Frummenn (1970 / 2004-06)

Stuðmenn / Frummenn

Hljómsveitin Frummenn spratt fram á sjónarsviðið sumarið 2005 með nokkru írafári en þegar betur var að gáð kom í ljós að þar var á ferðinni upprunaleg útgáfa Stuðmanna sem hafði ekki komið saman í þrjátíu og fimm ár.

Forsaga sveitarinnar er sú að þeir Valgeir Guðjónsson, Jakob Frímann Magnússon, Ragnar Danielsen og Gylfi Kristinsson tróðu upp klæddir tísku frumrokkáranna með viðeigandi brillíantín hárgreiðslu og lakkrísbindi, á árshátíð Menntaskólans við Hamrahlíð á Hótel Sögu vorið 1970, undir nafninu Stuðmenn en það var þá hallærislegasta hljómsveitanafn sem þeim kom í hug. Aldrei var ætlunin að stofna eiginlega hljómsveit heldur var þetta aðeins grín og galgopaháttur menntskælinga mitt í miðri síðháratísku proggtónlistar hippaáranna. Þeir félagar slógu í gegn með atriði sitt á árshátíðinni og fluttu þar nokkur lög úr ýmsum áttum, m.a. Honey, will you marry me, Draumur okkar beggja og She broke my heart, sem síðar urðu að góðum og gildum Stuðmannalögum en auk þess voru nokkrir gamlir rokk-slagarar á prógramminu. Eftir þetta árshátíðarævintýri liðu fjögur ár þar til eitthvað gerðist næst í Stuðmanna-sögunni en það er auðvitað önnur saga enda komu þeir Ragnar og Gylfi ekkert við sögu þar.

Síðan liðu þrjátíu og fjögur ár þar til upprunalegu meðlimir sveitarinnar komu aftur saman, þá (árið 2004) höfðu Stuðmenn átt sér sína frægðarsögu en þeir fjórmenningar voru þá kallaðir saman til að koma fram í fimmtugs afmælisveislu Arnar Andréssonar sem hafði verið rótari sveitarinnar á árshátíðinni forðum. Í kjölfarið kviknaði gamall neisti og á laun hófu þeir félagar að vinna með frumsamið efni sem hljóðrita skyldi og gefa út á plötu, þar var Valgeir afkastamestur en allir fjórir lögðu til lög.

Stuðmenn / Frummenn vorið 1970

Það var svo sumarið 2005 að Frummenn komu fram á opinberum vettvangi en sveitin tróð þá upp sem upphitunarband fyrir Stuðmenn og kölluðu sig Frummenn, þetta var á tónleikum í Húsdýragarðinum þar sem um átta þúsund manns hlýddu á. Í byrjun árs 2006 fóru þeir Frummenn svo til Los Angeles og hljóðrituðu fjórtán laga plötu með aðstoð þekktra session-manna og -kvenna.

Afraksturinn upptakanna kom svo út á plötunni Tapað / fundið: Hinir upprunalegu Stuðmenn, sem útgáfufyrirtækið Reykjavík Music gaf út um sumarið en reyndar hafði sveitin nokkrum mánuðum fyrr verið miðdepill aprílgabbs sem Morgunblaðið stóð fyrir en í því hafði verið sagt frá að fundist hefðu upptökur frá 1970 sem hefðu verið hreinsaðar og kæmu út fljótlega, hið rétta var auðvitað að upptökurnar voru nýjar.

Frummenn fylgdu plötunni eitthvað eftir með spilamennsku og um svipað leyti kom einnig út lag með sveitinni á safnplötunni 100% sumar. Annað lag af plötu þeirra kom svo út á safnplötunni Gleðilegt sumar (2007). Platan Tapað / fundið fékk ekki mikla athygli en hlaut þó þokkalegar viðtökur gagnrýnenda dagblaðanna, þannig fékk hún þokkalega dóma í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu og ágæta í DV.

Sumarið 2006 var gerð heimildamynd um sveitina sem var sýnd í Ríkissjónvarpinu um haustið en þá voru Frummenn hættir störfum og hafa líklega ekki komið fram síðan.

Efni á plötum