Jón Hrólfsson (1946-2017)

Jón Hrólfsson3

Jón Hrólfsson

Harmonikkuleikarinn góðkunni Jón Hrólfsson telst meðal fremstu harmonikkuleikara landsins enda fæddur og uppalinn í mekka hljóðfærisins á Melrakkasléttunni.

Jón er fæddur (1946) og uppalinn í Sveinungsvík í Þistilfirði rétt sunnan Raufarhafnar en frá þeim slóðum hafa margir kunnir harmonikkuleikarar komið s.s. Ormarslónsbræður og Karl Jónatansson.

Jón mun hafa fengið áhugann á harmonikkuleik þegar hann heyrði þá Ormarslónsbræður, Jóhann og Þorstein leika í veislu en hann var þá einungis um fimm ára gamall. Fljótlega upp úr því hóf hann að æfa sig á harmonikku sem bróðir hans átti en hann eignaðist síðan eigin nikku um fjórtán ára aldur.

Hann mun framan af mestmegnis hafa leikið á heimaslóðum í Norður-Þingeyjasýslu, hann lék einn en einnig með hljómsveitinni Þaulæfðum á Raufarhöfn en þangað fluttist hann og bjó um tíma. Hann lék einnig í dúettum og tríóum víðs vegar um svæðið, m.a. með Aðalsteini Ísfjörð sem hann átti eftir að gefa út plötu með.

1981 gaf Jón út plötuna Gleðihopp undir merkjum Tónaútgáfunnar á Akureyri. Sú plata hafði að mestu að geyma erlend lög og þremur árum síðar kom út hjá sama útgáfufyrirtæki platan Samspil sem þeir Aðalsteinn Ísfjörð á Húsavík unnu saman. Sami kjarni hljóðfæraleikara lék á plötunum báðum en þær voru teknar upp í Stúdíó Bimbó hjá Pálma Guðmundssyni á Akureyri.

Jón flutti til Kópaskers og síðar inn á Akureyri og gerði út frá báðum stöðunum, hann lék á ýmsum harmonikkutengdum samkomum, oft með Aðalsteini Ísfjörð en einnig með fyrrgreindum Jóhanni frá Ormarslóni sem hann hafði reyndar numið af um tíma. Á þeim tíma var búið að stofna harmonikkufélög um land allt og lék hann á hátíðum tengdum þeim, Jón lék einnig undir ásamt öðrum í leiksýningum á Akureyri á verkinu Síldin kemur og síldin fer.

Jón lést í upphafi árs 2017

Efni á plötum