Geimsteinn [2] [útgáfufyrirtæki] (1976-)

engin mynd tiltækÚtgáfufyrirtækið Geimsteinn er í eigu fjölskyldu G. Rúnars Júlíussonar tónlistarmanns (d. 2008) í Keflavík, auk Þóris Baldurssonar.

Fyrirtækið var stofnað af þeim Rúnari og Maríu Baldursdóttur unnustu hans árið 1976, eftir að Hljómar, annað útgáfufyrirtæki (sem Rúnar og Gunnar Þórðarson höfðu starfrækt), hafði lagt upp laupana en það hafði þá starfað í nokkur ár.

Árið 1982 eignaðist fyrirtækið eigið hljóðver, Upptökuheimili Geimsteins en fyrirtækið og hljóðverið er starfrækt á neðri hæð heimilis þeirra hjóna, Rúnars og Maríu en auk þess eru synir þeirra Baldur og Júlíus meðeigendur í dag, sem og áðurnefndur Þórir sem er bróðir Maríu.

Geimsteinn hefur gefið út á þriðja hundrað titla og er enn starfrækt í Keflavík en fyrirtækið hefur haft það orð á sér að gefa ungum og óþekktum tónlistarmönnum tækifæri til að koma sér á framfæri. Það má því segja að það sé miklu fremur rekið af hugsjón en gróðahyggju.

Árið 2008 höfðu komið út um 250 titlar á vegum fyrirtækisins en það er enn starfandi. 2009 kom út tvöföld safnplata með 42 lögum sem útgáfan hafði gefið út á árunum 1976-2009.