
Rikshaw 1984
Rikshaw er þekktust íslenskra hljómsveita sem kenndar eru við svokallaða 80‘s tónlistarbylgju eða nýrómantík, sá partur er reyndar hvað fyrirferðaminnstur í sögu sveitarinnar enda komu einungis fjögur lög út með henni sem tengja má beint við þá tónlistarstefnu en Rikshaw gaf út þrjá tugi laga á um sjö ára starfsferli. Sveitarinnar verður þó líklega aldrei minnst öðruvísi en með þeirri nýrómantísku tónlistartengingu.
Rikshaw var stofnuð snemma sumars 1984 upp úr hljómsveitinni Boy‘s brigade, en hana höfðu Ingólfur Guðjónsson hljómborðsleikari, Sigurður Gröndal gítarleikari og Richard Scobie söngvari skipað ásamt Magnúsi Stefánssyni trommuleikara. Þeir Ingólfur, Sigurður og hinn hálf bandaríski Scobie fengu til liðs við sig Sigurð Hannesson trommara (Halló og heilasletturnar o.fl.) og Hafnfirðinginn Dag Hilmarsson bassaleikara (Omicron o.fl.), og þannig skipuð lék sveitin á sínum fyrstu tónleikum um haustið á skemmtistaðnum Zafari.
Sveitin lagði strax áherslu á að leika eingöngu frumsamin lög og vakti það athygli en var um leið umdeilt þar sem allt efni þeirra var á ensku, en söngvarinn hafði bandarískan bakgrunn eins og fyrr er nefnt.
Rikshaw naut strax vinsælda fyrir tónlist sína sem þótti vera í anda breskra nýrómantískra sveita eins og Duran Duran, og áttu þeir í erfiðleikum með að losna við þann stimpil. Þrátt fyrir það fóru þeir alla leið í ímyndinni þar sem blásið hár og útpældur tískufatnaður í stíl ýttu undir samlíkinguna við Duran Duran.
Sigurður trommuleikari staldraði ekki lengi í Rikshaw og hafði sagt skilið við það fyrir áramótin 1984-85 en Akureyringurinn Sigfús Óttarsson (Baraflokkurinn o.fl.) tók sæti hans, að öðru leyti var skipan sveitarinnar hin sama lengstum.
Rikshaw lagði áherslu á tónleikahald fremur en ballspilamennsku og þar af leiðandi lék hún nánast eingöngu á höfuðborgarsvæðinu, þó fór sveitin til Lundúna og lék í hinum frægi klúbbi Hippodrome sumarið 1985 fyrir á annað þúsund manns.
Um það leyti voru þeir félagar farnir að vinna að plötu með frumsömdu efni, frá upphafi var stefnt á að tónlistin yrði sem „erlendust“ og í anda þess sem nýbylgjutengdar hljóðgervlapoppsveitir voru að gera í Bretlandi, sbr. Duran Duran tengingin hér að ofan. Platan, sem kom út í nóvember 1985, var fjögurra laga og bar nafn sveitarinnar en ástæðan fyrir að ekki var ráðist í heila breiðskífu mun hafa verið fjárhagslegs eðlis. Ekki hafði fengist útgefandi að efninu og gáfu sveitarmeðlimir því plötuna út sjálfir undir merkinu Koolie Productions Inc.

Árið 1985
Skemmst er frá því að segja að platan sló algjörlega í gegn og urðu öll lögin fjögur feikivinsæl, vinsælast allra varð þó stórsmellurinn Into the burning moon en lögin komust öll á topp þrjátíu vinsældalista Rásar tvö, þar af þrjú samtímis.
Útlit og ímynd sveitarinnar var stór partur af vinsældunum og sveitin lét gera myndband við Into the burning moon sem kostaði skildinginn, þar pósaði Dóra Takefusa kornung en hún átti síðar eftir að láta að sér kveða í fjölmiðlum og víðar.
Þrátt fyrir gríðarlegar vinsældar voru fjölmiðlamenn ekkert yfir sig hrifnir og þeir áttu hvað stærstan þátt í að spyrða sveitina við Duran Duran og kalla þá félaga eftirhermur. Platan hlaut reyndar þokkalega dóma í DV en varla nema sæmilega í Morgunblaðinu. Lesendur Morgunblaðsins voru hins vegar öllu ánægðari með sveitina og kusu hana björtustu vonina, besta myndbandið o.fl.
Þarna um jólin 1985 ná vinsældir Rikshaw hámarki sínu með þessari fjögurra laga nýrómantengdu plötu sem hún er iðulega tengd við en þar með kúventist tónlist sveitarinnar án þess endilega að fólk tæki eftir því þar eð síðari plötur hennar náðu aldrei þeim hæðum sem sú fyrsta gerði. Þess vegna verður Rikshaw alltaf tengd Duran Duran í hugum fólks.
Í framhaldi af velgengni plötunnar fóru hjólin heldur betur að snúast og erlendir aðilar fengu áhuga á sveitinni. Af þeim sökum fluttust þeir félagar til London fljótlega eftir áramótin til að vinna í sínum málum. Þar fengu þeir plötusamning hjá breska útgáfufyrirtækinu Metropolitian en öll þau mál fóru af einhverjum ástæðum í biðstöðu og því gerðist lítið næstu mánuðina, þar spilaði einnig inn í að þeir Rikshaw liðar voru alltaf að bíða eftir „stóra“ útgáfusamningnum sem aldrei kom, og því ýttu þeir frá sér ýmsum minni en álitlegum tilboðum sem þeim stóð til boða. Sveitin vann þó að næstu breiðskífu og kláraði hana, það leið þó um eitt og hálft ár áður en hún loks kom út.
Sveitin kom þó aftur heim til Íslands og spilaði reglulega hér heima eins og áður, þar var bæði keyrt á gömlu og nýju efni þar sem tónlistin varð smám saman rokkaðri og stefndi burt frá synthasándinu sem hafði einkennt hana í upphafi. Rikshaw spilaði á stórtónleikunum Listapopp ´86 um sumarið 1986 ásamt fleiri íslenskum hljómsveitum sem hituðu upp fyrir stórsveitirnar Lloyd Cole and the Commotions, Madness, Fine young cannibals og Simply red. Einnig hitaði sveitin upp fyrir Bonnie Tyler nokkrum mánuðum síðar á afar eftirminnilegum tónleikum, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Að öðru leyti fór ekki mikið fyrir Rikshaw á tónleikasviðinu.
Um áramótin 1986-87 tók sveitin sér nokkurra mánaða frí til vors en var þó ekki áberandi í tónleikahaldi það árið, í pásunni vann sveitin tuttugu mínútna tónverk upp úr nokkrum erindum Völuspár sem Hrafn Gunnlaugsson hjá Ríkissjónvarpinu hafði beðið þá um, sýningu á því var þó frestað en það var frumsýnt um áramótin 1987-88. Einnig hafði verið gerður sjónvarpsþáttur um sveitina í þáttaröðinni Rokkararnir geta ekki þagnað, í ársbyrjun 1986.
Breiðskífan kom loksins út á Íslandi á vegum Metropolitian fyrir jólin 1987, hún hét einfaldlega Rikshaw eins og fjögurra laga platan tveim árum fyrr og hefur stundum verið kölluð „bláa platan“. Minna fór fyrir viðtökum aðdáenda sveitarinnar hér heima en menn höfðu átt von á þótt dómar um hana væru nokkuð samhljóma um gæði, Morgunblaðið, Helgarpósturinn og DV gáfu plötunni öll mjög góða dóma, og þótti hún eins og hönnuð fyrir Evrópumarkað sem auðvitað var markmiðið. Lagið Great wall of China sem hafði verið eitt laganna fjögurra á fyrstu plötunni, birtist nú aftur á þessari plötu en í nýrri og endurbættri útgáfu.

Sveitin árið 1987
Þegar platan kom að endingu út á Evrópumarkaði, í Þýskalandi (1988), Frakklandi (1989) og Bretlandi (1989) bar hún titilinn Yellow above the sea eftir einu laganna á plötunni. Hún innihélt sömu lögin og íslenska útgáfan hafði að geyma en lagaröðin var með mismunandi hætti, eftir löndum. Umslag plötunnar var einnig öðruvísi og voru Rikshaw-liðar ekki öldungis sáttir við þá hönnun né á tveim smáskífum sem einnig komu út með laginu Ordinary day. Einhverjar deilur og málaferli urðu vegna útgáfu plötunnar á vegum Just in distribution í Frakklandi en þar var platan gefin út í óþökk sveitarinnar, samningar höfðu ekki tekist um útgáfuna en fyrirtækið lét sér ekki segjast og gaf hana út. Nýlegar heimildir herma að platan hafi einnig komið út (að öllum líkindum í litlu upplagi) undir hljómsveitarnafninu Get what I want, án leyfis meðlima Rikshaw.
Í raun og veru var Rikshaw ekki virk lengur sem tónleikasveit þegar hér var komið sögu en flestir meðlimir hennar léku þó saman í ballhljómsveit hér heima sem hét Loðin rotta og naut mikilla vinsælda á öldurhúsum Reykjavíkurborgar. Sú sveit var stofnuð 1989 og var sá þráður sem hélt hópnum saman og varð til þess að þeir félagar fóru ekki í sína áttina hver, sú sveit átti sjálfsagt einnig einhvern þátt í því hvernig tónlist Rikshaw þróaðist, varð harðari og rokkaðri.
Rikshaw var þó enn starfandi og um líkt leyti og Yellow above the sea var að koma út í Bretlandi, lagði sveitin lokahönd á nýja plötu en hún hafði verið unnin á löngum tíma, ástæðan fyrir þessum langa tíma var að sveitin beið þess að útgáfusamningur sem hún var bundin af rynni út.
Aðeins hafði þá kvarnast úr hópnum en Dagur Hilmarsson bassaleikari var hættur og fluttur til Danmerkur. Ýmsir höfðu fyllt skarð hans um skemmri tíma s.s. Jakob Smári Magnússon og Björn Jr. Friðbjörnsson en Jóhann Ásmundsson tók að lokum við bassanum og lék á hann á upptökunum sem Eric Zobler annaðist. Ekki liggur þó fyrir hvort Jóhann var fullgildur meðlimur í Rikshaw.
Menn voru síður en svo hættir að hugsa til útlanda í meikdraumum sínum og nú var stefnan tekin á Bandaríkin með nýju plötunni, úr nægu efni var að moða og um tíma stóð jafnvel til að platan yrði tvöföld. Útgáfufyrirtækið Nepal records var stofnað og allt var lagt undir.
Platan kom út og bar titilinn Angels / devils. Á henni var enn að heyra breytingar á tónlistinni en þegar hér var komið sögu var hún orðin meira í ætt við amerískt rokk enda stíluð inn á þann markað sem fyrr segir. Og Angels / devils hlaut góða viðtökur gagnrýnenda hér heima, platan fékk til dæmis mjög góða dóma í Morgunblaðinu og DV. Viðtökur gagnrýnenda segja þó ekki alla söguna og platan fór að mestu framhjá hlustendum og kaupenum tónlistar á Íslandi, menn vildu kenna því um að Angels / devils hefði komið út alltof seint í jólaplötuflóðinu og hefði því einfaldlega orðið undir. Að minnsta kosti seldist platan mjög illa.
Til stóð að platan Angels / devils kæmi út á Skandinavíumarkaði, og þá undir hljómsveitarmerkinu Angels & devils vorið 1991, af því varð ekki en tvö lög með Angels & devils komu þó út á safnplötunni Icebreakers sem ætluð var til kynningar á íslenskri tónlist erlendis.
Flestum var ljóst að ævintýrinu var að ljúka, Rikshaw starfaði eitthvað áfram og þegar mannabreytingar urðu tíðari virtist sögu sveitarinnar senn endanlega lokið. Halldór Gunnlaugur Hauksson trommuleikari (Stjórnin o.fl.) settist við trommurnar í stað Sigfúss og Jóhann lék með þeim á bassann á tónleikum og undir blálokin hafði Þórður Bogason (úr Boy‘s brigade) tekið við söngnum af Richard Scobie, sem þá var fluttur til Bandaríkjanna.
Þannig lauk sögu þessarar merkilegustu eitís sveitar okkar Íslendinga um áramótin 1991-92 og fóru meðlimir sveitarinnar hver í sína áttina, Sigurður og Ingólfur áttu eftir að starfa með Pláhnetunni, Scobie birtist með sólóplötu skömmu síðar en Rikshaw var hætt.
Árið 2003 kom út safnplatan Rikshaw 85-90 á vegum Senu (Íslenskra tóna) en á henni var að finna úrval laga sveitarinnar ásamt þremur nýjum lögum, eins nýs, annars nýs tökulags og óútgefnu lagi frá 1986, tökulagið var Trúbrotslagið My friend and I. Platan fékk ágæta dóma í tímaritinu Orðlaus en að öðru leyti fór fremur lítið fyrir útgáfu plötunnar. Sveitin hélt þó vel sótta útgáfutónleika og gaf út að því loknu formlega yfirlýsingu þess efnis að sveitin væri endanlega hætt. Og þá var því endanlega lokið.