Geimsteinn [1] (1976-86)

Hljómsveitin Geimsteinn var stofnuð 1976, samhliða stofnun samnefnds útgáfufyrirtækis Rúnars Júlíussonar sem hann hafði þá sett á laggirnar.

Í byrjun var sveitin eins konar hljóðverssveit og fyrsta platan var tekin upp í New York með þarlendum session mönnum án þess að sveitin væri í raun til, þ.e. hún fór ekki strax í ballspilamennsku en það átti eftir að breytast. Kjarninn í sveitinni var þríeykið Rúnar Júlíusson bassaleikari, María Baldursdóttir söngkona og unnusta Rúnars, og Þórir Baldursson hljómborðsleikari og bróðir Maríu.

Á þeim fimmtán árum sem sveitin var starfandi var skipan hennar nokkuð breytileg þótt þau þrjú væru uppistaðan í henni. Menn komu og fóru og má nefna nokkra s.s. Hrólf Gunnarsson trommuleikara, Finnboga Kjartansson bassaleikara, Vigni Bergmann gítar- og hljómborðsleikara, Sigurð Reynisson trommuleikara, Sigurð Karlsson trommuleikara, Tryggva Hübner gítarleikara, Ragnar Sigurjónsson trommuleikara, Þorstein Magnússon gítarleikari o.fl. T.d. gengu synir þeirra Rúnars og Maríu í sveitina þegar þeir höfðu aldur til, einnig voru fjölmargir erlendir session menn sem spiluðu á plötum sveitarinnar.

Geimsteinn[1]

Geimsteinn

Geimsteinn spilaði nokkuð á böllum um land allt og einnig víða erlendis, einkum hjá Íslendingafélögum t.d. á Norðurlöndunum. Einnig spilaði hún í Englandi og Bandaríkjunum en þar kallaði hún sig The Ice bears. Hér heima var sveitin kannski ekki áberandi á ballmarkaðnum en spilaði þó töluvert, t.d. á Keflavíkurflugvelli fyrir bandaríska hermenn.

Geimsteinn afkastaði mestu á fyrstu árum sínum útgáfulega séð og kom fyrsta platan út sama ár og samnefnt útgáfufélag var stofnað, árið 1976. Þá var ekkert verið að flækja málin og hét þessi fyrsta plata bara Geimsteinn. Þar náði lagið Betri bíla, yngri konur nokkrum vinsældum í útvarpi og í kjölfarið varð það lag nokkurs konar einkennismerki sveitarinnar. Platan hlaut ágætar viðtökur og fékk hún t.d. þokkalega dóma Vísi og í Poppbók Jens Guðmundssonar.
Næsta plata kom síðan út árið eftir, 1977 og hlaut hún titilinn Geimtré. Upptökur fóru fram í Hljóðrita í Hafnarfirði en Rúnar og Þórir sáu um útsetningar. Þessi plata fékk ekki eins góðar viðtökur og fyrsta platan og t.a.m. fékk hún fremur neikvæða dóma í fyrrnefndri Poppbók Jens Guðmundssonar.

Þriðja platan, Geimferð kom út 1978 og á henni var að finna lagið Ég sé um hestinn sem Skriðjöklarnir tóku upp á arma sína nokkrum árum síðar og gerðu gríðarvinsælt, það lag náði reyndar nokkrum vinsældum í gerð Geimsteins. Platan hlaut þó ekki jákvæða dóma og Poppbók Jens gaf henni fáar stjörnur. Jónas R. Jónsson stjórnaði upptökum á plötunni.

Geimsteinn[1]

Geimsteinn í lit

Næst liðu tvö ár þar til næsta plata kom út en á undan kom tveggja laga smáskífa með lögunum Jarðarfarardagur/Suðurnesjamenn en þau lög hafði Þórir Baldursson einmitt gert vinsæl áður fyrr með Savanna tríóinu. Stóra platan kom síðan út og fékk nafnið Með þrem en þá hafði Engilbert Jensen bæst við sem söngvari, lögin voru bæði tekin upp í Hljóðrita og í Bandaríkjunum. Platan hlaut misjafnar viðtökur, fékk slaka dóma í Poppbókinni en þokkalega í Morgunblaðinu.

Þessi fjórða stóra plata varð sú síðasta með Geimsteini en sveitin starfaði þó mun lengur og þegar Rúnar stofnaði Hljómsveit/Rokksveit Rúnars Júl. má segja að það sé beint framhald af sveitinni, en sú sveit er hljómsveit sem hefur mikið spilað á böllum þótt hún hafi ekki gefið út efni. Þess má að lokum geta að Geimsteinn lék undir á jólaplötu Þóris Baldurssonar, Klukknahljóm, sem út kom 1982. Aukinheldur lék sveitin undir laginu Syngdu lag, sem Pálmi Gunnarsson söng í fyrstu undankeppni Eurovision, og kom út á safnplötunni Skýjaborgir (1986).

Efni á plötum