Geislar [1] (1963-68)

engin mynd tiltækFremur litlar upplýsingar er að finna um þá skólahljómsveit sem ku hafa borið nafnið Geislar, en hún mun hafa verið starfandi í Reykjavík upp úr 1960, líklega þó ekki fyrr en 1963 eða þar um bil.

Gunnar Jökull Hákonarson (Trúbrot o.fl.) mun hafa stofnað sveitina ásamt Viðari Jónssyni og Jóni Ármannssyni, og síðar bættist í hópinn Garðar Guðmundsson söngvari, þá var „Jökullinn“ kominn á bakvið trommusettið en hann hafði í upphafi gegnt einhverju öðru hlutverki í sveitinni.

Aðrar heimildir segja Karl Júlíusson hafa verið trommuleikara sveitarinnar en hann hefur þá tekið við af Jöklinum (líklega 1964). Aðrir meðlimir sveitarinnar síðar voru Jón Ólafsson bassaleikari og söngvari, Höskuldur (hét síðar Gísli) Pálsson gítarleikari og Egill Ólafsson (síðar Stuðmenn, Þursaflokkurinn, Spilverk þjóðanna o.fl.) gítarleikari. Óttar Felix Hauksson tók við af Agli að öllum líkindum 1964 og ekki löngu síðar hætti Höskuldur, eftir það starfaði sveitin sem tríó. Karl trymbill hætti í sveitinni 1965 og tók Aðalsteinn Rúnar Emilsson við kjuðunum, Geislar störfuðu í á annað ár eftir það, spilaði m.a. um verslunarmannahelgina í Þórsmörk 1967 en hætti loks störfum um áramótin 1967-68 er Óttar Felix fór utan.

Geislar eru prýðilegt dæmi um hljómsveit sem varð til á Shadows-tímabilinu, þróaðist yfir í bítlapopp og endaði síðan í frumhipparokki að hætti The Who og annarra sveita.