Afmælisbörn 13. júlí 2021

Steinunn Þóra Camilla Sigurðardóttir

Að þessu sinni eru fimm tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

María Björk Sverrisdóttir söngkona, söngkennari, útgefandi og margt fleira, er fimmtíu og átta ára. María Björk lærði bæði djass- og klassískan söng og hefur sungið inn á fjölmargar plötur, m.a. undir aukasjálfinu Aría. Hún hefur þó að mestu helgað sig tónlist fyrir börn, stofnaði á sínum tíma Söngskóla Maríu Bjarkar þar sem hún kenndi börnum söng ásamt Sigríði Beinteinsdóttur, og gaf út sem Söngvaborg. Hún uppgötvaði m.a. Jóhönnu Guðrúnu í því samhengi og var umboðskona hennar um tíma. María Björk hefur einnig komið sterk inn sem lagahöfundur í Eurovision og Sæluviku Skagfirðinga hin síðustu ár.

Steinunn Þóra Camilla Sigurðardóttir ein Nylon / Charlies söngsystra  er þrjátíu og sjö ára gömul í dag. Flestir muna eftir Nylon ævintýrinu en sveitin var stofnuð vorið 2004, þær fluttust síðar til Bretlands og síðar Bandaríkjanna undir nafninu The Charlies, en þá hafði fækkað í hópnum. The Charlies hætti störfum 2015.

Bjarni (Andrés) Arason söngvari, fjölmiðlamaður og hótelstjóri á stórafmæli en hann er fimmtugur í dag, hann varð landsþekktur fyrir Presley rödd sína þegar hann sigraði Látúnsbarkakeppni Stuðmanna sumarið 1987 og gaf út sína fyrstu sólóplötu ári síðar. Síðan hefur hann sent frá sér fjölmargar plötur, þar af eina með Sverri Stormsker, en þekktasta lag hans er þó að öllum líkindum Karen sem hann söng í undankeppni Eurovision 1992.

Stórsöngvarinn Sigurður Johnny Þórðarson (Siggi Johnny) átti afmæli á þessum degi. Siggi (1940-2016) var upp á sitt besta á blómaskeiði rokksins á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, söng þá með ýmsum sveitum eins og hljómsveitum Svavars Gests, Björns R. Einarssonar og José Riba, auk KK-sextett og ýmsum öðrum. Siggi lagði sönginn til hliðar að mestu þegar Bítlarnir komu til sögunnar en kom inn sterkur síðar á sýningar sem haldar voru rokkinu til heiðurs á Broadway og Hótel Íslandi.

Eyfellingurinn Jón Sigurðsson, oft nefndur Jón í bankanum, hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 1992. Jón (f. 1925) var kunnur laga- en einkum þó textahöfundur og samdi texta við lög eins og Ég er kominn heim, Allt á floti, Einsi kaldi úr Eyjunum, Sagan af Nínu og Geira, Úti í Hamborg og Komdu í kvöld, svo fáein dæmi séu tekin en sagt er að eftir Jón liggi um tvö hundruð textar. Jón var ennfremur liðtækur hljóðfæraleikari og lék með ýmsum hljómsveitum á árum áður s.s. Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Hljómsveit Óskars Cortes og Hljómsveit Karls Jónatanssonar.

Vissir þú að Björk var eitt sinn kaupakona hjá Labba í Mánum?