
Cosa nostra
Hljómsveitin Cosa nostra naut nokkurra vinsælda um miðjan níunda áratug síðustu aldar en sveitin sendi frá sér eina sex laga skífu.
Það voru hljómborðsleikararnir Máni Svavarsson og Guðmundur Sveinbjörnsson sem byrjuðu að starfa saman snemma árs 1984 en þeir voru þá nemendur í Verzlunarskóla Íslands, í fyrstu gengu þeir undir nafninu 1 to 3. Þegar Ólöf Ástríður Sigurðardóttir söngkona bættist í hópinn sumarið 1984 og Pétur Hallgrímsson gítarleikari skömmu síðar tóku þau upp nafnið Cosa nostra.
Sveitin byrjaði mjög fljótlega að vinna með frumsamið efni Mána og Ólöf lagði til textana, þau fengu svo stóra tækifærið vorið 1985 þegar þau sendu frá sér lagið Rauða fjöðrin sem samið var til styrktar söluátaki sem Lions-hreyfingin stóð fyrir en við það tækifæri komu þau fram í sjónvarpsþætti tengt átakinu og vöktu þar heilmikla athygli enda fékk þátturinn mikið áhorf. Lagið varð nokkuð vinsælt.
Cosa nostra-liðar hömruðu járnið meðan það var heitt, komu fram í útvarpsþætti Jóns Gústafssonar og léku þar tónlist sína, reyndar stóð jafnvel til um tíma að gefa út upptökurnar úr þeim þætti á plötu en þess í stað fór sveitin í hljóðverið Mjöt og tók þar upp nokkur lög um sumarið undir stjórn Þorsteins Jónssonar. Þau lög, sex að tölu komu svo út um haustið 1985 undir plötutitlinum Answers without questions en sveitin gaf sjálf út plötuna.
Lagið Waiting for an answer naut töluverðra vinsælda, fór hátt á vinsældalistum og var mikið spilað um tíma en hefur reyndar lítið heyrst síðan, einnig var á plötunni að finna lagið Where is my robot? en það var ensk útgáfa af laginu um Rauðu fjöðrina sem fyrst vakti athygli á sveitinni. Platan fékk ágætar viðtökur gagnrýnenda, hún fékk þokkalega dóma í Helgarpóstinum og ágæta í tímaritinu Samúel, DV og Morgunblaðinu en reyndar var sveitin nokkuð gagnrýnd fyrir að syngja á ensku.

Cosa nostra 1985
Cosa nostra starfaði áfram eftir útgáfu plötunnar og kom víða fram til að kynna hana, vinsældir hennar dvínuðu þó eftir því sem á leið 1986 og þegar Pétur gítarleikari hætti í sveitinni fór minna fyrir henni. Sveitin sendi frá sér lag á safnplötunni Vímulaus æska sem kom út um haustið 1986 en það hafði verið unnið löngu fyrr. Um áramótin 1986-87 var Cosa nostra orðin dúett þeirra Mána og Ólafar, þau störfuðu ekki lengi þannig og sveitin hætti endanlega 1987.