Rifsberja (1971-73)

Rifsberja1 (2)

Rifsberja hin fyrri

Nokkuð áreiðanlegt er að Stuðmenn hefðu aldrei orðið til án hljómsveitarinnar Rifsberju en hún var undanfari þessarar hljómsveitar allra landsmanna, þótt Stuðmenn hefðu þá reyndar þegar verið komnir fram á sjónarsviðið í fyrstu útgáfu sinni.

Rifsberja var stofnuð sumarið 1971 og nokkrum vikum síðar komu þeir fyrst fram opinberlega. Meðlimir voru þeir Þórður Árnason gítarleikari, Ásgeir Óskarsson trommuleikari, Tómas M. Tómasson bassaleikari og Gylfi Kristinsson söngvari.

Sveitin sem lék eins konar progrokk vakti strax mikla athygli fyrir góða spilamennsku og talað um hana þegar sem eina af björtustu vonum íslensks tónlistarlífs en meðlimir sveitarinnar voru allir um og undir tvítugu. Þessi fyrri útgáfa Rifsberju starfaði þó ekki nema fram að áramótum 1971-72 en þá hætti Ásgeir trommuleikari til að ganga til liðs við Ískross (Icecross).

Það leit því allt út fyrir að sögu sveitarinnar væri lokið, bandið fór í pásu á meðan leitað var að arftaka Ásgeirs en enginn nógu góður fyrirfannst í landinu. Árni Vilhjálmsson lék þó í eitthvert skipti með sveitinni og kölluðu þeir sig þá Glókollar og Krulli, það kvöld var áhersla lögð á samba með djassívafi og því varla hægt að tala um það sem part af sögu sveitarinnar. Ekki varð framhald á þeirri útgáfu Rifsberju.

Síðsumars 1972 þegar Þórður fór til Bretlands í því skyni að finna nothæfan trommuleikara kom hann til baka með Dave Duford, og þá gat Rifsberja aftur tekið til starfa. Jakob Frímann Magnússon hafði þá einnig bæst í hópinn sem orgel- og hljómborðsleikari og var sveitin þá orðin kvintett.

Ekki var það þó svo að Duford fengi að spila með Rifsberju óáreittur því FÍH (Félag íslenskra hljóðfæraleika), þá undir stjórn Sverris Garðarssonar, gekk hart fram í því að trommuleikarinn fengi ekki atvinnuleyfi hérlendis enda tæki hann vinnu frá íslenskum trommuleikurum, sem margir stæðu atvinnulausir hér á meðan Duford tæki af þeim starfið. Heilmikil blaðaskrif urðu útaf málunum en þrátt fyrir deilu sveitarinnar og FÍH var Duford ekki rekinn úr landi.

Margar skemmtilegar sögur hafa verið sagðar af uppákomum sem áttu sér stað í tengslum við Rifsberju, til að mynda var hluti af atriði hjá sveitinni einhverju sinni  á Akureyri að láta Jakob hníga niður á sviðinu og þegar hinir meðlimir sveitarinnar báru hann útaf datt sprauta úr vasa hans. Eftir á að hyggja var atriðið ekki svo sniðugt og ýtti undir kjaftagang um fíkniefnaneyslu þeirra.

Öðru sinni hafði sveitin í galsa sínum auglýst skemmtiatriðið eftirhermuna Bóas Daða og Karlakór Kolbeinseyjar, þegar hvergi bólaði á skemmtiatriðinu mætti húsvörðurinn upp á svið ásamt lögregluliði og rukkaði sveitina um atriðið. Þessi uppákoma var síðan notuð í ógleymanlega senu í kvikmyndinni Með allt á hreinu, þar sem Flosi Ólafsson lék húsvörðinn.

Rifsberja 1972 (3)

Rifsberja 1972

Frægt er líka þegar Helga Marteinsdóttir rekstrarstýra á Röðli sló Dufort með blautu handklæði á sviðinu þegar hann hafði farið hamförum í sólói á trommusettinu en þá ofbauð henni hávaðinn í trommaranum.

Það fór þó svo að lokum að lokum að meðlimir sveitarinnar fengu nóg, fóru af landi brott vorið 1973 til Bretlands – sumpart vegna framgöngu FÍH en einnig vegna þess að menn vildu breyta til og reyna fyrir sér erlendis. Síðustu vikurnar hér heima starfaði Magnús Kjartansson með sveitinni, m.a. til að leysa Gylfa söngvara af en hann var þá upptekinn við að lesa fyrir stúdentspróf. Magnús varð þó aldrei meðlimur sveitarinnar.

Þeir félagar fluttust sem fyrr segir til Bretlands um vorið en Gylfi varð eftir heima, til stóð að starfrækja sveitina þar í landi en fljótlega var ljóst að líftími hennar væri á enda og hópurinn leystist upp. Þórður hélt heim á leið en Jakob og Tómas voru ekki tilbúnir að koma heim strax aftur og áttu eftir að starfa í Bretlandi næstu árin, Jakob reyndar lengur og víðar erlendis. Og þegar félagarnir Jakob og Valgeir Guðjónsson, sem ásamt Gylfa og Ragnari Daníelssen höfðu starfrækt fyrstu útgáfu Stuðmanna í Menntaskólanum við Hamrahlíð nokkrum árum áður, ákváðu að taka upp plötu fengu þeir Tómas og aðra sem þá störfuðu í hljómsveitinni Change til að vinna fyrstu Stuðmannaplötuna. Þórður og Ásgeir áttu eftir að koma síðar til liðs við þá, sem og Gylfi sem söng „fisksalalagið“ í kvikmyndinni Með allt á hreinu, en það er auðvitað allt önnur saga.

Rifsberja kom saman aftur árið 2010 og lék þá opinberlega.