Ragnar Björnsson (1926-98)

Ragnar Björnsson

Ragnar Björnsson

Ragnar Björnsson orgelleikari og kórstjórnandi kom víða við á tónlistarferli sínum, og eftir liggja plötur sem hafa að geyma orgelleik hans með verkum úr ýmsum áttum.

Ragnar fæddist 1926 að Torfustaðahúsum í Húnavatnssýslu en fjölskylda hans fluttist fljótlega að Hvammstanga þar sem eiginlegt tónlistarlegt uppeldi hans hófst, fyrst hjá föður sínum sem var organisti á þorpinu og síðar í Reykjavík m.a. hjá Páli Ísólfssyni, Victor Urbancic og Rögnvaldi Sigurjónssyni píanóleikara en Ragnar nam bæði orgel- og píanóleik hér heima áður en hann fór til framhaldsnáms til Danmerkur og Austurríkis. Reyndar segir sagan að Ragnar hafi þótt sérlega efnilegur strax á barnsaldri og hafi verið orðinn aðstoðarorganisti föður síns um níu ára aldur, jafnvel leyst af heila messu á þeim aldri.

Ragnar nam ekki einungis orgel- og píanóleik heldur einnig hljómsveitastjórnun í Hollandi og Þýskalandi, og þegar hann kom heim að loknu námi biðu hans verkefni sem mörkuðu stór tímamót á ferli hans. Þá var hann strax ráðinn til starfa sem söngstjóri Karlakórsins Fóstbræðra og því starfi gegndi hann samtals í tuttugu og sex ár, reyndar með einhverjum hléum. Ragnar kom einnig að stofnun Tónlistarskólans í Keflavík og þar gegndi hann embætti skólastjóra í sextán ár, stofnaði Nýja tónlistarskólann í Reykjavík og stýrði honum til dauðadags. Hann var einnig Dómorganisti um áratugar skeið og stofnaði þá ennfremur Óratóríukór innan Dómkirkjunnar, sem starfaði í nokkur ár.

Mörg verkefna Ragnars voru smærri í sniðum, hann stýrði til að mynda óperum og ballettum við Þjóðleikhúsið, átti þátt í stofnun félagsskaparins Óperu, hann stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands við ýmis tækifæri og stýrði fjölmörgum öðrum kórum en Fóstbræðrum, til dæmis karlakórnum Geysi á Akureyri í þrjú ár en þá ók hann norður um hverja helgi til að sinna því starfi, óháð veðrum og vindum. Hann stjórnaði einnig karlakórnum Þröstum um tíma.

Ragnar starfaði einnig sem tónlistargagnrýnandi á Morgunblaðinu um árabil og var umdeildur á köflum fyrir skrif sín, reyndar var hann einnig umdeildur í öðrum störfum sínum og var því ekki allra, þegar hann gekk hart í að „hreinsa til“ í Fóstbræðrum meðal eldri radda kórsins var nýr kór, Gamlir Fóstbræður, stofnaður í kjölfarið.

Hann var líka tónskáld, samdi nokkuð af tónverkum en fyrst og fremst var hann orgelleikari og komu út þrjár plötur með leik hans, fyrst kom út plata árið 1984 með íslenskri orgeltónlist þar sem Ragnar lék á orgel Kristskirkju, og um miðjan tíunda áratuginn komu út tvær plötur með árs millibili, 1995 kom út plata þar sem hann flutti orgelverk eftir Franz Liszt og hlaut hún góða dóma í Morgunblaðinu, og ári síðar platan Sögulegar upptökur, sem hafði að geyma upptökur úr fórum Ríkisútvarpsins, frá því um miðja öldina. Ragnar lék ennfremur á fjölmörgum plötum undir söng óperusöngvara og annarra söngvara, s.s. Guðrúnar Á. Símonar, Sigurveigar Hjaltested, Helenu Eyjólfsdóttur og Sigurðar Björnssonar.

Ragnar lést haustið 1998 eftir að hafa átt í erfiðum veikindum um tíma.

Efni á plötum