Gunnar Jökull Hákonarson (1949-2001)

Gunnar Jökull við settið

Saga Gunnars Jökuls Hákonarsonar trommuleikara er nánast samfelld harmsaga þótt fæstir hefðu gert sér grein fyrir því fyrr en hann kom fram á nýjan leik eftir rúmlega tveggja áratuga fjarveru frá sviðsljósinu þar sem honum hafði þá verið hampað sem besta trommuleikara íslenskrar tónlistarsögu, en hann var þá orðinn veikur af alnæmi og illa farinn af andlegum veikindum eftir áratuga læknadópnotkun. Hann lést fáeinum árum síðar.

Gunnar Jökull fæddist í Reykjavík vorið 1949 og gekk í Langholtsskóla þar sem hæfileikar hans birtust fyrst fólki, hann hafði verið í heimsókn hjá ættingjum sínum í Bolungarvík og kynnst þar harmonikku átta eða níu ára gamall og hóf í kjölfarið að læra á slíkt hljóðfæri, en frændi hans hafði sent nikkuna suður á eftir honum. Í Langholtsskóla var hann líklega tólf ára gamall þegar fyrsta hljómsveitin hans tók til starfa en þar var hann harmonikkuleikari, hún hét Gosar og í kjölfarið fylgdu Geislar (1963)  sem var gítarsveit í anda Shadows, og líklega var það í þeirri sveit sem hann færði sig yfir á trommurnar og þá var ekki aftur snúið.

Það var svo haustið 1964 sem Gunnar gekk til liðs við hljómsveitina Tóna sem hafði þá reyndar verið starfandi í um tvö ár, og með þeirri sveit vakti trommuleikur hans mikla athygli. Sveitin, sem reyndar hefur af mörgum verið sögð fyrsta íslenska bítlasveitin (á undan Hljómum), vakti töluverða lukku en hún lék þrjú kvöld í viku þótt meðlimir hennar væru ungir að árum en Jökullinn var þeirra langyngstur, aðeins fimmtán ára gamall. Blöðin fengu smjörþefinn af þessum unga og snjalla trommuleikara og yfirleitt var haft á orði hversu hárprúður hann væri en bítlahár var þá að ryðja sér til rúms, hárskerum til mikils ama á þessum árum.

The Syn

Vorið 1966 héldu þeir Gunnar og Sigurður Árnason félagi hans og bassaleikari úr Tónum til London til að kynna sér nýjustu straumana í tónlist og fatatísku en trymbillinn var þá orðinn sautján ára gamall. Þar voru þeir um sumarið og þegar Sigurður sneri heim á nýjan leik um haustið varð Jökullinn eftir í London og farinn að leika með hljómsveitinni The Syn, sem þá var farin að vekja nokkra athygli ytra. Hann var þá kominn með atvinnuleyfi í Bretlandi sem var reyndar nokkurt bras því hann var einungis sautján ára gamall og fékk því leyfið á undanþágu. Með The Syn lék Gunnar inn á að minnsta kosti tvær smáskífur, og lék sveitin víða við nokkrar vinsældir í klúbbum og fór m.a. til Frakklands til að spila. Þótt vel gengi lifðu félagarnir hátt og því báru þeir ekki mikið úr býtum, þetta varð hálfgert hark á köflum og Gunnar kom því heim um jólin 1966 í fáeinar vikur, og spilaði þá í nokkur skipti með hljómsveitinni Tempó. Hann fór þó aftur út til Bretlands og í blaðaviðtali kom fram að The Syn myndi að öllum líkindum koma í heimsókn til Íslands um vorið, af því varð þó aldrei og Gunnar hélt áfram í harkinu þar til um haustið 1967 að hann kom heim til Íslands og sneri ekki aftur til London. Af The Syn er að segja að hún hætti störfum ekki löngu síðar og upp úr leifum hennar varð hljómsveitin Yes til, og varð töluvert stórt nafn, þeir félagar vildu fá Gunnar til að ganga til liðs við hina nýju sveit og segja heimildir ýmist að ekki hafi náðst í Gunnar eða að hann hafi ekki haft áhuga á því. Sömu heimildir segja jafnframt að Jökullinn hafi skapað sér gott nafn í Bretlandi og margir þar telji hann hafa verið með færustu trommuleikurum samtímans, hann hafi t.d. fundið upp hið svokallaða tvöfalda bít í trommuleik (sem Stuðmenn sungu m.a. um í samnefndu lagi) og hafa fjölmiðlar hér í gegnum tíðina óspart hampað Gunnari sem upphafsmanni þess bíts hvað svo sem aðrir segja um það.

Um haustið 1967 hóf Gunnar að leika með Tempó eins og hann hafði gert haustið á undan en fljótlega hætti sú sveit og gekk hann þá til liðs við hljómsveitina Flowers, tók þar við af Rafni Haraldssyni. Gunnar var þarna orðinn landsþekktur trommuleikari aðeins átján ára gamall og mikil spilamennska tók nú við hjá sveitinni, sem naut mikilla vinsælda og sveitin sendi frá sér eina fjögurra laga smáskífu haustið 1968. Og Gunnar lék á fleiri plötum það árið, smáskífum Sigrúnar Harðardóttur og Kristínar Ólafsdóttur.

Gunnar Jökull

Nokkrar væringar voru í íslenska poppheiminum á þessum tíma, Hljómar sem höfðu borið höfuð og herðar yfir aðrar sveitir árin á undan var nú ógnað af fleiri sveitum, m.a. Flowers en höfðu verið að reyna fyrir sér undir nafninu Thor‘s hammer á erlendum vettvangi og höfðu þá vinsældir sveitarinnar fyrir vikið minnkað töluvert á heimavellinum enda tónlistin orðin mun þyngri og tormeltari. Um sumarið 1968 bauðst þeim Thor‘s hammer / Hljóma – félögum að fara og túra um Bandaríkin og við það tækifæri buðu þeir Gunnari að ganga til liðs við sveitina, auk Shady Owens sem þá söng með Óðmönnum. Ekkert varð úr fyrirhugaðri Ameríkuför, Óðmenn hættu í kjölfarið og Shady gekk í Thor‘s hammer sem urðu nú aftur að Hljómum en Gunnar hélt áfram með Flowers. Leiðindamórall varð innan tónlistargeirans vegna málsins enda fannst mörgum sem Hljómar gætu varla sótt sér mannskap í aðrar hljómsveitir eins og þeim hentaði.  Platan með Flowers hafði slegið í gegn og lög eins og Glugginn og Slappaðu af urðu mjög vinsæl, og hljómsveitin ógnaði nú veldi Hljóma sem reyndar höfðu gefið út stóra plötu sem naut vinsælda.

Samgangur á milli sveitanna tveggja var töluverður og vorið 1969 komu stórar fréttir sem skóku íslenska poppheiminn heldur betur en þá spurðist út að ný súpergrúbba væri að líta dagsins ljós úr Hljómum og Flowers undir nafninu Trúbrot. Þeir Gunnar Þórðar, Rúni Júl. og Shady Owens komu úr fyrrnefndu sveitinni en Jökullinn og Karl Sighvatsson úr Flowers, sveitin kom fyrst fram í júlí og fór svo í kjölfarið til Bandaríkjanna og lék þar á nokkrum tónleikum áður en spilamennska hér heima og plötuupptökur í London tóku við. Um það leyti sem platan kom út fyrir jólin komst sveitin í annars konar klandur en lítilræði af hassi hafði fundist í fórum meðlima sveitarinnar (nema Gunnars Jökuls) og var gert stórmál úr því með tilheyrandi fjölmiðlaumfjöllun og banni á nokkrum skemmtistöðum. Gunnar var því með tiltölulega hreinan skjöld hvað þetta varðaði enda var hann „bara“ í áfengi eins og flestir. Hins vegar kom hvergi fram í fréttum þess tíma að Gunnar ætti í annars konar vanda, álagið var farið að setja mark sitt á hann og taugarnar voru þandar þótt ekki sæist það á honum utan frá. Þegar hann leitaði aðstoðar lækna vegna álagsins fékk hann að hætti tíðarandans töflur til að róa taugarnar, þannig leið honum strax betur en áttaði sig hvergi nærri á að lyfið (valium) væri ávanabindandi og ekki bætti heldur úr skák að Gunnar drakk töluvert ofan í lyfin. Næstu árin ágerðust því vandamálin og hann einangraðist nokkuð frá öðrum meðlimum bandsins sem hins vegar voru í öðrum efnum.

Vandamál Gunnars áttu sjálfsagt þátt í innri hræringum innan Trúbrots, Karl hljómborðsleikari hætti sumarið 1970 og fljótlega einnig Shady og svo Gunnar en tvennar sögur fóru af því hvernig það kom til, að sögn annarra meðlima sveitarinnar hafði áhugaleysi einkennt trommuleikarann en sjálfur sagðist hann hafa verið rekinn eftir að hafa verið gagnrýndur fyrir að vilja vinna nýtt og frumsamið efni í stað ábreiðna. Hann lýsti því yfir í kjölfarið að hann myndi aldrei spila aftur með Trúbroti og flótlega hóf hann að spila með hljómsveitinni Tilveru um skeið. Um það leyti fór hann utan til Svíþjóðar (síðari heimildir segja London) til að taka upp plötu með lögum Einars Vilberg sem Pétur Kristjánsson söng, og einnig hafði hann þá áður leikið á plötu Erlu Stefánsdóttur. Í Svíþjóð leitaði hann að verkefnum en kom heim með þeim orðum að flestar sveitir í Svíþjóð spiluðu tónlist í anda Sextetts Ólafs Gauks, og hann hefði ekki haft áhuga á því.

Gunnar Jökull með settið merkt „GJ“

Mörgum að óvörum gekk Gunnar (og Karl einnig) til liðs við gömlu félagana í Trúbrot í ársbyrjun 1971 og voru þá allar skærur lagðar til hliðar í bili. Í kjölfarið kom blómaskeið sveitarinnar, um vorið sömdu þeir og tóku upp verkið …lifun sem kom síðan út á plötu og er iðulega talið meðal bestu platna íslenskrar popptónlistarsögu. Sveitin lék þá einnig í Saltvík um hvítasunnuhelgina og var reyndar á fullu um sumarið, á sama tíma annaðist Gunnar umboðsmennsku og fjármál sveitarinnar og jókst því álagið jafnt og þétt samhliða því sem hann ánetjaðist þeim vítahring sem fylgdi valium- og áfengisneyslunni. Á yfirborðinu virtist þó allt með felldu, hann giftist kærustu sinni um haustið 1971 og varð faðir ári síðar og fáa grunaði hvað leyndist undir yfirborðinu. Samhliða þessu var feikimikið að gera hjá Trúbrot, sveitin spilaði mikið, tók upp aðra plötu (Mandala) sem sveitin gaf sjálf út árið 1971 og lék reyndar einnig á tveimur smáskífum hjá Geirmundi Valtýssyni og á plötu Þuríðar Sigurðardóttur og Pálma Gunnarssonar, Þuríður & Pálmi syngja lög Gunnars Þórðarsonar.

Um haustið 1972 var útséð með að Trúbrot myndi hætta og hætti Jökullinn um það leyti í sveitinni sem starfaði þó fram yfir áramótin, hann gekk til liðs við hljómsveitina Mána en staldraði þar fremur stutt við og þar með lauk hljómsveitaferli Gunnars Jökuls í árbyrjun 1973. Gunnar sem fáeinum árum áður var þekktasti og færasti trymbill landsins hvarf af sjónarsviðinu en í viðtölum á þeim tíma virtist svo ekkert endilega ætla að verða, hann sagðist ætla að einbeita sér meira að fjármála- og viðskiptatengdum störfum tengt tónlistarbransanum og ekkert virtist benda til þess að hann myndi hætta að spila á trommur fyrr en nokkru síðar, hann starfaði við umboðsmennsku næstu misserin m.a. hjá Ámunda Ámundasyni, var um tíma framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar Eikar en hann hafði einnig annast umboðsmennsku fyrir Mána.

Næstu árin fékkst Gunnar við ýmis ólík störf ótengd tónlistinni, hann rak um tíma matvöruverslun, starfaði við trygginga-, fasteigna- og bílasölu, og keyrði bæði strætó og leigubíla áður en hann fór að starfa í plötubúð, þá hafði hann búið í Kaupmannahöfn um tíma einnig. Reyndar hafði hann komið lítillega við sögu á safnplötunni Íslensk alþýðulög. Í blaðaviðtali árið 1985 sagðist hann ætla að fara af stað aftur í tónlistinni en augljóst var að hann var þá orðinn töluvert andlega veikur, í því viðtali kom fram að hann hefði keypt hljómborð sem hann spilaði mikið á og væri mikið að semja tónlist. Þá greindi hann einnig frá valium- og lyfjafíkn sinni og sagðist þá hafa farið í meðferð árið á undan en þetta var þá í fyrsta sinn sem hann tjáði sig opinberlega um málið. Árið 1986 virtist sem eitthvað væri að rofa til hjá honum og í upphafi árs lék hann með Trúbrot sem var endurreist fyrir rokkhátíð á Broadway (Söngbók Gunnars Þórðarsonar). Um haustið lýsti hann því yfir í enn einu viðtalinu að hann væri kominn á fullt skrið í tónlistinni en skömmu síðar var hann farinn til Svíþjóðar og heyrðist ekki af honum næstu árin.

Gunnar Jökull 1985

Það sem ekki hafði komið fram í fréttum af Gunnari á þeim tíma (en hann opinberaði síðar í viðtali við Dag, árið 1999) var að hann væri samkynhneigður, hefði verið í sambúð með karlmanni í sex ár sem hefði þá drukkið sig í hel árið 1985 og skömmu síðar hefði Gunnar sjálfur komist að því að hann væri alnæmissmitaður. Þessi áföll hefðu dunið á honum á skömmum tíma ofan á allt annað og því m.a. flúði hann til Svíþjóðar, ekki er heldur ólíklegt að feluleikurinn í kringum samkynhneigðina hafi sett mark sitt á andlegt ástand hans í gegnum tíðina allt frá unglingsárum og því hafi hann leitað í áfengi og lyf. Það má því segja að líf hans hafi verið langt frá því að teljast dans á rósum.

En Gunnar kom aftur heim árið 1994 frá Svíþjóð, hann hafði þá verið langt niðri og reynt í nokkur skipti að fyrirfara sér, reynt að leita sér aðstoðar vegna fíknarinnar og jafnframt verið tilraunadýr með alnæmislyf. Hann kom fram í sjónvarpsþætti á Stöð 2 og engum duldist að maðurinn var mikið veikur, þátturinn var mjög gagnrýndur og þáttastjórnandinn einnig fyrir framlag sitt í honum.

Ári síðar (haustið 1995) kom út fyrsta og eina sólóplata Gunnars, Hamfarir en á henni samdi hann öll lög og texta, útsetti, söng og spilaði á hljómborðsskemmtara, hann trúði sjálfur að platan myndi seljast í bílförmum og „fyrsta“ upplagið mun hafa verið fimm þúsund eintök – en hún hreyfðist sáralítið. Hann hafði ætlað að selja hana í áskrift fyrirfram og gefa hana út á alþjóðlegum vettvangi en boðaði með henni nýja tónlistarstefnu „pop beat“ en platan kom út undir því merki og hlaut hann styrk til þess frá Alnæmissamtökunum. Plötuna hafði hann tekið upp heima hjá sér en verið með hana í hausnum í um tíu ár eins og hann sagði sjálfur og af orðum hans að ráða ætlaði hann að gefa út helst eina plötu á ári og að hann væri farinn að vinna að þeirri næstu. Platan sjálf, Hamfarir, hefur orðið að eins konar költ-útgáfu og hugtakið „hamfarapopp“ varð til upp frá því, rétt er þó að taka fram að hugtakinu er ætlað að ná yfir tónlist fólks sem með eins konar sjálfsbjargarviðleitni gefur út sínar eigin plötur og gerir helst allt sjálft með mismikilli kunnáttu, semur, spilar, leikur á hljóðfæri, hannar plötuumslag o.s.frv. án þess að því sé ætlað að vera niðrandi eða lýsandi fyrir tónlistina eða flytjendurna.

Gunnar 1995

Gunnar Jökull var þarna orðinn mjög veikur, alnæmið og andlegu veikindin settu svip sinn á líf hans og svo fór að hann varð að láta undan og lést haustið 2001, fimmtíu og tveggja ára gamall. Hann hafði síðast komið fram árið 1996 á tónleikum til styrktar vini sínum, Rúnari Júl úr Trúbroti sem þá var að fara í hjartaaðgerð, hann hafði auglýst trommukennslu í smáauglýsingum 1997 en hætt er við að lítið hafi verið um kennslu hjá honum þar.

Gunnar er má segja eins konar goðsögn í íslensku tónlistarlífi, enn er talað um hann sem einn besta trommuleikara sem Ísland hefur alið og sem manninn sem fann upp tvöfalda bítið. Plötur Trúbrots og Flowers eru ágætar heimildir um trommuleik hans en minningin ein verður að duga um trommusóló hans sem hann átti til að bresta í á sínum tíma. Hætt er við að með tímanum verði Hamfara-plata hans minnisvarðinn sem stendur upp úr en hún ber miklu fremur vitni um veikindi hans en hæfileika.

Efni á plötum