Andlát – Adda Örnólfs (1935-2020)

Adda Örnólfs

Söngkonan Arnbjörg Auður Örnólfsdóttir (Adda Örnólfs) er látin, á áttugasta og sjötta aldursári. Adda sem var ein af fyrstu söngkonum íslenskrar dægurlagatónlistar fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 1935 en flutti ung til Reykjavíkur þar sem hún vakti athygli fyrir sönghæfileika sína, hún kom fyrst fram á tónleikum með KK-sextettnum sumarið 1953 ásamt Elly Vilhjálms og fleiri sem þar þreyttu frumraun sína á sviði. Í kjölfarið bauðst henni að syngja inn á nokkrar 78 snúninga plötur ásamt Ólafi Briem og fleirum en einnig söng hún inn á eina plötu eins síns liðs.

Adda söng eitthvað áfram með KK-sextettnum sem og Hljómsveit Magnúsar Randrup og öðrum sveitum og varð þekktasta lag hennar án efa Bella símamær en einnig söng hún lög eins og Nótt í Atlavík, Töfraskórnir og Indæl er æskutíð. Lög hennar voru gefin út sem fyrr segir á 78 snúninga plötum en voru ekki endurútgefin þegar önnur plötuform komu til sögunnar svo tónlist hennar varð ófáanleg um nokkurra áratuga skeið, nokkur lög hennar voru þó endurútgefin á safnplötum þegar geisladiskarnir komu til sögunnar löngu síðar.