Andlát – Hallfríður Ólafsdóttir (1964-2020)

Hallfríður Ólafsdóttir

Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari er látin eftir nokkur veikindi en hún var aðeins fimmtíu og sex ára gömul. Hallfríður var fædd og uppalin í Kópavogi, nam flautuleik hér heima og síðan í Bretlandi og Frakklandi. Þegar hún kom heim að loknu námi hóf hún störf með Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem hún starfaði í tvo áratugi og kom m.a. fram á fjölda einleikskonserta en hún kom einnig að hljómsveitarstjórnun sömu sveitar auk fleiri af sömu stærðargráðu auk minni sveita. Hún stofnaði jafnframt kammerhópinn Camerarcticu sem hefur leikið víða og á plötum en flautuleik Hallfríðar má einnig heyra á nokkrum öðrum plötum, hún hefur einnig fengist við kennslu, m.a. við Listaháskóla Íslands.

Hallfríður er þekkt fyrir tónlistarverkefni sitt um Maxímús músíkús en það voru bækur (með geisladiskum) sem hún skrifaði ásamt Þórarni M. Baldurssyni í því skyni að kveikja og efla áhuga barna á tónlist. Það verkefni hefur fyrir löngu orðið þekkt og útbreitt víða um heim og fjölmargar stærri hljómsveitir hafa tekið það upp á arma sína. Hallfríður hefur margoft verið verðlaunuð fyrir þetta framlag sitt hér heima og á alþjóðavettvangi.