Ferðafélagi barnanna [annað] (1996-2003)

Umslag Ferðafélaga barnanna ’97

Á árunum 1996 til 99 sendi Aðalútgáfan frá sér bækur og kassettur/geisladiska undir nafninu Ferðafélagi barnanna en hluti ágóðans af sölunni rann til Sjálfsbjargar. Bækurnar innihéldu fróðleiksefni í bland við skemmti- og afþreyingarefni en kassetturnar/geisladiskarnir höfðu blöndu tónlistar og upplesinna sagna, og var ætlað til að hafa ofan af fyrir börnum á ferðalögum. Tónlistina fluttu þau Ingunn Gylfadóttir og Tómas Hermannsson ásamt fleiri tónlistarmönnum en leikarar eins og Örn Árnason, Steinn Ármann Magnússon og Pálmi Gestsson önnuðust upplestur sagnanna sem komu m.a. úr Grimms ævintýrum. Fyrsta árið (1996) var um að ræða kassettu með bókinni en hin skiptin virðist hafa verið hægt að velja um kassettu eða geisladisk.

Útgáfan virðist yfirleitt hafa mælst nokkuð vel fyrir, að minnsta kosti seldist upplagið yfirleitt upp en þó birtust lesendabréf í dagblöðunum þar sem kvartað var yfir meintri þágufallssýki í einni sögunni.

Ferðafélagi barnanna hlaut fremur skjótan endi árið 2000 þegar eigandi og forsvarsmaður Aðalútgáfunnar var dæmdur fyrir brot á höfundaréttarmálum og óheimila útgáfu og dreifingu hljóðrita en NCB (Nordisk copyright bureau) sótti málið fyrir að minnsta kosti þrjátíu og sex aðila og var eigandi útgáfunnar dæmdur til að greiða bætur til þeirra og aukinheldur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna málsins. Ekki reyndist unnt að gera upplög efnisins upptækt þar sem það var allt löngu selt.

Engu að síður kom Ferðafélagi barnanna út í eitt skiptið enn, árið 2003 og virðist þá hafa verið um að ræða einhvers konar safn úr fyrri útgáfunum.

Efni á plötum