Complex [1] (1966)

Hljómsveitin Complex (Komplex) var skammlíf bítlasveit sem starfaði í Réttarholtsskóla í fáeina mánuði árið 1966.

Meðlimir sveitarinnar voru Ágúst Atlason söngvari (Ríó tríó o.fl.), Valgeir Guðjónsson gítarleikari (Stuðmenn o.fl.), Þórður Árnason gítarleikari (Þursaflokkurinn o.fl.), Gylfi Kristinsson bassaleikari (Stuðmenn o.fl.) og Eiríkur Þorsteinsson trommuleikari.

Complex var sem fyrr segir skammlíf sveit, kom líkast til aðeins einu sinni fram opinberlega (í pásu hjá hljómsveitinni Pops) og hætti eftir ágreining um ristaða brauðsneið með ananas-marmelaði sem Þórður mun hafa kastað í Gylfa.

Þórður gerði síðar tilraun til að endurvekja Complex, líklega ásamt Ágústi og Eiríki og tveimur öðrum en sú útgáfa sveitarinnar varð enn skammlífari og kom aldrei fram opinberlega.