarinnar í Húsafelli en hún starfaði í um eitt ár eftir þá keppni áður en hún hætti störfum. Ingvar Árelíusson var þá áreiðanlega bassaleikari sveitarinnar og aðalmaður hennar en ekki liggur fyrir hverjir aðrir störfuðu með sveitinni.

Eitt ár leið áður en Tilfinning var endurvakin sumarið 1973, þá voru meðlimir hennar áðurnefndur Ingvar (sonur sr. Árelíusar Níelssonar), Ólafur Helgason trommuleikari, Páll Pálsson söngvari, Kjartan Eggertsson gítarleikari og Sigurður Hafsteinsson gítarleikari einnig. Sveitin starfaði ekki lengi með þessa meðlimaskipan því um haustið 1973 klofnaði hún eftir ágreining og þar með hófst þriðja tímaskeið hennar, í raun var stofnuð ný sveit undir nafninu Tilfinning, tryggð með höfundarétti á nafninu.

Ólafur, Kjartan og Páll yfirgáfu sveitina og stofnuðu hljómsveitina Dögg en eftir voru Ingvar bassaleikari og Sigurður gítarleikari, þeir fengu til liðs við sig Mark Kristján Brink söngvara og gítarleikara, Pétur Kristjánsson hljómborðsleikara og Gunnar Egilsson trymbil.

Tilfinning eftir klofninginn

Tilfinning spilaði nokkuð árið 1974 en mest þó á Röðli um sumarið, Einhverjar mannabreytingar urðu um sumarið og haustið og um tíma voru einungis fjórir í sveitinni, Guðjón Gíslason mun hafa tekið við af Gunnari trommuleikara og Kristinn Rósantsson gítar- og hljómborðsleikari tók við af Pétri, við þau meðlimaskipti gat Mark söngvari einbeitt sér að söngnum eingöngu.

Tilfinning virðist ekki hafa starfað lengi eftir þetta og mun hafa hætt störfum fyrir áramótin 1974-75, áður höfðu þeir þó farið í hljóðver og tekið upp efni sem átti að fara á væntanlega safnplötu (líklega Hrif, sem út kom fyrir jólin 1974) en sveitin virðist hafa verið hætt störfum áður en málið var lengra á veg komið. Upptökurnar eru þó sjálfsagt ennþá til einhvers staðar.