Raddbandið [4] (1987-97)

Raddbandið1

Raddbandið

Enn einn sönghópurinn undir nafninu Raddbandið kom fram á sjónarsviðið eftir miðjan níunda áratug liðinnar aldar, og er líklega frægastur þeirra kvartetta sem borið hefur þetta nafn.

Raddbandið var stofnað af nokkrum nemendum Verzlunarskóla Íslands árið 1987. Í fyrstu var um að ræða tríó þeirra Páls Ásgeirs Davíðssonar bassa, Hafsteins Hafsteinssonar tenórs og Árna Jóns Eggertssonar tenórs, sem þeir nefndu Bananabandið, en fljótlega bættist við baritónsöngvarinn Sigurður G. Sigurðsson. Við það tækifæri breyttu þeir nafninu í Raddbandið, sem þeir notuðu upp frá því.

Þeir félagar voru duglegir að bóka sig og komu fram víðs vegar um land og skemmtu öllum aldurshópum með söng og sprelli, en þeir voru sérlega áberandi á ýmsum söngskemmtunum sem haldnar voru um verslunarmannahelgar þessara ára. Þeir komu ennfremur nokkrum sinnum fram í sjónvarpi, t.a.m. oftar en einu sinni í þættinum Á tali hjá Hemma Gunn.

1994 var Raddbandið með skemmtidagskrá í Leikhúskjallaranum undir yfirskriftinni Ekki rífast piltar,  sem var í leikstjórn Hlínar Agnarsdóttur. Minna fór fyrir þeim hin síðari ár en svo virðist sem þeir hafi starfað saman allt til 1997.