Afmælisbörn 23. desember 2020

Árni Blandon

Tveir Árnar eru skráðir afmælisbörn hjá Glatkistunni í dag, Þorláksmessu:

Árni Blandon (Einarsson) tónlistarmaður, leikari, húsasmiður, sálfræðingur og bókmenntafræðingur á stórafmæli en hann er sjötugur í dag. Árni ásamt Kristínu Lilliendahl gaf út plötu árið 1975 undir nafninu Söngfuglarnir, sem naut feikilegra vinsælda, einkum lagið Ég skal mála allan heiminn, en áður hafði hann leikið á gítar í ýmsum hljómsveitum s.s. Tacton, Blússveit Hamrahlíðar, Dýrlingunum, Töturum og Bláa bandinu. Þá hefur hann komið við sögu á plötum með tónlist úr leikritum eins og Hatti og Fatti, Öskubusku og Gosa. Árni samdi lagið Dimmar rósir.

Árni Björnsson tónskáld (f. 1905) hefði átt afmæli þennan dag en hann lést 1995. Árni var úr Kelduhverfinu, fékk snemma áhuga á orgelleik, kórstjórnun og tónsmíðum, og svo fór að hann fór til náms, fyrst innanlands og síðan utan, og lét draum sinn rætast. Þegar hann kom aftur til Íslands átti hann eftir að spila með nýstofnaðri Sinfóníuhljómsveit Íslands hér heima, auk danslagasveita, en aukinheldur kenndi hann tónlist ásamt því að semja. Líf Árna tók þó stakkaskiptum þegar hann varð fyrir líkamsárárs sumarið 1952 og varð nánast óvinnufær eftir það. Tónlist Árna hefur verið gefin út á plötum tileinkuðum honum sérstaklega, og eitthvað er að finna á öðrum plötum.

Vissir þú að jólaplata Brunaliðsins – Með eld í hjarta, var endurútgefin sem safnplata undir nafninu Ellefu jólalög?