
Combó Þórðar Hall
Combó Þórðar Hall var með allra fyrstu gjörningasveitum hér á landi og því vakti það alltaf mikla eftirtekt þegar sveitin kom fram, hún varð hins vegar skammlíf.
Combóið mun hafa verið stofnað síðla árs 1969 og kom fyrst fram á þorrablóti Myndlista- og handíðaskólans í janúar 1970 en meðlimir sveitarinnar voru allir nemar þar. Þeir voru Áskell Másson, Ómar Skúlason, Grétar Guðmundsson og Egill Eðvarðsson, upphaflega var sá sem sveitin var kennd við, Þórður Hall einnig í hópnum en hann hætti fljótlega og sagan segir að hann hefði óskað eftir að nafn hans yrði fjarlægt úr heiti sveitarinnar. Því mun sveitin hafa gengið undir nafninu Combó Þórðar Halldórssonar í blálokin.
Combó Þórðar Hall kom fram á ýmsum tónleikum og uppákomum fram á vorið 1970, og framdi þá ýmsa gjörninga, þeir notuðu mikið heimasmíðuð hljóðfæri og hljóðgjafa og skiptu mikið á milli hljóðfæra. Þeir sögðu í blaðaviðtali forðast að æfa fyrir tónleika og spunnu oft tónlist sína á staðnum, en samt æfðu þeir félagar töluvert. Einhverju sinni munu þeir hafa spilað badminton á sviðinu og á spil í annað skipti, og Egill Eðvarðsson sagði frá því í minningargrein um Karl J. Sighvatsson að á einum tónleikum hefðu þeir fengið söngkonuna Shady Owens í lið með sér, hún hefði sungið Bítlalagið Yesterday á meðan þeir hinir léku sitthvert lagið á meðan, sjálfur lék Egill Ó blessuð vertu sumarsól á Hammond orgel Karls, Ómar lék Stairway to heaven á bassa, Grétar skottís-takt á trommurnar og Áskell eins konar afrískan áslátt á tablatrommur eða ámóta hljóðfæri.
Combó Þórðar Hall hætti störfum um vorið 1970 þegar Egill fór til síns heima norður á Akureyri til sumarstarfa.