Brunaliðið (1978-80)

Brunaliðið

Brunaliðið var allt í senn, ein vinsælasta, afkastamesta og sukksamasta hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu en hún skartaði nokkrum af skærustu poppstjörnum landsins á því tæplega tveggja ára skeiði sem hún starfaði.

Tvennum sögum fer af því hvernig Brunaliðið varð til, annars vegar hefur verið sagt að Jón Ólafsson hljómplötuútgefandi (síðan nefndur Skífu-Jón) hafi fengið hugmyndina um jólin 1977 og sett sveitina saman í því skyni að gefa út plötu með vinsælustu poppurum landsins, hins vegar að það hafi verið að frumkvæði Magnúsar Kjartanssonar sem hafði verið starfandi hjá ferðaskrifstofunni Sunnu og í starfi sínu þar sett saman hljómsveit ásamt vinnufélaga sínum Birgi Hrafnssyni gítarleikara, og Sigurði Karlssyni trommuleikara og Pálma Gunnarssyni söngvara, sem lék á nokkrum dansleikjum fyrir fólk á öllum aldri tengt ferðaiðnaðinum. Að loknu því verkefni hefðu þremenningarnir Magnús, Sigurður og Pálmi viljað halda áfram og þá hefði Brunaliðið orðið til.

Allavega komu bæði Jón Ólafsson og Magnús Kjartansson báðir að verkefninu, Jón sem útgefandi og Magnús sem hljómsveitarstjóri. Verkefnið fór nokkuð leynt og var í raun ekkert opinberað fyrr en sveitin lék í sjónvarpsþáttum hjá Ólafi Ragnarssyni í aprílmánuði 1978 en þátturinn hét Á vorkvöldi. Þessi þáttur varð fyrst og fremst frægur fyrir að töframaðurinn Baldur Brjánsson framdi þar „uppskurð“ á konu en þátturinn markaði um leið upphaf Brunaliðiðsins. Meðlimir þess voru þá Magnús sem lék á hljómborð og söng, Pálmi Gunnarsson bassaleikari og söngvari, Sigurður Karlsson trommuleikari, Þórður Árnason gítarleikari, Magnús Eiríksson gítarleikari, Þórhallur Sigurðsson (Laddi) söngvari og grínari og söngkonurnar tvær Ragnhildur Gísladóttir og Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú).

Á dansleik með Brunaliðinu 1978

Segja má að þarna hafi verið á ferðinni sannkallað fjölmennt stórskotalið tónlistarmanna, Magnús Kjartansson hafði verið í fremstu víglínu með hljómsveitum eins og Júdasi, Óðmönnum og Trúbrot, nafni hans Eiríksson hafði þarna átt hvern smellinn á fætur öðrum með hljómsveitinni Mannakornum sem Pálmi var einnig í, Sigurður trommari hafði starfað með Eik, Change og fleiri þekktum sveitum og Þórður með hljómsveitinni Rifsberju. Ladda þekktu allir og Ragnhildur hafði þá sungið með Lummunum og Diddú með Spilverki þjóðanna, svo úr varð sannkallað stjörnugengi. Strax var gert opinbert að plata væri væntanleg og svo var farið í að skipuleggja fyrsta dansleikjatúrinn sem ákveðið var að fara í með litlum fyrirvara síðari hluta maí og fyrri hluta júní, reyndar svo litlum að bæði Diddú og Magnús Eiríksson voru fjarverandi hluta hans vegna anna annars staðar.

Ekki liðu margar vikur frá því að Brunaliðið birtist fyrst á sjónvarpsskjánum þar til breiðskífan leit dagsins ljós en það var seinni partinn í maí. Platan hafði verið tekin upp snemma um vorið í Hljóðrita og sami mannskapur að hluta kom að upptökum á plötu Ruthar Reginalds, Furðuverk sem tekin var upp um þær mundir.

Hljómplötuútgáfa Jón Ólafssonar gaf plötuna út eins og vænta mátti en hún bar nafnið Úr öskunni í eldinn. Hún kom út um það leyti sem sveitin lagði af stað í hringferðina um landið og seldist gríðarlega vel frá fyrsta degi, eftir um tvær vikur höfðu vel á þriðja þúsunda eintaka platna og kassettna selst og ljóst að eitthvað stórkostlegt var að gerast, svo farið var í að panta fleiri og stærri upplög. Þegar upp var staðið höfðu selst um þrettán þúsund eintök af plötunni sem var með ólíkindum.

Veggspjald tóbaksvarnaráðs

Góðri sölu plötunnar má líklega þakka stórsmelli hennar sem sló í gegn strax á fyrsta degi en það var lagið Ég er á leiðinni. Lagið, sem í raun er sjómannaslagari og átti því greiða leið í þjóðarsálina, varð svo vinsælt að það mun vera algjört einsdæmi hér á landi. Þeir Brunaliðsmenn sögðu síðar frá því að þeir hefðu allt eins getað keyrt á þessu eina lagi á dansleikjum sínum og oft hefði það verið þriðja eða fjórða hvert lag sem þeir léku á böllunum. Höfundur lagsins, Magnús Eiríksson, fékk að sögn nóg af vinsældum þess og gat ekki sjálfur hlustað á það í langan tíma, svo oft heyrðist það í óskalagaþáttum útvarpsins sem og í öllum partíum og víðar. Önnur lög náðu einnig nokkrum vinsældum þótt ekki væri það í neinni líkingu við Ég er á leiðinni, lögin Freknótta fótstutta mær og Sandalar sem Laddi söng, Kæra vina í flutningi Magnúsar Kjartanssonar, Einskonar ást með Ragnhildi og Diddú og Alein með þeirri síðarnefndu heyrðust mikið spiluð sem segir nokkuð um vinsældir sveitarinnar og plötunnar þetta sumar. Af einhverjum ástæðum birtust fáir dómar um plötuna í dagblöðum þess tíma, hún fékk góða dóma í Tímanum en mjög neikvæður dómur birtist í tímaritinu Halló sem og í Poppbók Jens Guðmundssonar – sem reyndar ritaði báða síðarnefndu dómana.

Fyrstu helgina í júlí spilaði Brunaliðið á útihátíðinni Einni með öllu sem haldin var á Melgerðismelum í Eyjafirði, þar var líka á ferðinni hljómsveitin Hver frá Akureyri sem skipuð var menntaskólanemum og innan hennar voru þrjár efnilegar söngkonur sem tóku lagið með Brunaliðinu á hátíðinni, þetta voru þær Erna Gunnarsdóttir, Eva Ásrún Albertsdóttir og Erna Þórarinsdóttir (síðar einnig þekktar sem Erna, Eva, Erna) en þær komu jafnframt fram með sveitinni um verslunarmannahelgina þar sem hún lék á útihátíðinni Rauðhettu ´78 sem haldin var við Úlfljótsvatn.

Brunaliðið 1978

Um mitt sumarið var tilkynnt um samstarf Brunaliðsins og tóbaksvarnarráðs og af því tilefni var gefið út veggspjald með mynd af sveitinni, skreytt með áróðri gegn tóbaksreykingum. Ýmsum þótti það kómískt í ljósi þess að flestir meðlima sveitarinnar reyktu eins og strompar og voru langt frá því neinar fyrirmyndir hvað það varðaði eða hvað snerti heilbrigt líferni almennt, þá er einkum átt við karlkyns hluta sveitarinnar. Til dæmis varð sveitin alræmd fyrir mikið sukklíferni og þetta sumar munu einhver met áreiðanlega hafa fallið ef marka má frásagnir manna í blaðaviðtölum og ævisöguminningum. Magnús Eiríksson segir t.a.m. frá því í bók sinni að eftir þetta sumar hafi honum ekki verið stætt á öðru en að hætta í sveitinni en þá hafi eiginkonan sett honum stólinn fyrir dyrnar, þá hafi hann t.d. rankað við sér úti í hrauni í Grímsnesinu með Volkswagen bjöllu á hvolfi við hliðina á sér. Báðar hurðir bílsins voru opnar og hjólin snerust ennþá en hann vissi ekkert. Magnús vildi þó meina að hann hefði verið algjör byrjandi í sukkinu í samanburði við nafna sinn Kjartansson og Pálma Gunnarsson sem voru miklu verri. Á Rauðhettu-hátíðinni (sem var reyndar áfengislaus samkoma) voru átján flöskur teknar af bandinu, að sögn Magnúsar Eiríkssonar. Þá hafði ónefndur breskur upptökumaður sem starfaði með sveitinni á einni plötunni verið kominn að því að gefast upp á sveitinni eftir að einn meðlima hennar flassaði tólunum framan í hann og söngkonur sveitarinnar, við upptökur í Hljóðrita. Hann mun þó hafa haldið áfram eftir eitthvað sem kallað var „sérmeðferð“ þeirra Brunaliðsmanna og innihélt í bland áfengi og kynlíf eftir því sem sagan segir. Ekki er þó nánar greint frá þeirri meðferð. Áfengið var  langt í frá eini vímugjafinn sem kom við sögu sveitarinnar þetta sumar, kemur fram í bók Magnúsar. Þess má einnig geta að barnastjarnan Ruth Reginalds var stundum með í för þetta sumar, og kom fram með sveitinni ótal sinnum en hún var þá á þrettánda ári.

Eftir verslunamannahelgina 1978 fóru þau Brunaliðsfólk á nýjan leik í hljóðver en miðað við gríðarmiklar vinsældir sveitarinnar var afráðið að gefa út jólaplötu og fylgja henni eftir með dansleikjahaldi, Jón Ólafsson útgefandi ákvað að mjólka markaðinn á meðan hann leyfði, og það var heldur betur gert því á þeim tveimur árum sem sveitin starfaði sendi hún frá sér alls fjórar plötur. Hluti sveitarinnar kom einnig við sögu á plötu Björgvins Halldórssonar, Ég syng fyrir þig sem tekin var upp um svipað leyti.

Gullplötuafhending fyrir fyrstu plötuna

Sveitin lék um haustið nokkuð á dansleikjum en einnig á tónleikum fyrir sérstaka hópa svo sem þroskaheft fólk, einhverf börn og fanga á Litla-Hrauni, en auk þess á stórum jólatónleikum í Háskólabíói sem báru yfirskriftina Jólakonsert ´78. Á síðast nefndu tónleikunum komu þær söngsystur Erna, Eva og Erna aftur við sögu sveitarinnar.

Jólaplatan kom út um haustið eins og ráðgert var og hét Með eld í hjarta. Hún hlaut varla nema sæmilegar viðtökur gagnrýnanda Morgunblaðsins og ágæta dóma í Tímanum en mun hafa selst sáralítið. Mörg laga hennar hafa hins vegar orðið að sígildum jólalögum í gegnum tíðina og heyrast ósjaldan leikin fyrir jól hver. Þar má nefna lög eins og Það á að gefa börnum brauð í flutningi Ragnhildar Gísladóttur en hún samdi sjálf lag við þessa gömlu þjóðvísu, Eitt lítið jólalag, Jóla jólasveinn og Þorláksmessukvöld sem Ragnhildur syngur líka, Einmana á jólanótt í flutningi Diddúar og Yfir fannhvíta jörð sem Pálmi Gunnarsson syngur. Lagið Eitt lítið jólalag var síðar endurgert í flutningi Birgittu Haukdal og hefur verið notað sem eins konar einkennislag Smáralindarinnar fyrir jólin.

En Brunaliðið fór í jólagírinn og lék á nokkrum dansleikjum í kringum jól og áramót, sem fyrr var nefnt var Magnús Eiríksson hættur í sveitinni þarna en auk þess átti Þórður Árnason gítarleikari ekki heimangengt en hann var þá á fullu með Þursaflokknum, Björgvin Gíslason leysti Þórð af en að öðru leyti var sveitin skipuð sama fólki og um sumarið.

Þess má geta að í sam-evrópsku sjónvarpsstöðvaverkefni var hluti lagsins Ég er á leiðinni notað sem áramótakveðja Íslendinga til Grikkja við áramótin 1978-79, og sýnt í gríska ríkissjónvarpinu.

Reyklausi dagurinn kynntur í Austurstrætinu

Brunaliðið fór mikinn í ársuppgjöri Dagblaðsins og Vikunnar sem gekk undir nafninu Stjörnumessan, en þar hlaut sveitin ýmsa nafnbót, lag ársins var auðvitað Ég er á leiðinni og söngkonurnar Diddú og Ragnhildur röðuðu sér í tvö efstu sætin yfir söngkonur ársins. Þá varð Brunaliðið í öðru sæti á vali hljómsveitar ársins á eftir Þursaflokknum og fimm af tíu stigahæstu í vali á hljóðfæraleikara ársins komu við sögu Brunaliðsins og plötu þess. Úr öskunni í eldinn varð jafnframt söluhæsta plata ársins.

Ekki var langt liðið á árið 1979 þegar Brunaliðið og tóbaksvarnarráð tóku höndum saman og gáfu út plötuna Burt með reykinn í tilefni af reyklausa deginum þann 23. janúar. Platan var tveggja laga en þau voru einnig flutt instrunmental á B-hliðinni, annars vegar Svæla, svæla, reykjarsvæla og hins vegar Söngur sígarettunnar, bæði lögin voru eftir Jóhann G. Jóhannsson. Að þessu sinni var Ragnhildur ekki með á plötunni þótt hún kæmi fram í kynningarefninu sem fylgdi útgáfunni en söngkonurnar þrjár Erna, Eva og  Erna sungu hins vegar fyrrnefnda lagið. Síðara lagið fluttu þeir bræður Halli og Laddi og má þar heyra tilraunir til rapps á íslensku sem klárlega má teljast meðal þeirra allra fyrstu hérlendis, þetta er sjálfsagt í fyrsta og eina skipti sem heyra má sígarettu rappa á hljómplötu og er Ísland þar ekki bara meðtalið. Upplag plötunnar var tíu þúsund eintök og var hún seld fyrir andvirði sígarettupakka í plötuverslunum. Þess var sérstaklega getið í fréttum og viðtölum í tengslum við útgáfu plötunnar að allir hefðu gefið sína vinnu við gerð hennar nema íslenska ríkið, sem ekki var til í að fella niður gjöld og álögur í tengslum við útgáfuna.

Eftir þetta samstarfsverkefni Brunaliðsins og tóbaksvarnaráðs (sem menn héldu áfram að kíma yfir) fór Brunaliðið í pásu frá spilamennsku enda hafði tónleika- og ballspilamennska í bland við sukk (og reykleysi) sjálfsagt tekið nokkurn toll, auk þess hafði upphaflega hugmyndin verið að safna saman stórstjörnum á plötu en ekki endilega að spila á dansleikjum, vinsældum lagsins Ég er á leiðinni var því hins vegar því um að kenna.

Brunaliðið 1979

Þeir Magnús hljómsveitarstjóri og Jón útgefandi hófu undirbúning fyrir útgáfu næstu plötu, sem þá yrði fjórða plata sveitarinnar á fimmtán mánuðum en áætlað var að hún kæmi út um verslunarmannahelgina 1979. Meðal laga sem til stóð að yrðu á nýju plötunni var lag Magnúsar Blöndal Jóhannssonar, Sveitin milli sanda sem Elly Vilhjálms hafði m.a. gert skil á plötu og gert vinsælt. Þetta varð til þess að Gunnar Þórðarson, sem einnig hafði hug á að hafa lagið á plötu með nýjum dúett sem bar heitið Þú og ég, hætti við það. Þeir Brunaliðs-félagar notuðu lagið hins vegar ekki og Gunnar gaf það út á annarri plötu Þú og ég sem kom út 1980. Um þetta leyti kom hluti sveitarinnar, einkum Ragnhildur, sterkir inn á plötunni Glámur og Skrámur í sjöunda himni sem naut nokkurra vinsælda 1979.

Brunaliðið kom aftur fram á sjónarsviðið vorið 1979 og var þá með mjög breytta liðsskipan og varla hægt að tala um sömu sveit, Diddú var horfin á braut sem og Laddi sem þarna var kominn á fullt með HLH-flokknum, Sigurður trommari sem genginn var í Íslenska kjötsúpu og Þórður gítarleikari en Erna, Eva og Erna voru nú orðnar fastir meðlimir sveitarinnar. Í raun var því um að ræða fjögurra kvenna sönghóp, auk Magnúsar og Pálma en ákveðið hafði verið að vera ekki með fasta trommu- og gítarleikara.

Sveitin kom lítið fram opinberlega framan af sumri en lauk við plötuna, Útkall sem kom svo út um verslunarmannahelgina. Tíu mínútna stuttmynd sem innihélt tvö lög af plötunni var sýnd í bíóhúsunum um sumarið svona rétt til að kynda undir og svo var farið af stað með stuttan en snarpan dansleikjatúr eftir verslunarmannahelgina 1979. Sú ferð hófst þann 9. ágúst og spilað var á fjórtán böllum út ágústmánuð. Með í för voru gítarleikarinn Birgir Hrafnsson sem verið hafði með í blábyrjun og enski trommarinn Jeff Seopardie, sá síðarnefndi ku hafa breyst úr dæmigerðum fáguðum enskum tedrykkjumanni í alíslenskan villimann og sukkara á fáeinum vikum í félagsskap Brunaliðsins. Pálmi sagði t.d. frá því löngu síðar í blaðaviðtali að sveitin hefði farið á balltúrnum í einhverja skemmtiferð með hraðbát og þegar komið var að landi var Englendingurinn það illa áttaður að hann gekk öfugu megin frá borði og gekk því óvart í sjóinn, beint ofan í olíubrák og grút.

Útkall fékk ekki nándar nærri eins góðar viðtökur og Úr öskunni í eldinn og hafði engan stórsmell á borð við Ég er á leiðinni, lögin sem voru níu talsins voru öll íslensk, komu úr öllum áttum og bar þar líklega hæst Stend með þér, Ég er að bíða eftir þér og Ástarsorg sem öll voru í rólegri kantinum. Sveitin var orðin mun fönkaðri en áður og kannski höfðaði það ekki jafn vel til hlustenda, og meira að segja birtust nokkuð lesendabréf í dagblöðunum þess efnis að sveitin væri ekki eins góð og áður. Platan fékk þokkalega dóma í Dagblaðinu og ágæta í Morgunblaðinu en slaka í Poppbók Jens Guðmundssonar, hún seldist ennfremur fremur illa einkum framan af en eitthvað rættist úr eftir því sem á leið.

Á veggspjaldi Vikunnar

Brunaliðið fór í stutt frí eftir ágúst-túrinn og eftir þá pásu komu Hrólfur Gunnarsson trymbill og Friðrik Karlsson gítarleikari inn í sveitina í stað þeirra Jeffs og Birgis. Sveitin lék þá á nokkrum almennum dansleikjum en einnig á skólaböllum og tónlistarkvöldum SATT en fór ekki í viðlíka sveitaballatúr og áður. Þá lék sveitin á jólatónleikunum Jólakonsert ´79.

Í upphafi árs 1980 fór sveitin ásamt HLH-flokknum til Cannes í Frakklandi og kynnti þar tónlist sína á MIDEM-tónlistarráðstefnunni á vegum Hljómplötuútgáfunnar. Brunaliðið hlaut þar ágætar viðtökur fyrir framlag sitt og einhver munnleg samkomulög voru gerð en ekkert varð frekar úr samstarfi í kjölfarið.

Fljótlega var ljóst að Brunaliðið myndi ekki starfa um sumarið þegar þau Ragnhildur Gísla og Magnús Kjartans gengu til liðs við hljómsveitina Brimkló, og í mars var sveitin svo endanlega hætt störfum. Þá hafði hún verið starfandi í tæp tvö ár og sent frá sér fjórar plötur, þrjár breiðskífur og eina smáskífu – sem reyndar höfðu komið út á fimmtán mánaða tímabili sem fyrr segir.

Einhverjir meðlima sveitarinnar komu um þetta leyti (vorið 1980) við sögu á sólóplötu Pálma Gunnarssonar, Hvers vegna varst‘ ekki kyrr? og fóru síðan í sína áttina, Ragnhildur og Magnús fóru sem fyrr segir í Brimkló, Pálmi birtist fljótlega með hljómsveitina Friðryk og söngkonurnar þrjár, nöfnurnar Ernurnar Gunnar- og Þórarinsdætur og Eva Ásrún birtust síðar í tríóinu Erna, Eva, Erna með plötu en allir Brunaliðar hafa gert garðinn frægan síðan með einum eða öðrum hætti.

Jólaplata Brunaliðsins, Með eld í hjarta, hafði selst fremur illa þegar hún kom út fyrir jólin 1978 en hún var endurútgefin á vegum Skífunnar (sem Jón hafði stofnað í millitíðinni) sem jólasafnplata haustið 1983 undir titlinum Ellefu jólalög. Sú útgáfa hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu og virtist sem poppskríbent blaðsins hefði ekki áttað sig á að um sömu plötu væri að ræða og kom út fimm árum áður með Brunaliðinu. Platan hefur síðan þá einnig verið endurútgefin sem Brunaliðs-plata.

Kvenhluti Brunaliðsins 1979

Brunaliðið kom saman sumarið 2014 þegar Jón Ólafsson útgefandi varð sextugur, og lék í afmælisveislu hans. Sveitin birtist síðan aftur vorið eftir (2015) og hélt þá tónleika í Hörpunni. Ekki var þó sveitin alveg fullskipuð í þessum kombökkum.

Lög sveitarinnar hafa komið út á ýmis konar safnplötum, bæði almennum safnplötum og jólasafnplötum sem og ferilssafnplötum meðlima Brunaliðsins eins og Magnúsar Kjartanssonar, Magnúsar Eiríkssonar, Ladda, Pálma Gunnarssonar og Diddúar.

Líklega hefur Brunaliðið hreinlega lifað of hratt, henni hafði reyndar aldrei verið ætlað að starfa nema í kringum plötuútgáfu en þegar menn komust á bragðið og fundu peningalyktina var ekki aftur snúið, og sukkið og ólifnaðurinn í kringum sveitina hjálpaði heldur ekki til. Sveitarinnar verður þó alltaf minnst fyrir nokkur lög sem lifað hafa allt til dagsins í dag og rís þar risasmellurinn Ég er á leiðinni auðvitað langhæst. Ef hægt væri að mæla vinsældir laga með einhverjum raunhæfum hætti væri það lag að öllum líkindum á topp þrjú vinsælustu laga í íslenskri tónlistarsögu, og sjálfsagt efst þar. Það var kannski svolítið til í því sem Ruth Reginalds sagði síðar, að hlutverk Brunaliðsins hefði fyrst og fremst verið að hleypa öllu í bál og brand.

Efni á plötum