Afmælisbörn 12. júlí 2021

Hallfríður Ólafsdóttir

Fjögur afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Ríó-liðinn góðkunni Ágúst Atlason er sjötíu og eins árs í dag en hann er eins og allir vita einn af þeim sem skipuðu Ríó tríó, sem gaf út fjölda platna á árum áður. Ágúst hafði verið í Komplex, Næturgölum og Nútímabörnum áður en hann gekk til liðs við Ríóið en einnig hefur hann verið í hljómsveitum eins og Alfa beta, sem gaf út plötu seint á níunda áratugnum. Ágúst er faðir Telmu Ágústsdóttur er söng Tell me í Eurovision keppninni árið 2000.

Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hún lést árið 2020 á fimmtugasta og sjöunda aldursári sínu. Hallfríður (f. 1964) nam tónlist í Bretlandi og Frakklandi og eftir nám kom hún heim til Íslands og lék m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hún stofnaði m.a. kammerhópinn Camerarctica, fékkst við kennslu og lék inn á nokkrar plötur en þekktust var hún líklega fyrir verkefni sitt um Maxímús músíkús sem varð þekkt víða um heim.

Ólafur Garðarsson trommuleikari er einnig sjötíu og eins árs gamall á þessum degi. Ólafur lék með ógrynni þekktra hljómsveita á sínum tíma og má þeirra á meðal nefna Tilveru, Óðmenn, Change, Trúbrot, Pónik, Acropolis, Celsíus, Náttúru og Tempó svo aðeins brot af þeim séu talin upp. Þá þarf vart að nefna að hann lék inn á fjölda platna á trommaraferli sínum.

Að síðustu er hér nefndur söngvarinn Guðjón Guðmundsson eða Gaupi eins og hann er oft nefndur en hann er þekktastur í dag fyrir íþróttafréttamennsku sína. Gaupi, sem í dag er sextíu og sjö ára gamall var hins vegar söngvari í nokkrum hljómsveitum á áttunda áratugnum og eru þær helstu Jeremías, Námsfúsa Fjóla, Fjóla, Goðgá og Ernir.

Vissir þú að hljómsveitin Loðin rotta gekk um tíma undir nafninu Sköllótta músin?