Afmælisbörn 27. mars 2021

Ragnar Björnsson

Afmælisbörn Glatkistunnar í dag eru fjögur talsins, öll eru látin:

Jón Hrólfsson harmonikkuleikari hefði átt afmæli í dag en hann lést 2017. Jón  (f. 1946) sem upphaflega kom af Melrakkasléttunni, lék með ýmsum harmonikkusveitum en kom einnig margsinnis einn síns liðs fram með nikkuna í gegnum tíðina. Hann gaf á sínum tíma út sólóplötuna Gleðihopp en gaf einnig út aðra plötu í samvinnu við Aðalstein Ísfjörð. Jón bjó á Akureyri síðustu áratugina.

Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari og tónskáld (1896-1979) átti einnig afmæli á þessum degi en hann er á margan hátt frumkvöðull í tónlistarsögu Íslands. Hann varð fyrstur Íslendinga til að læra á fiðlu, fór til þess fjórtán ára til Danmerkur og nokkru síðar í framhaldsnám til Þýskalands. Hér heima kenndi hann tónlist, stofnaði og stýrði hljómsveitum sem ýmist voru nefndar Hljómsveit Reykjavíkur eða Hljómsveit Þórarins Guðmundssonar og eru þær réttilega nefndar fyrstu alvöru hljómsveitir Íslands. Hann stýrði ennfremur og lék með Útvarpshljómsveitinni eftir stofnun þeirrar stofnunar. Þórarinn var einnig tónskáld og samdi mörg sönglög sem margir þekkja, meðal þeirra má nefna Land míns föður, Táp og fjör, Fósturlandsins freyja, Þú ert og Dísa.

Píanóleikarinn og hljómsveitastjórinn Gerrit Schuil hefði átt þennan afmælisdag einnig en hann lést árið 2019. Hann fæddist í Hollandi 1950 og nam þar tónmennt sína sem og í Bretlandi en fluttist hingað til lands 1993 og bjó hér og starfaði síðan. Gerrit lék á fjölda platna hérlendis og stjórnaði m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands svo fáein dæmi séu nefnd. Hann var kjörinn klassískur flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2011.

Að síðustu er hér nefndur organistinn og kórstjórnandinn Ragnar Björnsson (1926-98). Hann nam sín fræði hér heima og í Þýskalandi og Hollandi áður en hann sneri heim til Íslands og stýrði kórum og hljómsveitum, lengst stjórnaði hann karlakórnum Fóstbræðrum en einnig má nefna karlakórana Þresti og Geysi. Ragnar var ennfremur tónskáld og starfaði um tíma sem tónlistargagnrýnandi.

Vissir þú að Hallur Ingólfsson var trommuleikari hljómsveitarinnar Gypsy sem sigraði Músíktilraunir 1985?