Andlát – Axel Einarsson (1947-2020)

Axel Einarsson

Tónlistarmaðurinn Axel Einarsson er látinn, rétt tæplega sjötíu og þriggja ára gamall.

Axel Pétur Juel Einarsson (f. 1947) starfaði með fjölda hljómsveita á ferli sínum, fyrst sem bassaleikari en síðan sem gítarleikari og söngvari. Meðal sveita hans sem sumar urður all þekktar má nefna Bakkabræður, Þotur, Rjóma, Sóló 66, Sálina, J.J. Quintet, Personu, Landshornarokkara, Kaskó, Foss, Deildarbungubræður, Hauka, Freeport, Tilveru, Vana menn og síðast en ekki síst Icecross sem gaf út plötu sem í dag er mjög eftirsóttur safngripur.

Þá rak Axel útgáfufyrirtæki undir Icecross-nafninu og svo einnig hljóðverið og útgáfufyrirtækið Stöðina sem gaf út fjölda platna sem hann hljóðritaði og lék inn á, Stöðin gaf t.a.m. út safnplöturöðina Lagasafnið sem fjölmargar hljómsveitir og tónlistarfólk fékk tækifæri til að láta ljós sitt skína á.

Axel sendi frá sér eina níu laga sólóplötu, Acting like a fool árið 1976 en áður hafði hann gefið út smáskífu í samstarfi við Herbert Guðmundsson (1972), þá samdi hann fjölda laga en þekktust þeirra eru án efa Aldrei ég gleymi sem Erna Gunnarsdóttir söng í undankeppni Eurovision 1987 og svo Hjálpum þeim sem naut gríðarlegra vinsælda fyrir jólin 1986 í flutningi Hjálparsveitarinnar, til styrktar hjálparstarfi í Afríku.